Allt að 300 íbúðir á Héðinsreit
– enn óvíst með BYKO reitinn við Hringbraut –
Vinnu við deiliskipulag vegna svonefnds Héðinsreitar í Vesturbæ Reykjavíkur er að ljúka. Að því loknu er gert ráð fyrir að unnt verði að byggja allt að 300 íbúðir á reitnum sem er vestan Héðinshússins og Seljavegar. Þar af erum um 200 íbúðir á þeim hluta reitsins sem fasteignaþróunarfélagið Festir er í forsvari fyrir. Ekki er gert ráð fyrir byggingu hótels á reitnum.
Gert er ráð fyrir að íbúðir sem byggðar verða á reitnum verði af ýmsum stærðum og lögð áhersla á bæði minni og stærri íbúðir. Með þessum byggingum gætu hátt í 500 manns bæst í íbúafjölda Vesturbæjarins. Einnig hefur verið fyrirhuguð um hríð endurbygging á gamla Steindórsplaninu austan Hringbrautarinnar sem oft er kennt við BYKO. Hugmyndir voru um byggð bæði íbúða og hótels á því svæði en ekki liggur fyrir hvort og að hversu miklu leyti þær kunna að verða endurskoðaðar. Verslunin Víðir var um tíma í gamla Steindórshúsinu eftir að BYKO flutti út í Örfirisey en hefur nú hætt störfum.