Nú er golfið að taka við hjá mér

Fjallið og ég kallar Petrea þessa mynd. Hún var um tíma formaður slysavarnardeildarinnar og slysavarnarliturinn er ekki langt undan.

„Ég er búin að búa í 44 ár á Seltjarnarnesi frá því í júlí og kann alltaf jafn vel við mig. Þegar við hjónin ákváðum að flytja heim frá Englandi var fyrsta hugsunin sú að setjast ekki að fyrir austan læk. Ég er ættuð frá Akranesi, Skagabarn og ólst upp að hluta í Vesturbænum í Reykjavík. Þegar faðir minn tók sæti á alþingi fluttum við suður yfir vetrartímann en hann sat á þingi  á árunum frá 1959 til 1977. Ég var þá 10 ára og gekk því í Melaskólann. Þetta var fyrir tíma Hvalfjarðarganganna og vegurinn fyrir Hvalfjörð var oft erfiður einkum að vetrinum. Þá fóru menn ekki á milli Akraness og Reykjavíkur morgna og kvölds til vinnu eins og margir gera í dag. Sá möguleiki opnaðist ekki fyrr með með göngunum undir Hvalfjörð.“ Sú sem þetta mælir er Petrea Ingibjörg Jónsdóttir en faðir hennar var Jón Árnason alþingismaður á Akranesi. Hún spjallar við Nesfréttir að þessu sinni.

„Þetta varð til þess að ég eignaðist vini í Reykjavík. Ég fór í Kvennaskólann að grunnskólanum loknum. Þar eignaðist ég ágætar vinkonur. Þar var stúlka á svipuðum aldri og ég. Hún var að norðan. Valgerður Sverrisdóttir frá Lómatjörn sem síðar varð alþingismaður og ráðherra. Við náðum fljótt saman og höfum verið góðar vinkonur í meira en hálfa öld sem og Auður Björg Sigurjónsdóttir, en afi hennar var skipstjóri á Akraborginni.“ Eftir Kvennaskólann lá leið Petreu til Bretlands. „Ég fór þangað til þess að læra að verða ritari. Námið tók eitt og hálft ár og skiptist í enskunám og nám í skrifstofustörfum. Þar á meðal hraðritun. Á meðan ég var í skólanum fórum við á sýningu þar sem nýjungar í skrifstofutækni voru sýndar og kynntar. Þar mátti sjá diktafóna og vísi að tölvum. Við vorum að hugsa um hvort tæknin myndi ganga að ritarastarfinu dauðu. Okkur fannst skelfilegt að það starf sem við vorum að mennta okkur til yrði lagt niður. Engin þörf yrði fyrir ritara lengur. En annað kom á daginn.“

Aftur til Englands 

„Eftir það kom ég heim um tíma. Var hér heima í um níu mánuði. Þá var ég búin að kynnast manni sem hefur verið eiginmaður minn í um hálfa öld. Hann heitir Kristinn Guðmundsson og er einnig ættaður ofan af Akranesi. Við giftum okkur og fluttumst til Englands daginn eftir. Við fórum til Leicester. Hann fór að nema textíltæknifræði og í Leicester var vagga textilmennntunar á þeim tíma. Ég var heimavinnandi fyrst um sinn og við eignuðumst fyrsta barnið okkar tæpu ári seinna. Yngri sonur okkar fæddist í Leicester en dóttir okkar eftir að við fluttumst á Seltjarnarnes. Ég starfaði hjá fataframleiðislufyrirtæki í Leicester í nokkur ár.  Kristinn starfaði í tvö ár ytra að námi loknu og þá fluttum við heim til Íslands.

Til að fagna þessum tímamótum fórum við nú í haust með öll börn, barnabörn og tengdabörn til Leicester alls 17 talsins. Vantaði einungis einn. Það má segja að við séum nokkuð fjölþjóðleg því fjölskyldan stendur saman af alls sex þjóðernum.“

Petrea og Kristinn fóru nú í haust með öll börn, barnabörn og tengdabörn til Leicester alls 17 talsins. Fjölskyldan er einnig nokkuð fjölþjóðleg og stendur saman af alls sex þjóðernum.

Vildum vera vestarlega

Heimkomin fóru Petrea og Kristinn að svipast um eftir framtíðarheimili. „Við vildum vera vestarlega. Það er trúlega Skagamaðurinn í okkur. Við ákváðum fljótlega að setjast að á Seltjarnarnesi þar sem við höfum búið síðan. Mér finnst að við höfum næstum verið kominn á æskustöðvarnar á Akranesi. Það er ýmislegt líkt með Akranesi og Seltjarnarnesi. Byggðin stendur á nesjum. Nálægðin við sjóinn og náttúruna og mannlífið er ekki ósvipað. Fólk þekkist meira en í fjölmennari byggðum. Maður er svolítið úti á landi. Við sjáum Snæfellsjökul sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og hefur smitast til barna minna og barnabarna. Jökullinn hefur sterkt aðdráttarafl. Ég er í hópi vinkvenna sem fer alltaf í kvennagöngu á Snæfellsnes á kvennadaginn 19. júní. Við byrjuðum á þessu um svipað leyti og kvennahlaupin hófust. Fyrstu árin gistum við í tjöldum en þar sem sumar okkar eru að verða 75 ára á tjaldmennskan ekki eins vel við og áður. Við erum farnar að leigja okkur sumarbústaði til gistingar.“ Petrea er búin að ganga alla strandlengjuna á sunnanverðu Snæfellsnesi. „Ég er búin að ganga allt vestur að Hellissandi. Það er ákaflega gaman að gera þetta og Jökullinn hverfur ekki frá manni á meðan.“

