Mér finnst þetta hafa verið eitt frí

Guðmundur Kristinsson innrammari og listamaður.

Guðmundur Kristinsson innrammari hefur búið á Seltjarnesi í hartnær hálfa öld. Ef til vill er ekki rétt að kalla hann innrammara þótt hann hafi stundaði innrömmum og rekið verkstæði í þeim tilgangi að ramma inn myndir í áratugi. Í æðum hans rennur ríkt sjómannsblóð. Hann stundað sjóinn á yngri árum og átti trillu og skrapp á skak á kvöldin löngu eftir að hann var sestur að smíðum og fleiri iðju á Seltjarnarnesi. Átti trillu þar í um áratug. Fannst gott að geta náð sér í glænýja ýsu í soðið. Um þriðju hliðin á Guðmundi vita ef til vill færri en hann er liðtækur myndlistarmaður – hefur málað, skorið út og nýtt sér fleiri listform í gegnum tíðina. Hann hefur einnig haldið allnokkrar myndlistarsýningar.

En hvað er Guðmundur búinn að búa lengi á Seltjarnarnesi. „Í 47 ár. Við byggðum við Látrasröndina. Keyptum lóðina til að byrja með og svo fór ég að viða að mér efni. Ég keypti eingöngu notað efni – einkum timbur og hreinsaði það sjálfur og staflaði því upp. Smiðirnir sem síðan komu til þess að vinna fyrir mig að byggingunni sögðust aldrei hafa fengið betur frágengið efni í hendur. Ég var bæði búinn að hreinsa timbrið og saga þannig að mikið af borðunum voru í réttum lengdum.“

Alinn upp með veiðarfæri í hönd

En Guðmundur var ekki alinn upp með smíðatól í hönd heldur veiðarfæri. „Það er rétt. Ég var ekki gamall þegar eg fór á sjóinn. Faðir minn var alla tíð á sjó og ég fékk sjómennskuna í arf frá honum. Ætli ég hafi ekki verið níu ára þegar ég fór með honum á síld norður fyrir land. Hann tók strákinn bara með sér. Ég var lengi á togaranum Aski og á togbátnum Sverri sem var gerður út frá Akureyri. Sverrir var sérstakur bátur byggður í Svíþjóð á 19. öldinni. Hann hét upphaflega Smiril og var í siglingum á milli Danmerkur og Færeyja. Þetta er sama nafnið og Smiril Line er dregið af. Skipið var síðan keypt til Akureyrar og breytt þar og búið til síldveiða. Sverrir var hæggengur koladallur og við vorum mest á veiðum á Grímseyjarsundi og lögðum upp á Siglufirði, á Hjalteyri og víðar í norðlensku síldarhöfnum. Hann var of hæggengur til þess að það þýddi fyrir okkur að fara austur fyrir Langanes hvað þá lengra vegna þess að þegar fréttist af síld þar voru önnur skip og mun hraðgengari komin þangað og búin að veiða torfurnar upp. Við hefðu mátt fara með tóma lest heim. Svo var ég á olíuskipinu Kyndli. Fyrst í vélinni og síðar á dekki. Á Kyndli var búið svo vel að mér að ég fékk sérstakan klefa út af fyrir mig þar sem ég stundaði tómstundastarfið sem var að mála. Ég málaði margar myndir um borð í Kyndli. Já – ég hef bæði verið viðloðandi við sjóinn og málverkið þetta hefur fylgt mér í gegnum tíðina. Ég er eflaust með eitthvert sjómannsblóð í æðum. Móðir mín var úr Hrísey og langafi minn var hákarlaskipstjóri fyrir norðan. Faðir minn Kristinn Guðmundsson var frá Eyrarbakka og var togarasjómaður alla sína tíð. Hann sigldi á Bretland á stríðsárunum. Lenti þá í ýmsum hættum sem alls staðar voru á þeim tíma en slapp þó við að fara í hafið eins og sumir félagar hans. Konan mín Þórunn Erlendsdóttir tengdist sjónum líka en þó með öðrum hætti. Ég hef stundum orðað það svo að hún hafi rekið Hofsjökul eða skipafélagið Jökla í fjóra áratugi. Hún var lengst af ein á skrifstofunni allan þennan tíma og þegar hún hætti gat hún ekki hugsa sér að hætta að vinna og starfaði við gæslustörf í Mýrarhúsaskóla í áratug eftir það.“

Sýningarsalurinn Listver

„Ég er búinn að vera hér á Eiðistorginu í 22 ár. Ég er eiginlega frumbýlingur þar vegna þess að þegar ég flutti innrömmunarverkstæðið þangað var þetta allt tiltölulega nýbyrjað. Ég byrjaði að ramma inn hjá Jóni Fannberg á Vesturgötunni en flutti mig yfir á Vesturgötu 12 í húsnæði sem kunningi minn átti. Fannberg var nokkuð dýr. Vildi fá góða húsaleigu og þegar ég flutti frá honum spurði ég hann eftir hverju hann færi við að ákveða leiguverðið. Þá leit hann út um glugga, benti á Silla og Valdahúsið og sagði – ég fer eftir þeim. Ég var 12 ár með verkstæði á Vesturgötunni. Fór þaðan í Ánanaustin þar sem ég var í ein fimm eða sex ár og kom svo hingað. Ég var fyrst um tíma á Austurströndinni þar sem ég var líka með sýningarsalinn Listver auk innrömmunarverkstæðisins. Ég keypti lýsingu frá Ítalíu sem var sértök og hentaði afskaplega vel til að lýsa sýningarsal. Það sýndu ýmsir listamenn hjá mér og ég man sérstaklega eftir norrænu vinabæjamóti á Seltjarnarnesi 1987 þar sem fulltrúar vinabæjar Seltjarnarness komu í heimsókn. Af því tilefni sendum við sýningu til Herlef í Danmörku sem er vinabær Seltjarnarnesbæjar.“

