Deilt um hugmyndir um byggingar við Stekkjarbakka

Fyrirhugað framkvæmdasvæði liggur neðan við götuna Stekkjarbakka.

Meiri- og minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur greinir á um hvort þau úrræði sem standa borginni til boða og gripið hefur verið til sé nægileg til friðunar á svæðinu eða hvort grípa þurfi til ítrustu úrræða með því að friða svæðið alfarið samkvæmt náttúruverndarlögum. Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906 til vatnsaflsvirkjunar og var Rafstöðin reist um 1920.  Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um Elliðaárdalinn sem náttúruperlu sem nauðsynlegt sé að varðveita.

Fjallað hefur verið í borgarráði um tillögu Landslags ehf. frá 1. júní sl. að deiliskipulagi fyrir Stekkjarbakka. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 til 2030 var Elliðaárdalurinn afmarkaðurinn og skilgreindur sem borgargarður og settur sem slíkur undir hverfisvernd. Deiliskipulagssvæðið við Stekkjarbakka liggur fyrir ofan Elliðaárdalinn og er ekki inni á því svæði sem borgarverndin tekur til. Í tillögu Landslags ehf. er gert ráð fyrir nýrri byggð við Stekkjarbakka. Þar eru skilgreindar nýjar lóðir, byggingarreitir og hámarks byggingamagn á svæðinu. Sýndar eru nýjar aðkomur inn á svæðið og fjöldi bílastæða skilgreindur. Í bókun minnihlutans í borgarráði kemur fram andstaða við tillögur um breytingar á afmörkunum skipulags Elliðaárdalsins. Fulltrúar minnihlutaflokkanna segjast leggja ríka áherslu á verndun grænna svæða í borgarlandinu og leggjast gegn hvers kyns uppbyggingu mannvirkja sem gengið geta nærri slíkum svæðum og viðkvæmu lífríki þeirra. Þannig vilja þeir að unnið verði að því í samráði við umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun að Elliðaárdalur og nærliggjandi svæði verði friðlýst með þeim hætti sem kveðið er á um í 38. grein náttúruverndarlaga. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur er lögð rík áhersla á að ekki sé gengið á græn svæði innan borgarinnar og er það metið sem svo að þessi uppbygging sé í fullu samræmi við þá stefnumörkun. Bent er á að ef dalurinn yrði friðlýstur samkvæmt náttúruverndarlögum myndi borgin missa yfirráð yfir honum og þau myndu færast til ríkisins.

You may also like...