Hekla hf. í Mjóddina

Úr Suður-Mjódd í Breiðholti. Gert er ráð fyrir að athafnasvæði Heklu hf. verði suður af ÍR-svæðinu.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum 26 janúar sl. viljayfirlýsingu um að fyrirtækið Hekla hf. fái aðstöðu fyrir starfsemi sína í Mjóddinni í Breiðholti. Samkvæmt tillögu meirihluta borgarráðs; Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna er ætlunin að ráðstafa 24 þúsund fermetra lóð í Syðri-Mjóddinni til bílaumboðsins Heklu.

Upphaf þessa máls má rekja til þess að í lok apríl 2014 óskaði Hekla hf. eftir viðræðum við borgina um lóð við Bústaðaveg 151. Lóðin var ekki talin heppileg fyrir slíka starfsemi auk þess sem auglýsa ætti hana í opnu útboð þegar vinnu við deiliskipulag væri lokið. Að því loknu fóru af stað óformlegar viðræður skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og stjórnenda Heklu hf. um framtíðarstaðsetningu fyrir starfsemi fyrirtækisins. Leiddu þær viðræður til þess að stjórnendur Heklu hf. sendu Reykjavíkurborg bréflegt erindi 19. janúar 2016 og óskuðu eftir formlegum viðræðum um úthlutun lóðar í Suður Mjódd fyrir starfsemi fyrirtækisins í tengslum við viðræður um framtíðarþróun Heklureitsins við Laugaveg. Eftir það var ákveðið í borgarráði að fela skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og umhverfis- og skipulagssvæði að hefja viðræður við forsvarsmenn Heklu hf. um mögulega úthlutun lóðar í suður Mjódd til fyrirtækisins. Fyrir liggur að Reykjavíkurborg getur ráðstafað lóð í suður Mjódd án útboðs enda verði tryggt að lóðin verði seld á markaðsverði og byggðaþróunin á Heklureitnum við Laugaveg nái samhliða fram að ganga en hún gengur út á að rífa byggingar fyrirtækisins og skipuleggja íbúðabyggð á reitnum.

You may also like...