Uppfull af neikvæðni um Breiðholtið

breidholt-1-1

Séð yfir Efra Breiðholt. Í skýrslu Rauða krossins er fjallað á mjög gildishlaðinn og neikvæðan hátt um þennan borgarhluta.

Nýútkomin skýrsla Rauða krossins sem ber heitið Fólkið í skugganum hefur vakið miklar umræður – ekki síst sá hluti sem fjallar um Breiðholt meðal annars vegna þess að þar er að finna mjög neikvæðar, gildishlaðnar og nafnlausar tilvitnanir. „Breiðholtið sker sig úr öðrum hverfum borgarinnar og er meiriháttar vandi í uppsiglingu í Efra-Breiðholti. Talsvert er af börnum í Breiðholtshverfunum sem þurfa að alast upp við mikla fátækt. Þetta sést meira í Breiðholti en annars staðar – foreldrar hér eru ef til vill óstöðuglyndari – en staðreyndin er auðvitað sú að margt fólk býr við mikla fátækt og þá er ég ekki aðeins að tala um efnalega fátækt. Félagslega fátæktin er miklu erfiðari því hún er langvarandi,“ segir í skýrslunni.

Hér er að finna aðra tilvitnun – tilvitnun í mann sem kallaður er sérfræðingur en skýlt á bak við nafnleynd. Hér er farið gildishlöðnum og beinlínis ófögrum orðum um Efra Breiðholtið. „Það er margt sem við viljum ekki vita um Efra-Breiðholt. Það er láglaunasvæði með mikla fátækt og mörg þjóðarbrot. Innan um og saman við eru alls konar félagsleg vandamál sem virðast fá að grassera. Sumt má ekki tala um – eins og til dæmis að Fellaskóli kemur illa út úr PISA-samanburðinum. Við erum að sjá þarna fjórðu kynslóð í félagslegum vandræðum; grundvallarmistökin voru að flytja Höfðaborgina í blokkir í Fellahverfinu. Þarna er umtalsverður hópur ungra, ómenntaðra og fátækra mæðra – það verður stöðugt brýnna að koma í veg fyrir millikynslóðaflutning á félagslegum og geðrænum vanda. En verst staddir allra er erlent fólk í láglaunastörfum, oft barnmargar fjölskyldur sem er mest af í Breiðholtinu og gömlu hverfunum í miðborginni.“ Þar er einnig að finna færra fólk með framhaldsmenntun, eins og getið var að framan.“

Meira gert úr vanda en efni eru til

„Ég vil meina að þessi skýrsla sé alls ekki nægilega vel unnin og mun meira sé gert úr vandamálum í Breiðholtinu en ástæða er til. Fjallað er um Breiðholtið sem eina held en það eru í raun þrjú eða öllu heldur fjögur mismunandi hverfi þótt minnst sé á Fellahverfið sérstaklega,“ segir Nochole Light Mosti formaður hverfisráðs Breiðholts og nýkjörinn alþingismaður. Nichole segir að ekki sé fjallað um hvað unnið hafi verið fyrir íbúa í þessum borgarhluta sem samanstendur að talsverðu leyti af fólk sem flust hefur hingað frá öðrum löndum. „Það er verið að vitna í fólk sem sagt er vinna í hverfinu án þess að geta um hvaða fólk er um að ræða. Mér finnst skýrslan fremur líkjast blaðagrein en faglega unninni skýrslu frá jafn virtum aðila og Rauði krossinn er. Mér finnst skýrslan full af fordómum í garð hverfisins – fordómum sem lengi hafa verið til staðar en það leysir engan vanda að fjalla um byggðina með þessum hætti.“ Nichole segist gera sér grein fyrir að vinna með nýbúum sé langtímaverkefni. Margt sé búið að gera og annað fram undan. „Þrátt fyrir þetta þá ætla ég að vona að þessi skýrsla verið til að hraðað verði enn frekar þeim verkefnum sem eru fyrir hendi í nýbúasamfélaginu í Fellahverfi.“

Aðflutt fólk leitar oft eftir ódýru húsnæði

Nichole kveðst telja að fasteignaverð geti ráðið nokkru um hvar fólk af erlendum uppruna kýs að setjast að. „Fasteignaverðið í Efra Breiðholti hefur verið í lægri kantinum. Margir nýbúar koma úr samfélögum þar sem önnur hugsun er ríkjandi við fasteignakaup. Fólk er að spara saman til að eignast húsnæði. Vill eiga eitthvað til að kaupa fyrir í stað þess að treysta nær eingöngu á lánamarkaðinn eins og Íslendingum sé tamt. „Þá er einnig byggt inn í menningu sumra þjóða að halda góðum tengslum við fjölskyldur sínar – foreldra og systkini þótt fólk búi sitt í hvoru landi. Ég veit mörg dæmi um að fólk er ekki eingöngu að spara fyrir íbúðarkaupum heldur einnig til þess að hjálpa aðstandendum í gamla landinu þar sem lífskjör eru ekki eins góð og hér á landi. Svo er fólk líka að reyna að hittast og þótt flugfargjöld hafi lækkað verulega kostar umtalsverða fjármuni að fara á milli landa. Allt þetta getur stuðlað að því að fólk reyni að fjárfesta í eins ódýru húsnæði og það getur.“

Vitnað endalaust í huldufólk

Þórður Einarsson er fæddur og uppalinn í Fellunum og hefur starfað fyrir Leikni um árabil. Hann ritaði á dögunum grein á facebook. Þórður þekkir Fellin flestum betur. Hann segist stoltur af því að vera úr hverfinu og muni ekki búa annars staðar á Íslandi. Hann segir í grein sinni að í skýrslu Rauða krossins séu nokkur atriði sem komi fyrir aftur og aftur í kaflanum um 111 Reykjavík. Þar séu taldar upp einstæðar ungar mæður í félagshúsnæði, innflytjendur, fatlaðir, menntunarstig sagt lágt og talað um fólk með geðraskanir. Hann segir sjaldnast vísað í gögn heldur endalausar gæsalappir settar um orðræðu sem einhver mannapi (svo hans orðalag sé notað) á að hafa sagt og virðist ekki fengið úr neinum gögnum – alltént er ekki vísað í neitt svoleiðis.

