Fólk er orðið óþreyjufullt að komast í leikhús

– segir Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri –

Magnús Geir Þórðarson og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir með tveimur sonum. Myndin var tekin þegar Vísindasýning Villa var frumsýnd í Borgarleikhúsinu fyrir nokkrum árum. Drengirnir hafa vaxið talsvert síðan. 

„Leikárið er hafið af krafti og við erum full tilhlökkunar að taka á móti gestum á fjölbreyttar sýningar þess. Síðasta eitt og hálft ár hefur verið krefjandi vegna samkomutakmarkana og á þeim tíma höfum við lært margt og nýtt tímann vel. Því mætum við nýju leikári afskaplega vel undirbúin og klár í slaginn. Það sama má segja um áhorfendur því við finnum fyrir miklum leikhúsþorsta og áhuga meðal gesta enda gengur sala áskriftarkorta og miða á einstaka sýningar óskaplega vel. Leikárið er afar fjölbreytt og metnaðarfullt. Við finnum að fólk þráir að fá að koma í leikhúsið og upplifa leikhústöfrana og láta hreyfa við sér,“ segir Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri í Þjóðleikhúsinu í spjalli við Vesturbæjarblaðið en þegar er uppselt á fjölmargar sýningar haustsins, sýningar á Vertu úlfur, Rómeó og Júlíu og Kardemommubæinn.

Magnús Geir fékk leikhúsbakteríuna ungur að árum. Aðeins níu ára að aldri setti hann upp sína fyrstu leiksýningu og var svo á kafi í leikhúslífi alla barnæskuna. Eftir nám í leikstjórn leikstýrði hann fjölmörgum sýningum og tók fljótlega við sinni fyrstu leikhússtjórastöðu en síðan hefur hann stýrt öllum þremur atvinnuleikhúsum landsins, Leikfélagi Akureyrar, Borgarleikhúsinu og nú Þjóðleikhúsinu auk annarra leikhúsverkefna. Þá var hann útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, RÚV á árinum 2014 til 2020. Leikhúsin sem Magnús hefur stýrt hafa gengið afar vel undir hans stjórn og það sama má segja um starfsemi RÚV. Í hans tíð hjá RÚV vakti athygli hvernig áhersla á íslenskt efni og menningarefni stórjókst jafnframt því sem nýjar miðlunarleiðir voru innleiddar og þjónusta við börn var aukin.

Á milli menningar og viðskipta

Hvaðan kemur þessi ákafi áhugi á leikhúsi og menningarstarfsemi en einnig að láta starfsemi ganga rekstrarlega séð. Magnús Geir segir að þetta tvennt þurfi að fara saman enda er hann ekki ótengdur rekstri. „Ég er svo heppinn að hafa hlotið menningarlegt uppeldi þar sem ég fékk að njóta mikillar menningar í uppeldinu og listir voru eðlilegur hluti af lífi okkar. Á sama tíma hef ég alltaf  haft áhuga á stjórnun og viðskiptum, meðal annars vegna nálægðar við foreldra mína og fjölskyldu,“ segir Magnús Geir. Foreldrar hans eru Þórður Magnússon stofnandi og stjórnarformaður fjárfestingarfélagsins Eyrir Invest og Marta María Oddsdóttir menntaskólakennari. Eldri bróðir Magnúsar er Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel og yngri bróðir hans er Gunnar Þórðarson leikstjóri. „Ég hef alltaf fengið mikla hvatningu frá fjölskyldu minni sem er mér mkils virði.“

Byrjaði fyrir tíu ára aldur

Á tíunda ári fór Magnús Geir með hlutverk í kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar Hrafninn flýgur. Sé flett í eldri fréttum og blöðum má sá eitt og annað um bernsku- og ungdómsár hans. Í Helgarpóstinum frá því í september 1983 má lesa eftirfarandi. „Magnús Geir Þórðarson heitir níu ára skólapiltur úr Melaskóla, sem hefur verið að dunda sér við að skrifa leikrit í frítíma sínum. Leikritin eru nú orðin 15 og verður eitt þeirra, „Keisarinn“, flutt á barnaskemmtun í tilefni 10 ára afmælis Flugleiða um næstu helgi.“ 

Leiðtogahæfni í menntaskóla 

Þrátt fyrir leiklistaráhugann og ótrúlega framtakssemi fór Magnús Geir þessa hefðbundnu leið í Vesturbænum. Leiðin lá í Melaskóla og þaðan í Hagaskóla og svo í MR. Í Morgunblaðinu frá þeim tíma má lesa að á menntaskólaárunum í MR hafi Magnús Geir meðal annars tekið þátt í starfsemi Herranætur og leiðtogahæfni hans komið enn og aftur í ljós þegar hann hlaut afbragðskosningu sem Inspector scholae. Í Morgunblaðinu má einnig lesa að að Árni Oddur bróðir hans hafi haft orð á því að það sem einkenndi Magnús Geir strax þegar hann fór í leiklistina hafi verið þessi leiðtogahæfni hans, að geta myndað hóp og fengið hann með sér í stór verkefni.

