Leikskóli á grænni grein
Nemendur og starfsfólk Leikskóla Seltjarnarness fengu á dögunum afhentan nýjan Grænfána í fjórða sinn, en þess má geta að Mánabrekka hafði áður fengið fánann þrisvar sinnum frá árinu 2004 þannig að þetta er í sjöunda skipti sem skólinn fagnar af þessu tilefni.
Caitlin Wilson, verkefnastjóri fyrir Skóla á grænni grein, afhenti fánann og viðurkenningu til leikskólans við hátíðlega athöfn. Börn og starfsfólk fögnuðu þessum áfanga með söng, þar sem lagatextar fjölluðu um náttúruna og umhverfi okkar. Nemendur af Ási og Bakka leiddu sönginn undir stjórn Sesselju Kristjánsdóttur. Börn af Ási og Bakka hjálpuðu svo Önnu Harðardóttur aðstoðarleikskólastjóra við að draga Grænfánann að húni, en Anna hefur haft umsjón með verkefninu í leikskólanum og séð um umhverfisfræðslu nemenda. Í Leikskóla Seltjarnarness er um-hverfismennt einn af áhersluþáttum í uppeldisstarfinu og skipar Grænfánaverkefnið þar stóran sess. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um góða fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Fánann fá skólar í kjölfar verkefna sem er ætlað að efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin efla þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Í umsögn Landverndar til Leikskóla Seltjarnarnarness segir: Skólinn stendur sig vel í verkefninu og er að vinna mjög gott starf. Nemendur og starfsfólk eru virk innan verkefnisins og er umhverfisstarfið orðið rótgróið í starfi skólans.