Nauðsynlegt að nýta það fallega sem landið hefur að bjóða

Walter Lentz ásamt eiginkonu sinni Ragnheiði Sigurðardóttur.

Walter Lentz sjóntækjafræðingur er fæddur 1934 og uppalinn í Köln í Þýskalandi. Köln er meira en tvö þúsund ára gömul borg sem rómverska keisaradrottningin Colonia Aggripaninsis lét byggja. Walter kom til Íslands árið 1955 og lifði því öll stríðsárin í Þýskalandi og þær hörmungar sem þeim fylgdu. Á síðustu árum heimsstyrjaldarinnar fór hann og fjölskyldan á hverjum degi eða nóttu í kjallarann eða næsta loftvarnarbyrgi. Fólk varð mjög óttaslegið þegar það heyrði í fleiri en 100 sprengiflugvélum og ískrið í sprengjunum út um allt. 

Um 80% af Köln var eyðilögð og um 40 þúsund óbreyttir borgarar létu lífið. Árið 1944 fór Walter með móður sinni til Austur Þýskalands þar sem allt var rólegra í sveitinni. Faðir Walters vann hjá Ford bílaverksmiðjunum í Köln sem deildarstjóri og slapp við hermennsku. Walter og móðir hans upplifðu aðrar hörmungar þegar stríðinu lauk og Rússar hertóku svæðið. Þar voru Mongólar og Kósakkar á ferðinni og var mikið ráðist á konur. Brátt var öllu fólki sem áttu ekki lögheimili á svæðinu skipað að fara burt. Walter og móðir hans fóru meira og minna fótgangandi um 400 kílómetra leið til Kölnar. Fóru þau oft fram hjá rústum og föllnum hermönnum. Þetta var ótrúleg reynsla. Það tók þau um sex mánuði að komast til Kölnar þar sem faðir Walters og eldri bróðir voru heilir á húfi. Þessi reynsla kenndi þeim að vera nægjusöm og ánægð með að lifa af allar hörmungarnar.

Hafði lesið Nonnabækurnar

Eftir skólagöngu fór Walter árið 1949 að læra sjóntækjafræði sem er þriggja og hálfs árs nám samhliða tækniskóla sem lauk með prófi í faginu. Eftir tveggja ára vinnu hitti Walter skólabróðir sinn sem vann á Íslandi og útvegaði honum starf hér á landi og tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn. Walter vissi lítið um Ísland en hann hafði aðgang að kaþólsku bókasafni og var búinn að lesa Nonnabækurnar. Árið 1955 kom hann með Gullfossi til Íslands.

Kynntist konunni minni

Eftir eins árs vinnu í gleraugnaverslun ætlaði Walter að fara til Ameríku. En úr því varð ekki. Walter kynntist konunni sinni Ragnheiði. Foreldrar hennar voru Kristjana Hafstein dóttir Hannesar Hafstein og Sigurður Jónsson verkfræðingur og forstjóri Slippfélagsins. Ragnheiður og Walter giftu sig 1957. Þau eiga tvo syni Hannes sem er tryggingaráðgjafi og Pétur sem er flugstjóri. Barnabörnin eru sex, Kristína sem er alþjóðalögfræðingur, Kristófer Páll viðskiptafræðingur, Eva María verðandi atvinnuflugkona, Davíð Walter, Linda Ragna og Tómas öll nemendur.

Stofnaði gleraugnaverslun

Árið 1961 stofnaði Walter gleraugnaverslun á Laugarvegi 12. Þar var mjög rólegt til að byrja með og þurfti Walter að hafa mikið fyrir því að vinna hana upp. Hann gerði allt sjálfur og vann mikið, stundum fram á nótt. Hann fórnaði ýmsu fyrstu árin til að sjá bjartari framtíð. Árið 1968 keypti hann húsnæði að Laugavegi 65 og árið 1973 opnaði hann glæsilega gleraugnaverslun þar, verslun sem enn er starfandi.

