Aðflutt fólk skilar miklu í þjóðarbúið

– segir Claudia Ashonie Wilson, lögfræðingur –

Claudia Ashonie Wilson.

Claudia Ashonie Wilson, lögfræðingur hefur verið nokkuð í sviðsljósinu að undanförnu. Hún starfar meðal annars að mannréttindamálum og hafa málefni tengd fólki sem leitað hefur eftir alþjóðlegri vernd og búsetu hér á landi komið á hennar borð. Claudia starfar hjá Rétti lögmannsstofu í eigu Ragnars Aðalsteinssonar og fleiri – stofu sem hefur sérhæft sig í mannréttindamálum. Claudia er sjálf mikil áhugamanneskja um mannréttindi og er því á heimavelli með Ragnari og félögum í Rétti. Claudia á sér sína sögu. Hún er sjálf nýbúi hér á landi. Er ættuð frá Jamaica en hefur búið hér í um tvo áratugi.

Claudia kynntist íslenskum manni og þau settust að á Selfossi eftir að hún kom hingað. Hún segir að þá hafi skilyrði fyrir því að setjast að hér á landi ekki verið eins ströng og síðar varð. Auðveldara hafi verið á fá landvistarleyfi. “Skilyrðin voru þrengt með nýjum útlendingalögum sem tók gildi 2003. Þá voru aðeins um 2% fólks af erlendum uppruna en eru nú komin í 15,6%.”

Lærði íslensku fyrst af samstarfsfólki á Selfossi

Talið berst að Selfossi. “Ég var í áratug á Selfossi en flutti til Reykjavíkur árið 2011. Í fyrstu fór ég að vinna við hótelstörf. Þar kynntist ég ágætu fólki, flest voru eldri konur sem ég vann með. Þær töluðu litla eða enga ensku og það sýndi mér að ef ég ætlaði að búa hér til frambúðar yrði ég að ná tökum á íslensku. Ég naut samstarf við þessar konur. Eldra fólk talar oft betri íslensku en það yngra sem kynnst hefur og lært önnur tungumál. Ég lærði af þeim. Ef ég lít til baka þá var íslensk langamma strákanna minna ein af mínum uppáhalds konum. Við töluðum alltaf saman á íslensku, en hún féll frá fyrir fjórum árum.” 

Fann fljótt mun á rituðu máli og framburði

Hvað fannst Claudiu erfiðast við íslenskuna. “Ég bjó til mína eigin orðabók. Skrifaði íslensku orðin niður eins og þau hljómuðu fyrir mér ásamt réttri stafsetningu og merkingu orða. Ég fann fljótt fyrir mun á rituðu máli og framburði. Sum orð eru borin fram með öðrum hætti en þau eru skrifuð. Mér fannst að búa mér til mína eigin orðabók hjálpa mér og ég lærði síðan að skrifa orðin rétt. Ég sótti námskeið í íslensku en ég lærði mest í gegnum annað nám sem ég hef stundað hér á landi. Íslenskukennsla fyrir nýbúa hér á landi þarf að taka betra mið af aðstæðum fólks. Þær eru mismunandi frá einum einstaklingi til annars og það vantar betri samræmingu milli kennslu og kennsluefnis. Þá ber jafnframt að taka tilliti til þess að fólk kemur frá ólíkum málsvæðum. Sumir tala ekki ensku og hafa jafnvel aldrei verið í skóla í sínu heimalandi. Við verðum að vera raunsæ gagnvart þessu. Það eru ekki allir með sama bakgrunn eða sömu aðstæður. Sumir innflytjendur eru ekki læsir, sérstaklega þeir sem koma frá svæðum þar sem aðgengi að menntun er ekki sjálfgefið. Við verðum að ná til fólks sem kemur þaðan, ef við ætlum að tryggja að fleiri tali íslensku.”

Tók framhaldsskóla og háskólanám á Íslandi

Claudia lét ekki staðar numið við að læra íslensku. Hún tók sér lengra nám fyrir hendur. “Ég byrjaði á að fara í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Ég var á viðskipta- og hagfræðibraut og var þriðjung í að fá stúdentsprófið þegar innritaði ég mig í laganám við Háskólann í Reykjavík. Ég var þegar með stúdentspróf frá Jamaíku, en ég ákvað samt að fara í menntaskóla hér. Þegar ég hóf laganámið mitt, bjó ég á Selfossi og keyrði nær daglega á milli fyrstu þrjú árin. Í öllum veðrum. Ég var nokkuð heppin. Það var minna um óveður og lokanir þá en nú að undanförnu. Ég man líka þegar ég sá snjó í fyrsta skipti. Ég þurfti að bragða á honum. Finna hvernig þetta hvíta duft var á bragðið, en ég veit ekki svo sem hverju ég átti von á“, sagði Claudiu hlæjandi. „Ég er að eðlisfari forvitin og vil vera með í því umhverfi þar sem ég er. Ég lít á allt sem ég fæst við sem áskorun. Að gefast upp er ekki til í orðaforða mínum. Ég hef aldrei lært það hugtak.”

