Hótel Saga 55 ára
Á Hótel Sögu eru nú að hefjast miklar framkvæmdir á 1. og 2. hæð hótelsins. Það er við hæfi að það beri upp á 55 ára afmæli hótelsins. Sérstök virðing verður borin fyrir sögunni, Bændasamtökin hafa átt hótelið frá upphafi og verður sú tenging efld enn frekar. Grillið komst m.a. á Michelin-listann í ár og verður áfram byggt á matarstefnunni sem mörkuð hefur verið þar undanfarin ár. Búið er að opna bakarí á hótelinu og eru nýbökuð brauð og kökur á boðstólnum fyrir gesti og er það hluti af aukinni áherslu á matarmenningu innan veggja hótelsins.
Það var sannkölluð gleðistund í síðasta viðburðinum í Súlnasalnum fyrir endurbætur og auðvitað kom Raggi Bjarna og tók nokkur lög en hann söng með hljómsveit sinni í Súlnasal 3 til 4 sinnum í viku í tæp 20 ár. Framkvæmdum verður skipt í tvennt, fyrst verður það eldhúsið, Súlnasalur og ný gestamóttaka og standa vonir til að því ljúki snemma í vetur. Í kjölfarið hefjast framkvæmdir við seinni helminginn, Mímisbar, nýjan veitingastað og setustofu, og stefnt á að allt verði komið í notkun snemma vors 2018. Nærumhverfi hótelsins er einn af miðpunktunum í allri stefnumótun hótelsins. Rík áhersla er lögð á sögu og menningu en það er svo sannarlega að byggjast upp skemmtilegur kjarni í Vesturbænum og ætlar hótelið sér að verða áberandi miðpunktur þessa kjarna.