Áfram verður eftirsótt að búa á Seltjarnarnesi

Guðmundur Helgi á Heimsþing FIVB í Anaheim Californiu árið 2012.

Guðmundur Helgi Þorsteinsson skrifaði grein í Nesfréttir fyrir nokkru. Efni greinarinnar var umfjöllun um hin svonefndu vestursvæði á Seltjarnarnesi og náttúrlegt gildi þeirra. Í grein sinni vitnaði hann m.a. í aðalskipulag Seltjarnarness frá 2006 til 2024 þar sem segir að skipulagssvæðið einkennist af einstakri náttúru og athyglisverðu menningarlandslagi. Það hafi auk þess mikið útvistar- og fræðslugildi. Enn fremur segir að svæðið sé í skipulagi höfuðborgarsvæðisins talið eitt af mikilvægustu útivistarsvæðum þess.

Guðmundur Helgi hefur tengst íþróttalífinu nánum böndum og er eini Íslendingurinn sem að hefur gegnt starfi í alþjóðaíþróttahreyfingunni en hann var um árabil framkvæmdastjóri tækni- og þróunarmála hjá FIVB, alþjóðablaksambandinu í Lausanne í Sviss þar sem hann hafði fasta búsetu. Guðmundur Helgi var auk þess innri endurskoðandi samtakanna 1999 til 2003, en fram að þeim tíma hafði hann verið framkvæmdastjóri og varaformaður Blaksambands Íslands um árabil. Það var því ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur enda er FIVB stærsta heimsíþróttasambandið með 221 aðildarland innanborðs og fleiri aðildarlönd á heimsvísu heldur en FIFA sjálft. Guðmundur Helgi er úr fótboltafjölskyldu og tengdafaðirinn Einar Halldórsson var í Val og var landsþekktur knattspyrnumaður á árum áður og lék um árabil í landsliði Íslands, en blakið reyndist hins vegar örlagavaldurinn.

Síðasta kynslóðin sem gekk frjáls

Guðmundur Helgi er alinn upp vestast í Vesturbænum í Reykjavík – á Holtsgötunni en kveðst hafa kynnst Nesinu fljótt sem drengur og tengst því fyrir lífstíð. “Við vorum mikið út í Ánanaustum, á Framnesvellinum og Eiðsgrandanum. Þar voru leiksvæði okkar strákanna og þetta var þá mikið óbyggt svæði. Við vorum að spila fótbolta og stunda ýmsa leiki sem algengt var á þessum tíma. Við vorum með fleka til þess að prufa sjóferðir og þarna fórum við með kakómalt í flöskum og nesti og vorum daglangt í burtu. Þetta var veruleikinn þá. Ég kem úr stórri fjölskyldu. Við erum tíu systkinin og ég segi oft að við höfum verið síðasta kynslóðin sem gekk frjáls. Við vorum líka mikið í íþróttum einkum við bræðurnir og Geir bróðir var síðar formaður Knattspyrnusambands Íslands. Íþróttasagan er orðin löng.”

Hjá Guðbirni og Guðmundi G.

“Ég var í fótbolta með KR þar sem Guðbjörn Jónsson sá ágæti maður þjálfaði mig, náði að spila einhverja leiki með meistaraflokki í körfubolta líka. Þess utan hafði ég líka verið í frjálsum íþróttum hjá ÍR hjá Guðmundi G. Þórarinssyni í gamla íþróttahúsinu við Landskotsskólann sem að var helsta afreksmiðstöð ÍR fyrr á árum. Ég sá hins vegar blak fyrst í bakgarðinum hjá starfsmönnum sovéska sendiráðsins í Garðastræti og steig mínu fyrstu skref í skólablaki í gamla ÍR húsinu en það átti eftir að setja mark á líf mitt svo um munaði. Blakið byrjað frekar seint hér á landi og blaksambandið var stofnað 1972 þ.e. 10 árum eftir að ég fæddist. Eftir að áhuginn kviknaði fyrir alvöru þá kom ég fljótt inn í þetta og var leikmaður um árabil með sigursælu liði ÍS, gerðist framkvæmdastjóri og varaformaður blaksambandsins og starfaði í helstu nefndum. Þetta leiddi mig á endanum til Lausanne í Sviss í höfuðborg heimsíþróttanna þar sem að Alþjóða Ólympíunefndin hefur aðsetur sitt líka.”

