Seljahverfi í Breiðholti

– byggt á skipulagi þar sem þarfir manneskjunnar voru hafðar í fyrirrúmi –

Breiðholtsbærinn stóð neðst í Seljahverfinu. Gróðrarstöðin Alaska var lengi til húsa í gamla Breiðholtfjósinu.

Seljahverfi er yngsta Breiðholtshverfanna. Bygging þess hófst um 1972 og var að mestu lokið á einum áratug. Ekki var gert ráð fyrir húsnæði af félagslegum toga líkt og hinum Breiðholtshverfunum en lögð áhersla á fjölbreytta byggð. Með Seljahverfinu kom nýr stíll í byggingu íbúðahverfa. Byggðin var þéttari. Umferð var takmörkuð og áhersla lögð á auðveldan samgang íbúanna. Fyrsta fólkið til að reisa sér hús í Seljahverfi voru hjónin Hrefna Ásmundsdóttir og Gissur Þorvaldsson, foreldrar Þorvaldar Gissurarsonar byggingameistara og verktaka. Þau tóku fyrstu skóflustunguna að húsi sínu við Akrasel 7 og raunar þessu nýja hverfi á haustdögum 1973. Í fyrstu stóð þetta hús stakt í brekkunni og var þá stundum nefnt “Húsið á sléttunni” eftir vinsælum bandarískum sjónvarpsþætti. Húsið stóð þó ekki lengi einsamalt því húsum fjölgaði fljótt og hverfið byggist hratt eins og aðrir hlutar Breiðholtsins.

Guðrún Jónsdóttir og Knútur Jeppesen arkitektar skipulögðu Seljahverfið. Þessa þriðju byggð í Breiðholti. Í upphafi var gert ráð fyrir að eingöngu risu einbýlishús og raðhús í Seljahverfinu. Var það hugsað sem mótvægi við hin hverfin tvö þar sem áhersla var lögð á fjölbýli. Síðar var ákveðið að byggja einnig minni fjölbýlishús í Seljunum. Áhugi hafði komið frá minni byggingarfyrirtækjum um að reistar yrðu slíkar byggðir. Fyrirtækjum sem ekki höfði aðstöðu til þess að ráðast í stórar byggingar á borð við þær sem risið höfðu í Efra Breiðholti. Var fjölbýlishúsabyggðinni valinn staður á Fálkahól en það svæði hafði verið talið óbyggilegt sökum hæðar yfir sjávarmáli þótt annað hafi komið í ljós. Eitt sinn mun Guðrún hafa komist svo að orði um skipulagið á Fálkahólnum væri eins og rós. Þakbyggingar voru skipulagðar á þann hátt að úr lofti mynduðu þær einskonar mynstur.  

Ákveðið var að miðja eða miðbær Seljahverfisins yrði í dalverpinu þar sem tjörnin er. Hjúkrunarheimilið stendur tígulegt og speglast í tjörninni á góðviðrisdögum.

Þyrpingar og útirými

Ein af áherslum við skipulag Seljahverfisins var að draga úr umferð um íbúðabyggðir og miða hana sem mest við ferðir til og frá hýbýlum fólks. Einnig var gætt að því að byggingar féllu vel að landslaginu og hús vörpuðu sem minnstum skugga. Áhersla var lögð á þétta byggð. Þéttari en áður hafði tíðkast. Húsum var skipt í þyrpingar og einnig útirými þar sem kröfum um aðgang að garði fyrir hverja og eina íbúð var mætt að einhverju leyti. Ein nýjung í mótum Seljahverfisins var að fá tilvonandi íbúa til að taka þátt í mótun skipulagsins. Slíka tilraunareiti er að finna við göturnar Kögursel, Kambasel, Hálsasel og Heiðarsel. Þar er einbýlishúsum komið fyrir í þéttum þyrpingum með sameiginlegu leiksvæði á milli húsa auk þess sem hvert hús á sína einkalóð. Íbúarnir fengu að vera með í ráðum um skipulagið sem hefur elst vel.

Allt frá litlum íbúðum í stór einbýli

Þau Guðrún og Knútur lögði áherslu á að ná fram fjölbreytni og skapa aðstæður fyrir margar gerðir af íbúðarhúsnæði. Finna má allt frá litlum fjölbýlishúsaíbúðum upp í einhver stærstu einbýlishús í Reykjavík í Seljahverfi. Hugsunin á bak við þessa fjölbreytni var að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Einnig var litið til þess að fjölskyldur þyrftu ekki að flytja úr hverfinu þótt þær stækkuðu 

Hrefna Ásmundsdóttir og Gissur Þorvaldsson voru frumbýlingar í Seljahverfi. Þau tóku fyrstu skóflustunguna að húsi sínu við Akrasel 7 og raunar þessu nýja hverfi á haustdögum 1973 og voru flutt inn um ári síðar. Gissur er látinn fyrir nokkru og húsið komið í annara eigu.