Í átta ár í bæjarstjórn 

Svo fórstu að vinna hjá Sjálfstæðisflokknum. „Ég fór að vinna á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins 1982. Upphaflega ætlaði ég að fá mér sumarvinnu en það teygðist úr þessu og ég er þar enn eftir 37 ár. Ég er búinn að vinna með fimm formönnum flokksins. Geir Hallgrímsson var formaður þegar ég hóf störf og nú er ég að vinna með Bjarna. Mér hefur reynst vel að vinna með þeim öllum. Þetta voru og eru nokkuð ólíkir einstaklingar og hver hefur haft sitt göngulag ef svo má segja. Ég hef líka verið heppin með samstarfsfólk í gegnum árin.“ Svo fórstu sjálf í pólitík. „Já, það gerðist árið 1986 að tveir ágætir sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi spurðu mig hvort ég vildi vera á framboðslista. Eftir umhugsun ákvað ég að slá til. Ég var varamaður í bæjarstjórninni í fjögur á og eftir kosningarnar 1990 fór ég inn í bæjarstjórnina og var þar næstu átta árin. Þá fannst mér komið nóg af bæjarmálunum og ákvað að hætta vorið 1998.“ Þú hefur unnið náið með Sigurgeir Sigurðssyni. „Já, ég vann mikið með honum og það var sérstaklega góður skóli að kynnast honum og starfsaðferðum hans. Hann var vanur því þegar hann fór af skrifstofunni að degi loknum að aka um Nesið og fylgjast með því sem var verið að gera. Hann var með fingurinn á öllu – öllum framkvæmdum bæjarfélagsins stórum og smáum. Hann stóð líka fast við bakið á mönnum sem komu til hans með mál sem þeir höfðu sannfæringu fyrir. Mér fannst þetta vera góður eiginleiki hjá honum og gafst oft vel. Ég starfaði í íþrótta- og tómstundaráði árin sem ég var í bæjarstjórninni og átti sæti í ýmsum nefndum á vegum bæjarfélagsins. Ég var ein af upphafsmönnum foreldraröltsins og vann að stofnun Selsins sem er tómstundaheimili unga fólksins á Nesinu. Við vorum svo heppin að fá Möggu – Margréti Sigurðardóttur til starfa. Magga í Selinu er réttur maður á réttum stað. Hún er kapituli út af fyrir sig. Ég hef líka starfað sem formaður slysavarnardeildarinnar og svo er það fótboltinn. Ég væri ekki af Skaganum ef ég hefði ekki áhuga á fótbolta. Ég hef fylgst með honum og börn og barnabörn okkar tekið þátt í honum.“

Á veginum um Svalvoga. „Þarna sat ég við stýrið og ók yfir urð og grjót.“ segir Petrea.

Ók Svalvogaveginn fyrir vestan 

Og þá komum við að golfinu. „Nú fer að líða að því að ég hætti að vinna. Ég er farin að undirbúa það meðal annars með því að æfa golf. Það er nú svolítið fyndið hvernig ég tengdist því í fyrstu. Kristinn maðurinn minn var að sækja um inngöngu í golfklúbbinn. Ég var ekkert á leiðinni þangað en á umsóknareyðublaðinu sem þeir sem sóttu um inngöngu þurftu að útfylla var sérstök lína fyrir nafn eiginkonu. Þannig komst ég á blaðið. En það er ekki fyrr en fyrir skömmu sem ég fór að huga að þessu af fullri alvöru þótt ég væri búin að vera styrktarfélagi í um 15 ár. Golfið er ágætt viðfangsefni og ekki síst þegar maður hættir að vinna og það gefur líka mikið af sér. Þar á ég ekki síst við útiveruna og félagsskapinn. Svo eru líka forréttindi að hafa þessa fallegu náttúrusýn sem er í kringum golfvöllinn á Seltjarnarnesi. En nú ætla ég að taka þetta með trompi. Við erum heppin hjónin að vera bæði í þessu en ég held að það verði engin samkeppni á milli okkar þótt við séum ólík. Í golfinu er maður alltaf að keppa við sjálfan sig og ég held að það verði niðurstaðan hjá okkur. Ég er aldrei að spá í hvað hinir eru að gera á vellinum. Það er bara um að gera að þjálfa sig og bæta í golfinu sem öðru.“ Petrea segir að golfið tengist ferðamennskunni. Nú eru komnir golfvellir víða um land og á ferðalögum er hægt að spila á hinum og þessum stöðum. „Við spiluðum til dæmis á Þingeyri á liðnu sumri. Ókum Svalvogaveg eða Kjaransbraut eins og hún er gjarnan kölluð á leið vestur. Veginn sem Elís Kjaran gerði með litlu jarðýtunni utan í fjallshlíð á milli Keldudals í Dýrafirði og Stapadals í Arnarfirði. Ég ók. Þetta var hressilegur akstur á örmjóum og stórgrýttum vegi. En þarna er fallegt,“ segir Petrea Ingibjörg Jónsdóttir sem hyggst leita á nýjar slóðir – á fleiri golfvelli að sumri.

You may also like...