Í leiklistarnám í Bretlandi 

Eftir menntaskólann slitnaði hin hefðbundna keðja. Magnús Geir fór hvorki í lögfræði eða viðskiptafræði eða önnur fræði í Háskóla Íslands sem hefðu tengst fjölskyldu hans. Háskólanám af þeim toga heillaði hann ekki. Leiklistin hafði þá tekið huga hans. Hann hélt til Englands þar sem hann stundaði nám við Bristol Old Vic Theatre School, sem er virtur leiklistarskóli. Að námi lokni tók hann aftur við leiklistarstörf og einkum leikstjórn hér heima. Síðar lauk hann meistaranámi í leikhúsfræðum frá University of Wales og MBA-námi frá HR 2005. Eftir heimkomuna starfaði hann fyrir Leikfélag Reykjavíkur og leikstýrði fjölmörgum leiksýningum. Hann stofnaði Leikfélag Íslands ásamt nokkrum félögum sínum og setti leikritið Stone Free eftir breska höfundinn Jim Cartwright á svið í Borgarleikhúsinu. Jim Cartwright var orðinn þekktur og vinsæll höfundur í Bretlandi en þótti ekki alltaf fara hefðbundnar leiðir. Í þessu verki var hann að fjalla um hippatímabilið sem gekk yfir eftir miðja síðustu öld. Sýningin í Borgarleikhúsinu var heldur ekki hefðbundin. Áhorfendur sátu á sviðinu og vakti hún mikla athygli bæði fyrir efnisinnihald, leiktúlkun og umgjörð. Sýningin sló rækilega í gegn og gekk fyrir fullu húsi allt árið.

Fór til Akureyrar 

Magnús Geir stýrði Leikfélagi Íslands næstu fimm árin og stýrði einnig nokkrum verkefnum bæði hér heima og í Bretlandi. Eftir það lá leiðin norður í land þar sem tók við starfi leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar árið 2004. Við tók mikið blómaskeið hjá Leikfélagi Akureyrar. „Ég lagði allt undir. Flutti til Akureyrar og fékk frelsi til að móta starfsemina að mestu eftir minni sýn. Okkur tókst að setja saman ótrúlega þéttan hóp sem saman skapaði eftirminnilegar sýningar og leikhúsið fékk ótrúlegan meðbyr. Þetta var svakalega skemmtilegt og leikhúsið dró að leikhúsgesti af landinu öllu. Þarna eignaðist ég líka frábæra vini sem margir hverjir eru enn að vinna með mér í dag,“ segir Magnús Geir. Á Akureyri kynntist hann einnig Ingibjörgu Ösp Stefánsdóttur sem síðar átti eftir að verða eiginkona Magnúsar. Þau búa í Vesturbænum með fjórum af fimm börnum sínum.  Ingibjörg er forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins.  

Frábær samstaða og stemning í Borgarleikhúsinu

En leiðin lá aftur suður. „Já – eftir dásamleg ár á Akureyri bauðst mér að taka við Borgarleikhúsinu árið 2008. Ég sá ótal tækifæri í Borgarleikhúsinu og þar skapaðist frábær samstaða og stemning. Þrátt fyrir að efnahagshrunið skylli á fljótlega eftir að ég tók við sem leikhússtjóri, þá tókst okkur að sækja fram og margar áhugaverðar tilraunir voru gerðar.“  Borgarleikhúsið gekk vel í tíð Magnúsar Geirs, aðsókn stórjókst og nýtt fyrirkomulag áskriftarkorta skilaði sér í algerri sprengju í fjölda kortagesta í leikhúsið.

