Gert er ráð fyrir mikilli uppbyggingu í Breiðholti á næstu árum
Ákveðið hefur verið að vinna að enduruppbyggingu á tveimur svæðum í Breiðholti. Það eru svæðin við Arnarbakka 2 til 6 í Neðra Breiðholti og Völvufell 11 til 21 í Efra Breiðholti. Borgarráð hefur þegar samþykkt að hefja viðræður og samningsgerð við eigendur fasteigna á þessum svæðum. Náist samningar er stefnt að því að hefja vinnu við endurskipulagningu þeirra en eignarhald á fasteignum á þessum svæðum er í höndum margra aðila. Á báðum þessum svæðum eru taldir góðir möguleikar til byggina íbúðarhúsnæðis. Þá eru hugmyndir um að efla Rangársel sem hverfiskjarna og styrkja hann með íbúðum og bættu atvinnuhúsnæði. Þetta kom meðal annars fram á fundi borgarstjóra í Gerðubergi nýlega.
Hugmyndir borgaryfirvalda miða að því að áfram verði rekstur og þjónusta á þessum svæðum en með íbúðabyggð megi styrkja rekstrargrundvöll fyrirtækja. Bæði þessi svæði hafa ekki verið nýtt sem skildi og rekstur ekki gengið eins og best verður á kosið. Ýmsar aðrar breytingar eru áformaðar í uppbyggingu í Breiðholti. Áformað er að efla bæði þjónustu og byggð, styrkja byggðakjarna, breyta þegar byggðum húsum meðal annars með viðbyggingum. Göturými verði bætt með gróðri og betri aðstöðu fyrir gangandi og hjólandi.
Íbúðir og athafnasvæði í Mjóddinni
Stefnt er að því að styrkja Mjóddina meðal annars með íbúðum og atvinnuhúsnæði og að unnið verði sérstakt deiliskipulag fyrir það svæði. Áformuð er efling kjarnans við Arnarbakka með endurnýjun húsa og nýjum íbúðum á efri hæð. Við Breiðholtsbraut er gert ráð fyrir litlum byggingum fyrir atvinnustarfsemi og við Stekkjarbakka að byggja eina röð af einnar hæða rað- eða parhúsum og að húsin verði byggð neðan við slakka til að spilla ekki útsýni. Í Suður Mjódd er sett fram stefna um styrkingu byggðar með íbúðum og atvinnuhúsnæði en unnið sérstakt deiliskipulag. Gert er ráð fyrir að byggja megi tveggja hæða fjölbýlishús við Jaðarsel með allt að 30 til 40 íbúðum.
Nýjar íbúðir í Seljahverfi
Í Seljahverfi er áætlað að fjölga meðalstórum íbúðum til að jafna aldursdreifingu í byggðinni og gert er ráð fyrir um 220 nýjum íbúðum. Þetta er hugsað með því að stækka byggingarreiti til að byggðin geti þróast. Heimiluð verði byggingar með lyftum ofan á fjölbýlishús sem eru ekki með lyftum og að einnig verði veittar heimildir til að veittar verði heimildir til þess að reisa allt að 40 fermetra viðbyggingar við sérbýlishús. Þá er gert ráð fyrir að við Stapasel og Holtasel verði byggð einnar til tveggja hæða fjölbýli sem rúmi á bilinu 30 til 50 íbúðir.