Við vorum bryggjustrákar
Ólafur Haukur Símonarson rithöfundur spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni. Ólafur er fæddur og uppalinn í Vesturbænum. Í bernsku dvaldi hann oft við höfnina og tengdist útvegi og sjómennsku en faðir hans og afi störfuðu við sjósókn og útveg. Þessa bakgrunnar má sjá stað í verkum Ólafs Hauks ekki síst í Hafinu sem nú er sýnt á sviði Þjóðleikhússins í annað sinn en einnig hefur verið gerð kvikmynd eftir leikritinu. En hvar man hann fyrst eftir sér.
„Ég man fyrst eftir mér á Jófríðarstöðum við Kaplaskjólsveg. Jófríðarstaðir voru bújörð rétt austan við KR-völlinn. Þaðan flutti fjölskyldan að Framnesvegi 5, alveg niður undir Vesturgötu, í hús sem afi minn, Guðjón Símonarson, byggði. Afi var þá hættur útgerð og farinn að versla. Föðurbræður mínir, Jóhannes og Bjarni, keyptu af honum bátinn, Íslending RE 36, og gerðu hann út. Faðir minn, Símon, gerði út Ásbjörgu RE 55, og var formaður á bátnum. Ég var tíu ára þegar við fluttum á Framnesveginn og þá hófst nýr kafli í lífi mínu. Ég slóst í hóp stráka sem áttu feður er gerðu út báta og voru formenn. Mest hafði ég saman að sælda við Sigga, Bubba og Stebba (Sigurð, Guðbjart og Stefán) syni Einars Sigurðssonar á Aðalbjörgu. Þetta var tími smáútgerðanna í Reykjavík. Bátarnir voru flestir þetta á bilinu 25 til 40 tonn og áhöfnin taldi oft 6 til 8 karlar. Formenn á bátunum í Reykjavík voru margir kenndir við bátana; Jói á Íslendingi, Einsi „kóngur“ á Aðalbjörgu, Óli „með augað“ á Auðbjörgu, Gvendur „prins“ á Hermóði, Jón „gassi“ á Drífu; bræðurnir á Happasæl voru ætíð nefnir báðir í einu „bræðurnir“, og loks faðir minn, Símon „greifi“ á Ásbjörgu. Viðnefnin voru mörg fleiri og sum nokkuð groddaleg.“
Fiskmótttaka og línubeitingar – nú verslanir og veitingabúðir
„Leikvöllur minn fluttist úr Jófríðarstaðamýri með sínum botnlausu skurðum og smátjörnum niður að Reykjavíkurhöfn. Framan af voru bátarnir gerðir út frá svoköllu „gömlu verbúðarbryggjunum“; þetta var um það bil sem verbúðirnar risu á Grandagarði. Þannig háttaði til í gömlu verbúðunum, þar sem í dag eru einkum veitingabúðir, að í hverri verðbúð var á jarðhæð aðstaða til fiskmóttöku og línubeitningar, en á efri hæð allstórt íbúðarrými fyrir áhafnarmeðlimi sem ekki áttu heimili í Reykjavík. Þar var eldunaraðstaða og kojur fyrir 6 til 8 menn. Í einni verbúð var rekið almenningsbað, sallafínt með hvítum flísum og góðu hreinlæti. Þangað sóttu ekki bara sjómenn heldur og verkamenn sem unnu við höfnina og almennir borgarar. Minnist ég þess að hafa farið þar í „skemmtibað“ þótt heima hjá okkur væru ágæt sturta í vaskahúsinu.“
Við vorum bryggjustrákar – skólataskan tekin með niður á höfn
„Við sem áttum feður á sjónum vorum „bryggjustrákar. Skólataskan var iðulega tekin með beint niður að höfn án viðkomu heima. Á bryggjunum var endalaust hægt að finna sér eitthvað til dundurs. Við flæktumst á milli báta sem voru í höfn, fengum að taka þátt í störfum karlanna; steina niður þorskanet, skera beitu, beita línu, skera af netateinum, mála bátana af flekum á vorin, taka þátt í löndun afla – við vorum eins og minkur sem sloppið hefur úr búi, smugum alls staðar inn þrátt fyrir leiðinlegar spurningar á borð við: „Heyrðu vinur, átt þú ekki að vera heima hjá þér að læra?“
Skyrpa upp í massadóna
„Veiðiskapur var stundaður á bryggjunum í það endalausa. Veiðarfærið var keypt í Ellingsen, græn lína með blýsökku. Beitan var fiskur; hjarta úr þorski eða ýsu þótti mikil tálbeita. Aflinn var smáufsi, sandkoli, stöku rauðspretta, einn og einn þyrsklingur – og hinn illa þokkaði massadóni, marhnúturinn; að skyrpa upp í massadóna þótti þjóðráð til þess að koma í veg fyrir að sami dóninn hlypi aftur á snærið.“
Buxurnar fengu að hverfa
„Að kom heim í hreinum buxum var útilokað. Það kallaði að vísu á þung andvörp mömmu ef það var „bara“ slor í buxunum; í verra fór væri það málning. Eitt sinn fór ég í glænýjum, ljósum gallabuxum niður á bryggju og „lenti óvart“ í því að hjálpa Óla „með augað“ að mála vélarrúmið í Auðbjörgu. Þegar ég sýndi mig heima fór mamma að hágráta. Samt lét hún buxurnar hverfa án þess að pabbi fengi nokkurt veður af málinu.“
