Heimilt að reisa 160 herbergja hótel á Landsímareitnum
Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt deiliskipulagstillögu Landssímareitsins við Austurvöll. Samkvæmt tillögunni er heimild til að reisa 160 herbergja hótel á byggingarreitnum. Deiliskipulag hafði áður verið samþykkt fyrir reitinn en þá var talið að hann næði ekki inn í kirkjugarð Víkurkirkju. Á síðasta ári kom hins vegar í ljós að hluti garðsins er innan marka byggingarreitsins og að þar væri að finna grafir.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vildu fresta afgreiðslu skipulagstillögunnar þar til niðurstöður fornleifarannsóknar á reitnum lægju fyrir og svör hefðu fengist við fyrirspurn frá borgarráði um hvaða lagaheimildir væru fyrir því að grafinn yrði kjallari í austurhluta Víkurkirkjugarðs og stór hótelbygging reist þar ofan á. Tillagan var felld með fimm atkvæðum meirihlutans gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks. Í bókun Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa vegna málsins segir að Víkurgarður sé elsti kirkjugarður Reykvíkinga og að enn eigi eftir að komast til botns í lögfræðilegum álitamálum vegna eignarhalds garðsins. „Víkurgarður er helgidómur í hjarta borgarinnar sem ber að vernda í stað þess að steypa stórhýsi ofan í hann. Þar stóð fyrsta kirkja Reykjavíkur og rök hníga einnig að því að fyrir kristnitöku hafi þar verið heiðinn helgistaður. Hingað til hefur verið talið að grafir skuli vera friðhelgar eftir því sem kostur er,“ segir í bókuninni. Félagið Lindarvatn ehf. er eigandi fasteigna á reitnum. Félagið er í helmingseigu Dalness ehf. og Icelandair Group hf. Icelandair Hotels, dótturfélag Icelandair Group. Fyrir liggur leigusamningur til 25 ára um rekstur hótels á reitnum.