Læsishlutfall bara í Fellaskóla yfir borgarmeðaltali

Í grein sem Ragnar Þorsteinsson, fyrrum skólastjóri Fellaskóla, fyrrum forstöðumaður Þjónustu-miðstöðvar Breiðholts og síðast sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar reit fyrir um ári segir eftirfarandi:i“Lesskimunin Læsi hefur verið lögð fyrir nemendur í 2. bekk í Fellaskóla frá árinu 2003. Á tímabilinu 2003 til 2013 var hlutfall nemenda sem gat lesið sér til gagns á bilinu 22 til 49% og var það hlutfall jafnan undir meðaltali annarra skóla borgarinnar. Á undanförnum tveimur árum hefur hins vegar hlutfall þeirra barna sem geta lesið sér til gagns í Fellaskóla tekið mikið stökk upp á við. Í fyrra (fyrir tveimur árum miðað við birtingu greinarinnar) gátu 65% nemenda lesið sér til gagns og var það aðeins einu prósentustigi undir meðaltali í borginni allri. Í vor mældist þetta hlutfall í Fellaskóla svo það hæsta frá upphafi, eða 67%, og er nú í fyrsta skipti yfir meðaltali í borginni. Starfsfólk, nemendur og foreldrar í Fellaskóla hafa ríka ástæðu til að fagna þessum árangri en að honum hefur verið unnið markvisst undanfarin ár með samstilltu átaki. Í þessum fjölmenningarlega skóla hefur verið lögð aukin áhersla á markvissa málörvun, læsi og lestur og nýjar kennsluaðferðir hafa verið innleiddar. Meðal annars var innleidd lestrarkennsluaðferðin PALS sem byggir á samvinnunámi. Stóraukin áhersla var jafnframt lögð á að bæta orðaforða, m.a. í gegnum spil og leiki. Kennarar unnu vel saman, höfðu mikla trú á getu nemenda, lögðu sig fram um að hrósa þeim og hvetja og gera til þeirra hæfilegar kröfur.“

Lögreglan hunsar ekki Fellahverfið

Lögreglumaðurinn Birgir Örn Guðjónsson einnig þekktur sem Biggi lögga skrifaði bloggfærslu eftir útkomu skýrslunnar þar sem segir að lögregla sinni hverfinu ekki vel. Hann segir í færslu sinni að lögreglumenn í Efra-Breiðholti sinni því svæði betur en nokkru öðru hverfi á hans svæði. Góðu fréttirnar séu þær að lögreglan sé alls ekki að hunsa þetta hverfi, síður en svo. Sorglegi sannleikurinn sé samt sá að yfirleitt séu einungis tveir lögreglubílar að annast eftirlit og útköll á þessu svæði, sem er bæði Kópavogur og Breiðholt,“ skrifar Birgir.

Nauðsynlegt að rjúfa vítahring fátæktar

Erla Björg Sigurðardóttir deildarstjóri gæða og rannsókna á skrifstofu sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar skrifaði blaða-grein á dögunum eftir útkomu umræddrar skýrslu. Í upphafi greinarinnar segir hún að ójafnrétti skapast af bágum fjárhag foreldra hafi áhrif á velferð allra í fjölskyldunni. Þeir sem búa við fátækt í æsku séu í áhættu fyrir að verða fátækir á fullorðinsárum. Í mestri áhættu séu börn einstæðra foreldra, foreldra með skerta starfsgetu og/eða litla menntun þ.e. hafa litla möguleika til að auka tekjur sínar með atvinnuþátttöku. Hún vitnar til greiningar UNICEF og einnig greiningar Hagstofunnar á sára fátækt frá 2012. Hún segir margt renna stoðum undir að börn foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð til framfærslu séu í áhættu með að líða skort eða sára fátækt. Stór hluti notenda fjárhagsaðstoðar til framfærslu sé með skerta starfsgetu og tæplega 40% þeirra hafi verið óvinnufær árið 2015. Sama ár var að meðaltali fjöldi barnafólks með fjárhagsaðstoð til framfærslu í Reykjavík 346 og fjöldi barna þeirra að meðaltali 536. Þá var fjöldi barnafólks að meðaltali með fjárhagsaðstoð til framfærslu í sex mánuði eða lengur 189 og fjöldi barna þeirra að meðaltali 298. Í niðurlagi greinar sinnar bendir Erla Björg á að til að rjúfa vítahring fátæktar meðal barna sé nauðsynlegt að bæta hag foreldra.

Stoltur að heyra fólk úr Breiðholti lýsa árangursríku starfi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir í vikulegum pistli sínum það hafa fyllt sig stolti að lesa og heyra hvert viðtalið á fætur öðru við fólk úr Breiðholti sem segir sögu sína, lýsir árangursríku starfi og verkefnum og því hvað hverfið er á góðri leið og býður sig fram til að taka þátt í að gera ennþá betur. „Það verður gaman að taka þátt í því en hverfisstjóri Breiðholts og forysta hverfisráðsins er að skipuleggja með mér fundi og samráð í lok nóvember þar sem við virkjum þann kraft og metnað sem hverfið býr yfir í næsta áfanga Breiðholtsverkefnisins sem hefur staðið yfir með góðum árangri síðustu ár.“

You may also like...