Búseti byggir 78 íbúðir af ýmsum stærðum og gerðum á Keilugranda
Glöggir vegfarendur hafa tekið eftir að við Keilugranda eru hafnar framkvæmdir. Það er húsnæðissamvinnufélagið Búseti sem þessa dagana undirbýr byggingu 78 íbúða á lóðinni. Þar stóð áður hús sem nú hefur verið fjarlægt, en á líftíma þess var þar m.a. að finna starfsemi SÍF og Þvottahúsið Grýta. Til að forvitnast um byggingaframkvæmdina hitti Vesturbæjarblaðið fulltrúa Búseta, þau Bjarna Þór Þórólfsson framkvæmdastjóra og Ágústu Guðmundsdóttur sölu- og markaðsstjóra.
Þau Bjarni og Ágústa útskýra hvernig „á árunum 2004 til 2007 voru gerðar tillögur að deiliskipulagi þar sem gert var ráð fyrir mikilli uppbyggingu íbúðabyggðar á svæðinu en þær tillögur hafi ekki gengið eftir“. Landsbankinn eignaðist húsið en árið 2012 keypti Reykjavíkurborg það af bankanum. Í janúar 2015 gerðu Reykjavíkurborg og Búseti með sér viljayfirlýsingu þar sem kveðið var á um að Búseti kæmi að uppbyggingu á lóðinni. Undir það síðasta munu listamenn hafa verið með vinnustofur í húsinu.
Mikilvægt að standa vel að grundun húsanna
Bjarni segir „gert er ráð fyrir að bygging íbúðarhúsa á lóðinni hefjist í framhaldi af útfærslu grundunar húsanna og að framkvæmdum ætti að ljúka seinni hluta árs 2020“. Hann segir að „þar sem um sjávarlóð sé að ræða sé mjög mikilvægt að standa vel að grundun húsanna“. Að „unnið sé að því nú að grafa prufuholur í samstarfi við sérfræðinga til að meta það magn sem þarf að nota af forsteyptum súlum undir húsin“.
Fjögur fjölbýlishús
Ágústa útskýrir að um sé að ræða „fjögur fjölbýlishús, tvö upp á tvær hæðir með alls 20 íbúðum, eitt þriggja hæða með 12 íbúðum og eitt fimm hæða með 46 íbúðum“. Vegna fjölbreytileika í stærð og gerð íbúða erum við sannfærð um að þarna muni þróast skemmtilegt samfélag fólks á öllum aldri. Íbúðirnar eru hugsaðar sem kostur fyrir ungt fólki sem er að fóta sig á húsnæðismarkaðinum sem og eldri kaupendur sem vilja minnka við sig. Hún segir „að áhersla sé á að húsin verði fremur einföld að formi og falli vel að nærumhverfinu, þau verði staðsteypt og einangruð að utan, klædd með báruáli, en einnig með viðarklæðningu að hluta“. Á lóðinni verði „ennfremur viðarklætt lágreist timburhús sem mun hýsa hjól og þess háttar en ekki sé gert ráð fyrir bílageymslu. Hún útskýrir einnig að „á suð-austurhluta lóðar verði staðsettur svokallaður lýðheilsureitur, opinn almenningi, sem verði útfærður í samstarfi Reykjavíkurborgar, Búseta og KR“. Einnig kom fram að Félagsbústaðir eiga kauprétt á 18 litlum íbúðum í þessu verkefni.
Áhersla á einfaldleika í hönnun
Ágústa nefnir að „þessa dagana sé félagið með í sölu nýjar glæsilegar íbúðir í hinu svokallaða Smiðjuholti sem er vel staðsett miðsvæðis, nálægt Hlemmi, við Þverholt og Einholt. Áhersla er lögð á einfaldleika í hönnun í Keilugrandaverkefninu“. Hún segir „aftur á móti að Smiðjuholtið sé mun íburðarmeira með bílakjallara í sameign. Markmiðið er að höfða til ólíkra hópa en stefna Búseta er að tryggja fjölbreytni á húsnæðismarkaði.
Gott samráð við íbúa
Að lokum útskýra þau Bjarni og Ágústa að „þar sem reiturinn er hluti af þéttingu byggðar og er umvafinn grónu umhverfi í Vesturbænum sé mikilvægt að vel sé vandað til verka og haft gott samráð við íbúa á svæðinu“. Að „Búseti hafi staðið fyrir íbúafundum þar sem komu fram góðar ábendingar sem tekið var tillit til í hönnunarferlinu“. Ágústa nefnir að „á vefsíðu Búseta verði að finna upplýsingar um framgang verkefnisins og að þar sé hægt að skrá sig til að gerast félagsmaður hjá Búseta“