Fyrsta húsið í hverfinu

Margir byggðu hús sín sjálfir í Seljahverfi eins og tíðkaðist á þeim tíma. Svo var um frumbyggjana Hrefnu Ásmundsdóttir og Gissur Þorvaldsson. Þau sögðu byggingarsögu sína í spjalli við Breiðholtblaðið fyrir nokkrum árum en Gissur er nú látin. “Við erum frumbyggjar í Seljahverfinu. Tókum fyrstu skóflustunguna að húsinu okkar í september 1973 og ætlunin var að gera það fokhelt eftir áramótin 1974. En þá kom nokkuð langur frostakafli sem stóð í einar sex vikur og ekkert var hægt að steypa. Því fóru öll verk í bið, við byrjuðum aftur strax og þiðnaði upp úr miðjum mars og efri hæðin kom fljótlega. Vegna tafarinnar urðum við að vinna nokkuð rösklega að þessu en tókst þó að flytja inn í húsið í júlí tæpu ári eftir að fyrsta skóflan fór ofan í moldina. Auðvitað fluttum við inn í allt hrátt. Varla komin eldhúsinnrétting og tæpast bað. En við létum okkur hafa það. Það voru ekki mikla peninga að hafa á þessum tíma og ef maður fór í banka til þess að fá lánað fé varð alltaf að biðja um helmingi hærri upphæð heldur en komast átti af með því bankarnir deildu alltaf í með tveimur. Lánsupphæðir voru jafnan skornar niður um helming. Maður reyndi því að leggja einhverja peninga inn eins víða og maður gat til að sýna viðskipti og fór svo til að biðja um lán.“

Skipulögðu þrjár lóðir saman

Sigtryggur R. Eyþórsson kenndur við heildverslunina XCO sem hann stofnaði með fleirum og hefur rekið í áratugi byggði við hliðina á Gissuri og Hrefnu. Hann flutti inn ásamt fjölskyldu sinni í nýtt hús vorið 1976. Hann sagði frá því í viðtali við Breiðholtsblaðið að þrjár fjölskyldur, sem byggt höfðu hlið við hlið hafi ákveðið að skipuleggja lóðirnar saman. Það var fjölskylda Gissurar Þorvaldssonar sem byggt hafði á númer sjö, hans fjölskylda á númer níu og Vigfús Björnsson, bakarameistari, sem þá var annar af eigendum Breiðholtsbakarís og byggt hafði á númer 11. “Við fengum garðyrkjumeistara til þess að vinna þetta skipulag þannig að lóðirnar mynduðu eina heild. Við settum ekki upp neinar girðingar eða hekk til þess að aðskilja þær þannig að þær voru eins og einn garður. Þetta heppnaðist mjög vel og skapaði grundvöll fyrir góð samskipti og mikinn samgang við nágranna okkar.” Þess má geta að Sigtryggur og Þorbjörg Guðmundsdóttir kona hans munu vera einu frumbýlingarnir við þessa af fyrstu götum í Seljahverfi sem búa enn í húsi sínu frá árinu 1976 eða í 44 ár samfleytt.

Almenn samstaða um að rækta

Þegar Seljahverfið var byggt var hluti þess í landi Kópavogsbæjar. Þau mál voru síðan leyst með makaskiptum við Kópavogsbæ og varð Reykjavíkurborg að láta af hendi land ofan Blesugrófar. Þessi Kópavogsættaða byggð sem stundum er kölluð Þ-selin vegna þess að flest götuheitin byrja á bókstafnum Þ er vestan Skógarsels. Guðjón Þorkelsson var einn hinna um fjörutíu aðila sem fékk lóð og byggði hús í þeim hluta hverfisins. Hann spjallaði við Breiðholtsblaðið fyrir nokkrum árum. „Þetta fór mjög vel af stað. Þarna var mói þar sem krakkar höfðu leikið sér en þegar ákveðið var að úthluta því sem byggingarlandi og hefja húsbyggingar þá byggðist þetta upp á mettíma í samanburði við hvernig áraði því ýmsir erfiðleikar voru í samfélaginu eins og bæði fyrr og síðar. Svo fóru menn að ganga frá umhverfinu, lóðunum og rækta. Þessi byggð stendur einna lægst í Breiðholtinu og ekkert stóð á að fá gróðurinn til þess að koma upp. Ég held líka að sú almenna samstaða sem var í hverfinu um að rækta og fegra umhverfið hafi fljótt farið að skila sér. Hér byggði hver sitt hús og stýrði framkvæmdum sínum sjálfur. Ég er þess fullviss að það átti sinn þátt hversu fljótt íbúarnir tóku til við umhverfismálin.”

Fyrir nokkrum árum var efnt til viðamikillar hreinsunar í miðbæ Seljahverfisins. Hér eru sjálfboðaliðar að hreinsa tjörnina á góðviðrisdegi.

Þarfir manneskjunnar

Skipulag hverfisins á án efa þátt í hversu gróðurvænt það er. Breiðholtinu var ekki spáð mikilli gróðursæld í byrjun. Það var talið standa of hátt yfir sjávarmáli til þess að trjágróður næði að þroskast. Reyndin varð öll önnur. Seljahverfið er ein gróðursælasta byggð Reykjavíkur. Líkt og Bakkahverfið og Fella og Hólahverfið þó einkum Fellahverfið væru nýjungar í byggingarsögu Reykjavíkur má segja að Seljahverfið sé það ekki síður. Það var hannað og byggt til þess að mæta fjölbreyttari þörfum en hin og auka breidd byggðar og mannlífs í Breiðholti. Með byggingu þess hófst að segja má nýr kafli í skipulagi íbúðabyggða. Skipulag þar sem þarfir manneskjunnar voru hafðar í fyrirrúmi.

You may also like...