Ekki leiður á leikhúsinu en spennandi að taka við RÚV

Leiðin lá svo til RÚV. Var Magnús Geir orðinn leiður á leikhúsinu?  Hann segir það af og frá. Hann hafi fyrst og fremst verið upp með sér að leitað hafi verið til sín að stýra þeirri merku menningarstofnun sem RÚV er og jafnframt haft nokkuð skýrar hugmyndir um áherslubreytingar í starfsemi ríkisfjölmiðilsins. Hann segir að eitt meginverkefni sitt hafi verið að skerpa á hlutverki RÚV og sérstöðu. „Ég lagði áherslu á að auka framboð af innlendu efni og menningarefni auk efnis fyrir börn og ungmenni. Á þessum tíma var framleiðsla leikins efnis líka stóraukin og nýjar miðlunarleiðir í gegnum vef og snjallforrit þróaðar. Samhliða var tekið til í rekstrinum og tekið á margar ára uppsöfnuðum skuldavanda RÚV, m.a. með þróun og sölu byggingarlóða í kringum Útvarpshúsið.“ Magnús segist vera stoltur af árangri RÚV á þessum árum og að þessi tími hafi víkkað út sjóndeildarhringinn og kennt sér margt.

Við erum full af eldmóði 

„Þótt staðan í RÚV hafi verið góð og ég hafi notið mín vel þar, þá togaði leikhúsið alltaf í mig.  Því var það svo að þegar staða Þjóðleikhússtjóra losnaði, þá langaði mig í leikhúsið aftur. Enda er leikhúsið draumaveröld – alveg óskaplega heillandi. Mér fannst ég geta skilið við RÚV með góðri samvisku, margt hafði áunnist og staðan var afar sterk. Það var einstaklega ánægjulegt að koma aftur í leikhúsið og nú í sjálft Þjóðleikhúsið. Hér er ótrúlega merk saga, fullt af framúrskarandi listamönnum og starfsliði og húsið sjálft er einstakt leikhús. Jafnframt sá ég ótal tækifæri til að sækja fram og nú höfum við frískað upp á áherslur leikhússins, þétt og eflt hóp listamanna og listrænna stjórnenda og farið í gagngerar endurbætur á allri aðstöðu sem skilar sér í stórbættri upplifun leikhúsgesta, nýrri veitingasölu og þess háttar. Þrátt fyrir að Covid skylli á örfáum mánuðum eftir að ég tók við starfinu, þá hefur okkur tekist að koma á svið ófáum framúrskandi leiksýningum sem hafa hrifið áhorfendur og sópað til sín verðlaunum auk þess sem við höfum nýtt tímann vel í ýmis verkefni þar sem við fórum með leikhúsið út til fólksins á tímum faraldursins. Á sama tíma höfum við undirbúið þetta nýja leikár einstaklega vel og  mætum full  eldmóðs og ástríðu. Ég vona að vetrardagskráin beri þess merki. Við hófum haustið með sýningu á hinu klassíska verki Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare í leikstjorn Þorleifs Arnarsonar. Af öðrum verkum má nefna að Vertu úlfur og Nashyrningarnir snúa aftur á fjalirnar. Ásta er verk um æfi Ástu Sigurðardóttur skáldkonu og svo birtast hinir sívinsælu þremenningar og ræningjar Kasper, Jesper og Jónatan aftur á sviðinu. Ómögulegt er að nefna öll verkefni vetrarins hér en þó má nefna tvær stórsýningar síðar á leikárinu, Framúrskarandi vinkonu eftir Elenu Ferrante í leikstjórn hinnar virtu Yael Farber og glænýr söngleikur, Sem á himni í leikstjórn Unnar Aspar Stefánsdóttur. Við erum full tilhlökkunar fyrir vetrinum og ég sjálfur fyllist ánægju og þakklæti á degi hverjum þegar ég geng upp að þessu töfrahúsi.“

Afskaplega ánægð í Vesturbænum 

 „Við erum í Vesturbænum og óskaplega ánægð. Ég er ekki aðeins uppalinn í hverfinu með sterkar rætur í umhverfinu heldur hefur Vesturbærinn og umgjörð hans allt að bjóða. Stutt í Miðbæinn og nú er ég stundum farinn að hjóla í vinnuna. Við Ingibjörg mín búum við Ægissíðuna þar sem við höfum gott útsýni út á sjóinn. Fyrir utan stóru krakkana þrjá, þá erum við með tvo kraftmikla Vesturbæjarstráka sem hjóla í Melaskóla og KR á víxl.“

Björn Thors í hlutverki sínu í verkinu Vertu úlfur. Ein sterkast sýning sem lengi hefur verið sett á fjalir Þjóðleikhússins.
Hið ódauðlega verk Romeo og Júlía er skrautfjöður Þjóðleikhússins á þess leikári. Verkið hefur verið fært í nútímalegan búning þar sem einkum er höfðað til ungs fólks.
Framúrskarandi vinkonur eftir Elenu Ferrante verður sett á svið Þjóðleikhússins í vetur í leikstjórn Yael Farber.

You may also like...