Margt kom á óvart í Dubai
Björgvin Þór Hólmgeirsson er kominn heim eftir tveggja ára dvöl í Dubai og mun nú spila með sínu gamla félagi ÍR á nýjan leik. Björgvin skoraði 168 mörk í 22 leikjum með ÍR-ingum í deildarkeppninni 2014 til 2015 og endaði liðið þá í þriðja sæti. Eftir fall úr deildinni án Björgvins árið eftir er ÍR-liðið aftur komið í deild þeirra bestu og ætlar Björgvin að gera sitt besta til að tryggja framgang þess á næstu leiktíð.
En hver voru tildrögin að Björgvin fór til Dubai að spila handbolta. “Þau voru að mér fannst ég kominn á endastöð og verða að fá að prufa eitthvað nýtt. Ég var búinn að fá samningstilboð frá Svíþjóð en síðan dróst að ég heyrði frá þeim. Þegar ég fór að ganga eftir svari kom í ljós að þeir ættu í einhverjum fjárhagsvandræðum og báðu mig um tíu daga frest til að gefa endanlegt svar. Eftir þessa tíu daga báðu þeir um viku frest í viðbót en þá sagði ég þeim að ég vildi hafa frjálsar hendur til að skoða fleiri aðila. Um svipað leyti hringdi annar umboðsmaður í mig og spurði hvort ég gæti hugsað mér að fara til Dubai. Ég varð mjög fljótt opinn fyrir því en konan var meira hugsi enda vorum við með lítið barn. Það lenti þó með því að við fórum og sjáum alls ekki eftir því. Þetta var skemmtileg lífsreynsla bæði hvað handboltann varðar og lífið almennt – að kynnast ólíkri menningu á báðum vígstöðvunum.”
Margt kom á óvart
Björgvin segir margt hafa komið á óvart enda um tvo ólíka heima að ræða. Hann var einn úti fyrsta mánuðinn en þá komu konan og sonur út. Eftir eina viku í Dubai fór liðið í þriggja vikna æfingaferð til Egyptalands. “Ég vissi eiginlega ekkert í minn haus. Þekkti ekki einu sinni nöfnin á leikmönnunum og ekkert þýddi fyrir mig að fara á netið og goggla. Þar var allt á arabísku.” En handboltinn. “Hann var talsvert frábrugðin – eiginlega allt annar handbolti en maður var vanur og líka menningin í kringum hann. Það sem mér varð fyrst ljóst að það var einn atvinnumaður í hverju liði og í Al Wasl liðinu sem ég lék með var ég atvinnumaðurinn. Pressan var því sett á mig og tilhneiging til þess að kenna mér um ef ekki fór allt eins vel og þeir vildu. Annað sem ég komst fljótlega að er að heimamenn eru metnaðarfullir. Vilja komast langt en eru að sama skapi agalitlir. Þeir mæta iðulega seint á æfingar – jafnvel eftir að þær þær byrjaðar og fara í flestu eftir því sem þeim hentar sjálfum. Þjálfarinn okkar var frá Alsír og svolítið sama sinnis. Menn voru stundum að detta inn korteri fyrir æfingar og hann gerði ekkert í því.”
Mæta seint á æfingar og biðjast fyrir í miðjum leik
“Flestir þeirra eru ágætis strákar en eru aldir svona upp. Þetta er inngróið í menninguna og lítill vilji til að breyta því. Það er líka sérstakt að þurfa að stöðva leik vegna þess að leikmennirnir þurfa að biðjast fyrir og það gengur fyrir öllu öðrum. Trúarlífið spilar þarna inn í. Þeir mega heldur ekki drekka áfengi en ég er viss um að sumir hafa stolist til þess svona öðru hvoru. Það er áfengisbann í landinu eins og í Sádi Arabíu og fleiri múslímskum ríkjum en menn fara ekkert alltaf eftir því og drekka á laun. Við fórum sitt sinn í keppnisferð til Makedóníu. Það var um vetur og lentum í miklum vetrarkuldum sem geta orðið þar. Mig minnir að frostið hafi verið um eða yfir 30 gráður sem eru mikil viðbrigði fyrir menn sem eru vanir hita á bilinu 30 til 40 gráður og stundum meira. Þeir elska kulda. Finnst gott að koma úr hitamollunni og rakanum en þetta var full mikið fyrir þá. En þeir leika alltaf í loftkældum húsum og hitamismunurinn þar og úti er oft mjög mikill og jafnvel ekki góður fyrir mannslíkamann til lengdar.”
Mikið gert fyrir útlendinga en verðlag hátt
En hvernig gekk einkalífið fyrir sig í Dubai. “Við vöndumst þessu fljótt. Konan var í fjarnámi meðan á þessu stóð og eyddi því talsverðum tíma fyrir framan tölvuna. Svo var bara að láta tímann líða á milli æfinga. Föstudagurinn er einskonar laugardagur hjá þeim og svo byrjar vinnuvikan á sunnudegi. Við vorum smá stund að venjast því. Annars er lífið mjög gott þarna og mikið gert fyrir útlendinga en verðlag er fremur hátt jafnvel á okkar máta. Bensínið er kannski með því ódýrasta alla vega í samanburði við okkur og mikið af dýrum lúxusbílum á götunum. Maður mætti þeim oftast í annarri hvorri beygju.”
Ætluðum aldrei að setjast að
En þú hefur ekki ætlað þér að framlengja dvölina ytra. “Nei það var aldrei inn í myndinni. Við vorum farin að skipuleggja heimferðina í febrúar og hlakka til að koma. Þetta var líka orðið þreytandi í lokin. Það var oft langt á milli leikja en svo voru nokkrir á smá tíma. Kannski fjórir á sjö dögum og svo endalausar æfingar á milli.” Og svo ertu tekinn til að nýju. “Já – það kom aldrei annað til greina en ganga til liðs við ÍR á nýjan leik. ÍR er félagið mitt og þar á ég heima. Deildin er líka sterk og á upp leið.” En Breiðholtið. “Ég er algerlega alin upp þar. Er reyndar fæddur fyrir norðan en var á fyrsta árinu þegar foreldrar mínir fluttu frá Hofsósi og hingað suður. Við erum að leita okkur að húsnæði þessa dagana. Ef við finnum eitthvað gott í Breiðholtinu er aldrei að vita nema við setjumst að þar.”