Þekktum bátana af siglingaljósunum
„Upp úr áramótum hófst vertíðin suður í Sandgerði. Þá snýkti maður far með vörubílum Ísbjarnarins h.f. sem voru á leið suður að sækja fiskinn. Pabbi var ekki alltaf kátur þegar hann lagði að í Sandgerði eða Keflavík og sá mig standa á bryggjunni með skólatöskuna. Hann skammaði mig dálítið fyrir siða sakir en sendi mig svo niður til kokksins að fá eitthvað að éta. Stundum borðaði ég í tveimur eða þremur bátum sem komu á undan Ásbjörginni til að landa. Þegar leið út á og þorskurinn færði sig innar í Flóann byrjuðu bátarnir að landa í Reykjavík. Þá mættum við strákarnir upp úr hádegi til Steina „gamla“ netamanns á loftinu í einni verbúðinni. Um fjögurleitið byrjuðum við að fylgjast með með því hvort bátarnir væru að birtast úti við Akurey. Við skriðum upp um lítinn þakglugga og stóðum til skiptis vakt á þakinu. Það gat orðið ansi kalsamt. Venjulega var Drífan fyrst að landi því Jón „gassi“ hélt sig oft á grynnri miðum. Þegar dimmt var orðið þekktum við bátana af siglingarljósunum löngu áður en þeir birtust í hafnarkjaftinum. Við vissum allt um hvern einasta bát og kunnum Skipaskránna utanbókar. Stundum hlýddum við hver öðrum yfir skrána, og það þótti afleitt að klikka á tonnafjölda, smíðastað eða vélarstærð; plús fékkst fyrir að vita hvaða vélar væru með forþjöppu.“
Maður læði ýmislegt
„Maður lærði ýmislegt á bryggjunum og í bátunum. Auðvitað lærðum við á áttavita. Og við vissum hvernig átti að skjóta June Munktel tvígengisvél í gang. Og við lærðum að fella net hjá Steina „gamla“; vorum nánast í fullri vinnu hjá honum stundum; launin voru ein lítil kók og prinspóló fyrir hvert frágengið netið. Við lærðum að splæsa tóg og hnýta alla hnúta sem komu að notum. Við lærðum að skrapa og mála bátana og klifra upp í mastur án öryggisbúnaðar. Og við lærðum að detta í sjóinn og koma okkur aftur upp á bryggju. Og stálum árabátnum í Slippnum og lærðum við að róa.
Flekaútgerð í Örfirisey
„Ekki má gleyma Örfirisey. Þangað lá leiðin iðulega í góðu veðri. Á miðri eyju var tjörn. Þar stunduðum við flekaútgerð. Það kom fyrir að flekarnir breyttust í herskip. Þá voru aðrir peyjar á fleka að gera sig breiða og þurfti að lækka í þeim rostann. Slíkar sjóorrustur enduðu ávallt með því að flekarnir hristu af sér stríðsmennina sem þurftu að krafla sig til lands og hjóla heim rennandi blautir. Þá var von á gusu heima því alla jafna var olíubrák á tjörninni.“
Alsbert fólk og karl með risatippi
„Í Örfirisey var líka alsbert fólk, bæði karlar og kerlingar, að gera bjánalegar leikfimiæfingar. Við lágum í leyni, fylgdumst með og flissuðum. Út við olíutanka var hins vegar ískyggilegur náungi sem sagt var að borgaði strákum fyrir að snerta á sér tippið. Sá gerði engar leikfimiæfingar heldur spratt upp þegar strákar voru að leika sér á klöppunum fyrir neðan geymana og gerði þeim tilborð. Við tókum alltaf til fótanna þegar sást til karlsins. Þegar við þóttumst öruggir hlógum við hátt og taugaveiklunarlega. Vá, sögðum við, tippið á honum stóð langt út í loftið! Þegar ég missti það út úr mér við Gauja föðurbróður minn að úti í Örfirisey væru karl með tippi sem væri stærra en handleggurinn á mér vildi hann endilega vita nákvæmlega hvar karlinn héldi sig. Ég upplýsti það. Eftir það sáum við karlinn aldrei. Ég veit ekki hvað Gaui hefur sagt við hann; það hefur ekki verið neitt kurteisishjal ef ég þekki Gauja rétt.“
Gat aldrei sjóast
„Svo vorum við allt í einu orðnir of gamlir til þess að slæpast á bryggjunum. Sumir fóru á sjóinn. Siggi, Bubbi og Stebbi urðu skipstjórnarmenn. Ég var nokkur sumur á sjó með föður mínum. Ekkert er skemmtilegra en að vera á sjó í sæmilegu veðri. En ég gat ekki sjóast, um leið og brældi kastaði upp í það óendanlega. Afi minn var sjóveikur í fimmtíu ár; faðir minn í önnur fimmtíu. Ég gat ekki hugsað mér að æla í hálfa öld. Ennþá dreymir mig samt þessa ótrúlegu daga á sjó þegar dekkið var fullt af gulum þorski og hafið og landið og við karlarnir á þessum fáeinu fljótandi spýtum vorum einhvern veginn eitt. Svona er maður rómantískur þegar maður þarf ekki að kasta upp í vinnunni.“