Sjónmælingarnar breyttu starfinu

Eftir að hafði rekið Gleraugnasölu í allmörg ár urðu nokkrar breytingar á starfsumhverfinu. Sjóntækjafræðingar vildu fá réttindi til þess að gera sjónmælingar. Þetta kom til vegna þess að biðtími hjá augnlæknum var oft mjög langur. Hingað kom enskur prófessor til þess að kenna þessi fræði. Hann kom í nokkur ár og kenndi mörgum sjóntækjafræðingum sjónmælingar. Walter segir að nokkuð hafi þurft að hafa mikið fyrir þessu. Rifja upp það sem maður hafi lært og bæta nýju við. Öll kennsla var á ensku og fagorðin var ekki að finna í neinum orðabókum. Walter tók próf í sjónmælingum og við sem fórum í gegnum þetta fengum réttindi til að skoða augun í fólki. Þetta breytta starfssvið sjóntækjafræðingana hefur reynst vel og verið flestum til góða. Árið 2000 seldi hann Gleraugnasöluna eftir 50 ára starf.

Félagsstörf og ferðir 

Walter hefur verið lifandi í félagsstörfum. Hann var formaður sjóntækjafræðinga á Íslandi og átti sæti í stjórn Slippfélagsins um tíma. Var í fimm ár í stjórn Badmintonsambandsins og nú eru þau hjónin í Rotaryklúbbnum á Seltjarnarnesi sem Walter finnst lifandi og skemmtilegum félagsskapur. Hann segir þau reyna að láta gott af okkur leiða. Það tengi fólk andlega við lifið. Þau hafa líka ferðast talsvert eftir að hann hætti að vinna. Fórum alls í tíu heimsreisur með Ingólfi Guðbrandssyni. Þau hafa einnig farið í sigingaferðir og svo golfferðir. Ingólfur gat verið skemmtilegur en var dálítið sérstakur. Það þurfti eiginlega að læra á hann. En allt hafi þetta verið ánægjulegar ferðir.

Walter og Ragnheiður við golfbílinn sinn á golfvellinum á Seltjarnarnesi þangað sem þau aka á honum frá heimili sínu við Steinavörina.

Hefur alltaf stundað íþróttir

Walter snýr sér að öðru. Hann hefur alla tíð verið mikið fyrir íþróttir og útilíf og nú á golfið hug hans allan. Þess má geta að Walter  sigraði í golfmót hjá Golfklúbbnum Oddi í Garðabæ nýlega og fékk í vinning golfferð til Búlgaríu. Hann byrjaði ungur að spila handbolta og fór síðan að spila badminton sem hann stundaði af lífi og sál um tíma. Hann fékk verðlaunapeninga þegar hann var 43 ára. Hann kveðst hafa byrjaði of seint að spila til þess að ná bestu töktunum. Til þess verði að byrja ungur. Walter keppti í öldungaflokki sem er 50 ára og eldri og varð nokkrum sinnum Íslandsmeistari í badminton. Walter hefur einnig stundað fleiri íþróttir og má þar nefna laxveiði, skíði og bridge.

Reyndi á heilsuna 

Walter segist hafa reynt talsvert á heilsuna. Hann fékk brjósklos og þurfti síðar að fara í mjaðmaaðgerð ekki einu sinni heldur tvisvar á þriggja vikna tímabili. Hann varð einnig að fara í hjartaaðgerð. Hann var farinn að finna fyrir óþægindum. Hafði verið að spila golf eins og venjulega og búinn að fara hringinn. Fann þá fyrir óþægindum og fannst eins og hann væri að verða búinn. Fór að láta líta á þetta og bjóst við að það þyrfti að hreinsa æðar eða blása. En þegar búið var að skoða hann var talið að ekkert annað myndi duga en að skipta um æðar. Þær væru orðnar svo þröngar. Hann kveðst heppinn að lenda hjá góðum lækni. Tómasi Guðbjartssyni og tveimur vikum síðar var hann komin undir hnífinn. Þegar hann spurði hann hversu lengi svona aðgerð myndi duga var svarið að hún gæti alveg endst í tuttugu ár. Walter bendir á að fylgjast verði vel með sjálfum sér í ellinni og vita hvað gera megi til að lifa heilbrigðu lífi. Hann segir að konan passi upp á sig. Hann drekkur ekki kaffi en er orðinn fastur við teið. Fær sér eitt og eitt bjórglas öðru hvoru eða rauðvín með matnum.  

Falleg blóm við innganginn

Walter er að vinna í garðinum heima. Falleg tré og blóm prýða innganginn að heimili þeirra hjóna. Walter vill hafa snyrtilegt í kringum sig. Hann segir að þegar maður flytji á milli landa sé nauðsynlegt að nýta það það fallega sem landið hafi að bjóða. Walter hefur örugglega tekist það vel. Hann tók í hendina á komumanni við rauðu túlipanana sem voru að blómstra við innganginn heima hjá honum og þakkaði fyrir komuna.

You may also like...