Guðmundur Helgi ásamt fjölskyldunni.

Eins og að fara í rússíbana

“Já – ég flutti til Sviss árið 2003 til þess að hefja störf fyrir Alþjóðablaksambandið. Blakíþróttin er mikið útbreidd íþrótt og ein vinsælasta greinin á Ólympíuleikunum. Fyrir mig var þetta eins og að fara um borð í rússíbana og ævintýri líkast. Mikið um ferðalög og fundi víða um heim enda hafði ég sex fagnefndir leiksins á mínu verksviði sem að komu að stærstu atriðunum í okkar sporti svo sem lyfjamálum, tæknimálum og þróunarmálum, menntun dómara og þjálfara svo fátt eitt sé nefnt. Þess utan fór drjúgur tími í samskipti og samninga-gerð við framleiðendur íþróttavara auk eftirlits með fjárhagsáætlunum auk undirbúnings fyrir stórmótin. Það var af nógu að taka.”

Annasamur dagur

Það hefur verið nóg að gera. “Já – dagurinn var oft annasamur og oft var það svo að ég hringdi í flestar heimsálfur og stundum fannst mér ég vera eins og þróunarbankastjóri að hitta sendinefndir alls staðar að, frá Afríku, Asíu, Eyjahafi og víðar að deila út styrkjum og glíma við skortinn. Þetta var ótrúlegt á köflum og það var enginn dagur eins utan þess að maður byrjaði snemma og kom oft seint heim á kvöldin og lítið um frí. Hefði ég ekki getað haft konuna heimavinnandi til þess að sjá um heimilið og börnin þá hefði þetta ekki getað gengið.” En hvernig var með tungumálið. “Það var nú eitt. Ég er breskmenntaður með meistaragráðu í nýsköpunar og breytingarstjórnun frá York og talaði enga frönsku áður en ég fluttist til Lausanne sem er á frönskumælandi svæði í Sviss rétt við landamæri Frakklands. Þetta olli óþægindum fyrst en svo leit maður aldrei til baka. Krakkarnir voru ótrúlega fljót að ná henni og tala hana eins og sitt móðurmál í dag. Og ég tek eftir að þegar þau eru að tala saman hér heima þá tala þau mikið frönsku. Þetta sest svo fast í börnin ef þau ná tungumáli á ákveðnum aldri.” Guðmundur segir að það hafi verið gott að búa í Lausanne næstum eins og í málverki eins og hann kemst að orði. “Íþróttirnar hafa gefið manni svo margt og ég get verið þakklátur fyrir það sem þær hafa fært mér. Þær ná að brúa bil á milli fólksins og menn læra að bera virðingu hver fyrir öðrum. Ég hitti líka margt fólk á þessum tíma, stjórnmálamenn, íþróttaleiðtoga og fleiri skemmtilega karaktera. En ég var líka feginn að komast heim – heim í íslenska matinn, lambakjötið og fiskinn. Við eigum svo mikil gæði í hráefninu okkar.”

Vestursvæðin eru forréttindi Nesbúa

En aftur að æskuslóðunum “ Já – þær eru mér mjög hugleiknar. Leiðin lá oft út með fjörunni og út á Seltjarnarnes. Þannig voru fyrstu kynni mín af þessum fallega stað. Æska mín átti sér einkum stað í fjörunum við Naustin og vestur eftir allt út á Seltjarnarnesið.” Guðmundur Helgi segir vestursvæðin vera forréttindi Nesbúa – griðarsvæði sem annast þurfi um og varðveita. Grótta sé orðin eitt af kennileitum landsins og margar tilvísanir í hana samfélagsmiðlunum erlendis. “Þess vegna hef ég áhyggjur af umferðinni inn á þessi svæði. Eins og ég komst að orði í nefndri greina þá er hafin ákveðin útrás fólks úr borgarsamfélögum sem er að leita eftir öðru umhverfi. Náttúrlegu umhverfi, sjávarilmi, frelsi og kyrrð. Þessar væntingar fólks eru hluti af því hversu Ísland er orðið áhugavert ferðamannaland. Ég hef ekkert á móti ferðamönnum en við verðum að skipuleggja hvernig við viljum taka á móti þeim og stýra ástandinu og vakna ekki upp við vondan draum. Okkur er trúað fyrir dýrmætri náttúru á Nesinu og hún er ekki sjálfgefin. ” Guðmundur Helgi segir vestursvæðin á Seltjarnarnesi nánast einu svæðin sem enn eru óbyggð á stór Reykjavíkursvæðinu og því verði að leggja alveg sérstaka áherslu á vernda þau enda um friðlýst svæði að ræða en það verði jafnframt að virða rétt íbúanna til þess að njóta náttúrugæðanna. Þetta verður allt að fara saman.