Á inniskónum í vinnuna

Ég var líka svo heppinn að skömmu eftir að ég kom hingað á torgið að þá losnaði húsnæði hér fyrir ofan mig. Við festum kaup á því og höfum búið þar síðan. Ég hef því getað gengið á inniskónum í vinnuna í mörg ár og þarf eiginlega ekki úr þeim nema þegar við förum í sumarhúsið okkar í Grímsnesinu eða í heldriborgarastarfið á Seltjarnarnesi sem við stundum að miklum áhuga. Kristinn sonur minn er tekinn við rekstri verkstæðisins hér á torginu þótt ég líti þar við og við. Hann er grafískur hönnuður og hefur erft listaáhugann frá mér. Hann vinnur öðruvísi. Mest í tölvu og hefur verið að gera myndaseríu um Gásakaupstað eins og hann var á sínum tíma.“ Guðmundur stendur upp og bendir á mynd sem er á vegg á kaffi Örnu. „Þetta er ein þeirra. Við eldri hjónin komum okkur upp sumarhúsi austur í Grímsnesi. Ég keypti kassann en smíðaði sjálfur inn í hann. Nei – ég er ekki hættur að starfa þótt verkstæðið sé komið í hendur Kristins. Ég er búinn að byggja útihús eða vinnuhús við sumarhúsið og fara með fullt af verkfærum þangað. Við erum þarna öllum stundum eða eins oft og við getum og ég er þar að fást við eitt og annað sem hefur fylgt mér í gegnum lífið.“

Kjarval spjallaði við strákinn

„Já – listamaðurinn hefur alltaf blundað í mér ekki síður en sjómennskan. Þótt ég hætti á sjónum hef ég aldrei hætt að mála eða skera út eða fast við annað sem talist getur listrænt. Ég var félagi í Myndlistarklúbbnum á Seltjarnarness um tíma með Sigurði K. Árnasyni sem nú er ný látinn. Þessi klúbbur lognaðist út af. Margir af gömlu félögunum eru líka fallnir frá en nú er búið að stofna annan klúbb að því ég best veit. Ég hef sýnt talsvert. Til dæmis í Listasafni ASÍ, hjá Braga í Eden í Hveragerði og hér á Nesinu, í Valhúsaskóla og Gallerí Gróttu svo nokkuð sé nefnt. Ég hafði alltaf þennan brennandi áhuga á myndlist og var farin að fara á sýningar barn að aldri. Einhverju sinni fór ég á sýningu hjá Jóhannesi Kjarval í Listamannaskálanum og ég man að Kjarval kom til mín og spjallaði við mig um stund. Ég man nú ekki lengur hvað okkur fór á milli en hann hefur eflaust veitt mér athygli vegna þess hversu ungur ég var. En ég er ekki frá því að þessi athygli sem ég fékk frá Kjarval hafi aukið áhuga minn á myndlistinni og eflt mig í að halda áfram á þeirri braut. Enn er þó eitt ótalið sem ég hef fengist við en ég greip aðeins í húsagagnasmíði um tíma. Var hjá Meiði og var svo farinn að smíða sófaborð í bílskúrnum. Maður kunni ekki að vera iðjulaus.“

Mér finnst þetta hafa verið eitt frí

Guðmundur opnar umslag sem hann tók með sér út á kaffi Örnu þar sem við tylltum okkur undir mynd sem hann hafði málað. „Ég hef verið í mörgu og núna er ég að fást við nýtt verkefni,“ segir Guðmundur og dregur fram nokkar myndir. „Ég er að vinna myndir af gömlum trébátum. Flestir þessara báta eru löngu ónýtir og lítið eftir af sumum þeirra. En þeir eru hluti af sögunni. Ég vildi ná þessum bátum áður en að þeir fara endanlega í gröfina. Þeir eru misjafnlega heillegir og litið eftir af sumum. Ég mála þá þannig að ástand þeirra kemur fram í myndunum. Ég hef sýnt nokkrum þessar myndir og séra Bjarni prestur á Seltjarnarnesi hefur mikinn áhuga á þeim. Annars er ég að fitla meira við sjóinn í myndlistinni. Nú er ég farinn að gera líkön af bátum. Ég er búinn með eitt. Það er líkan af Sverri sem ég var skipverji á síldinni á Grímseyjarsundi forðum. Ég veit ekki alveg hvaða skip ég tek fyrir næst en vonandi verða þau fleiri. Ég hef góða aðstöðu í sveitinni – í sumarhúsinu. Ég reyni líka að vera þar sem mest einkum á sumrin. “ En hvenær tekur Guðmundur sér frí. Hann er skjótur til svars. „Mér finnst þetta hafa verið eitt frí.“

Frá Hjalteyri – Vatnslitir.

Beitningaskúr fyrir vestan – Olíumynd.

Glermynd: Hollensk dugga, Mjaltastúlkan sem Erlendur sonur minn fann í Flatey á Breiðafirði sem sökk þar um 1659.

You may also like...