TINNA í öll borgarhverfi

– verkefnið hefur reynst mjög vel í Breiðholti –

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur takast í hendur.

TINNU verkefnið sem unnið hefur verið í Breiðholti mun væntanlega verða tekið upp í öllum hverfum Reykjavíkurborgar og einnig færast til fleiri sveitarfélaga. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur hafa náð samkomulagi um áframhaldandi samstarf ráðuneytisins og borgarinnar um TINNU. Verkefni felst í því að veita einstæðum foreldrum margvíslega og þverfaglega þjónustu með velferð barna að leiðarljósi.

Ásmundur Einar segir að TINNA hefi skilað framúrskarandi árangri í þágu barna og barnafjölskyldna í Breiðholti. Því sé afar ánægjulegt að fá að styðja áfram við þessa metnaðarfullu vegferð hjá borginni og taka þátt í því að útvíkka verkefnið frekar. Dagur B. Eggertsson kveðst mjög stoltur af TINNU-verkefninu sem hefur skilað góðum  árangri á undanförnum árum. Verkefnið snúist um að fá fólk til að taka þátt í því sem samfélagið hefur upp á að bjóða og byggja það upp. Hann segir það hafa reynst fólki í viðkvæmri stöðu afar mikilvægt og þess vegna sé verið að fara með verkefnið í öll hverfi. Þegar TINNU-verkefnið hófst fyrir fjórum árum var það sniðið að þörfum einstæðra foreldra sem nutu fjárhagsaðstoðar í Breiðholti.  Velferðarsvið Reykjavíkur ber ábyrgð á TINNU-verkefninu sem er hluti af Fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi hjá þjónustumiðstöð Breiðholts. Meginmarkmiðið er að bjóða þátttakendum heildstæða þjónustu sem stuðlar að bættum lífsgæðum fjölskyldna, virkri þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði, eftir því sem við á.

You may also like...