Þarf líka að huga að skipaumferðinni

“Hann segir að huga þurfi að fleiri þáttum þegar kemur náttúruverndarmálum á Seltjarnarnesi, það er ekki bara mannfólkið heldur líka stóraukin skipaumferð út á flóanum sem kallar á annað áhættumat og forvarnir. Náttúran verður að njóta vafans og ég efast ekki um að Seltirningar vilja verja sín landsvæði gegn hugsanlegri mengun sem og ágangi sjávar.”

Guðmundur Helgi með Samuel Schmid fyrrum forseta Sviss í höfuðstöðvum FIVB, alþjóðablaksambandinu í Lausanne. Myndin var tekin árið 2009.

Súrrealískt að búa í gömlu mýrinni

“Árið 1996 festi ég kaup á fokheldu húsnæði í Eiðismýrinni og lauk við byggingu þess. Ég flutti aftur á gamla leiksvæðið mitt sem var svo fast í minni. Í gömlu skurðina þar sem við strákarnir lékum okkur svo oft fyrr á árum en þá voru kindur og kýr þar á beit.” Guðmundur Helgi segir forréttindi felast í að búa á Seltjarnarnesi. Þar erum við laus við mestu traffíkina sem einkennir Höfuðborgarsvæðið. En við verðum líka að horfast í augu við þá staðreynd að að Ísland er bílasamfélag. Því verður ekki breytt í einni svipan. Ég hef til dæmis ákveðnar efasemdir um svokallaða borgarlínu eftir veru mína í Sviss. –  sveitarfélögin standa ekki nægilega vel til þess að leggja í þær fjárfestingar og óvíst hvort að þær verði nægjanlegar arðbærar til skamms tíma en við þurfum að halda áfram að huga að skapandi lausnum í samgöngumálum.” Guðmundur Helgi segir að fyrir um tveimur áratugum hafi varla nokkur samgönguvandamál þekkst en það hafi breyst á umliðnum árum. “Það þrengir að Seltirningum og við sjáum vandamálin víða, á Nesveginum, Hofsvallagötunni, Eiðsgrandanum og Mýrargötunni. Þar sem umferðartregða er til staðar þar er spenna og neikvætt andrúmsloft. Það er klárt mál að bíllinn er þarfasti þjónn okkar Seltirninga þegar kemur að samgöngum, tölur vegagerðarinnar tala sínu máli í því.”

Verður eftirsótt að búa á Seltjarnarnesi

Guðmundur Helgi snýr sér að öðru. “Það verður áfram eftirsótt að búa á Seltjarnarnesi enda þjónustustigið nokkuð gott og langt í frá að hér búi bara þiggjendur sem fái alla sína þjónustu frá Reykjavík. Því fer fjarri og það gleymist oft í umræðunni að margir Seltirningar skilja eftir verðmæt skattspor í henni Reykjavík og kaupa þar fullt af þjónustu og reka jafnvel fyrirtæki þar. Menn verða að horfa á heildarmyndina og allar hugmyndir um sameiningu ganga þvert á reynslu mína frá Sviss þar sem litlar stjórnsýslueiningar eru í hverri borg til þess að tryggja íbúunum þjónustuna í nærumhverfi. Það er samt ekki sjálfgefið að það gangi alltaf upp og eðlilegt að sveitarfélögin vinna saman að stærri hagsmunamálum. Það verður áfram eftirsótt að búa á Seltjarnarnesi og ég sé ekki annað í kortunum en að mannlíf haldi áfram að dafna vel hérna hjá okkur en við búum við takmörkuð landgæði, þéttbýli og mikla umferð inn og út á nesið og það er ein helsta áskorun okkar.”

You may also like...