Fólk er að vinna störf fjarlæg menntun þess og starfsreynslu

Claudia heldur áfram að ræða möguleika fólks sem flytur hingað til lands. Hún telur mikla nauðsyn á að fólk læri tungumálið. Ef fólk hafi vald á tungumálinu sé það komið meira inn í samfélagið. Hún bendir þó á að tungumálið sé ekki það eina sem fólk þurfi að yfirstíga. Fleiri vandamál séu fyrir hendi. “Fólk sem flytur frá öðrum löndum hefur oft mun minni aðgang að störfum – einkum störfum sem hæfa þeirri menntun sem það kemur með frá heimalandinu og eftir atvikum hafa aflað sér hérlendis. Fólk er oft að vinna störf sem eru fjarlæg menntun þess og þeirri starfsreynslu sem það býr að.“ 

Fórnarlambsvæðing í stað valdeflingar

Claudia er meðhöfundur skýrslu sem unnin var fyrir fyrir Rétt um möguleika innflytjenda að vinnumarkaði, en það verkefni var styrkt að hluta af innflytjendasjóði. Hún segir skýrsluna staðfesta m.a. mikilvægi þess að aðlögunin sé gagnkvæm. „Niðurstöðu skýrslunnar var meðal annars sú að heildstæða stefnu um aðlögun á vinnumarkaði skorti. Þess til viðbótar að áætlanir um aukna atvinnuþátttöku erlendra ríkisborgara hjá hinu opinbera ekki hluti af stefnumótun. Einnig að litið sé á mikla atvinnuþátttöku sem góða aðlögun að vinnumarkaði. Loks að það sé frekar litið á erlenda ríkisborgara sem þjónustuþega heldur en þjónustuveitendur við opinbera stefnumótun. Ég hef áhyggjur að slíkt viðhorf geti aukið líkur á fórnarlambsvæðingu í stað valdeflingar fyrir innflytjendur.“ 

Við vinnu á lögmannsstofunni.

Aðlögunin er gagnkvæm

Vissulega þarf fólk af öðru þjóðerni að laga sig að samfélaginu hér en samfélagið verður líka að aðlagast nýbúum og læra að taka við þeim og meta það sem þeir hafa fram að færa. Þarna er ég að tala almennt um málin en út frá minni persónulegu reynslu hefur mér gengið vel að koma mér fyrir í samfélaginu. Það hefur eflaust hjálpað að ég er óhrædd við að gera kröfur og setja mig í óþægilegar aðstæður. Ég er mjög ánægð að hafa fengið tækifæri til þess að taka þátt í umræðu um það sem ég hef áhuga á. Ekki síst umræðu um umhverfismál, mannréttindi og stjórnmál.”    

Útlendingastofnun styðst mjög við ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar

Talið berst að útlendingamálunum en Claudia vinnur að málefnum fólks af erlendum uppruna sem er í viðkvæmri stöðu hér á landi. Fólks sem af ýmsum ástæðum hefur sóst eftir alþjóðlegri vernd hérlendis. Claudia vann nýlega að máli íranskrar fjölskyldu með góðum árangri og kom í veg fyrir að transstrákur ásamt fjölskyldu sinni væri gert að fara aftur til Portúgal og hugsanlega þaðan til Íran þar sem líf og frelsi þeirra væri ógnað. Hún segir að í útlendingalögum sé að finna heimild fyrir Útlendingastofnun að taka mál fólks sem hingað leitar til efnismeðferðar. Þrátt fyrir að hún sé til staðar sé henni sjaldan beitt en Útlendingastofnun styðjist mjög við ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar sem kveða m.a. um að það Evrópu ríki sem umsækjandi hafi stoppað fyrst beri ábyrgð. Endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd til annars Evrópu ríkis sé því umfangsmeiri hér á landi. „En þrátt fyrir hvernig brugðist er við þeim sem leita hælis hér á landi er mín upplifun að Íslendingar séu almennt mannréttindasinnað fólk. Viðbrögð við umdeildum málum sem komið hafa upp sýna að fólk er tilbúið að láta heyra í sér. Láta sjónarmið sín í ljós.“

Lög um útlendinga þurfa gagngera endurskoðun

Claudia segir að aðkomið fólk sem hefur verið að berjast fyrir að öðlast hér réttindi og landvistarleyfi hafi fengið ótvíræðan stuðning úr ýmsum áttum. „Þetta veitir mér innblástur sem lögmanni sem vinnur við þennan erfiða málaflokk. Þjóðin er óhrædd að tjá sig og fólk krefst mannúðlegri meðferð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd en liggur fyrir af hálfu yfirvalda. Fyrir mér er það ljóst og ég byggi það bæði á mínum sjónarmiðum og reynslu sem lögmaður sem starfar að þessum málum að lög um útlendinga þurfa gagngera endurskoðun. Við munum áfram sjá fjölmiðla og fólk kalla eftir réttlátari málsmeðferð. Ég á ekki við að galopna eigi öll landamæri. Það er ekki tilgangurinn. Hlutverk mitt sem mannrétttindalögfræðings er að skoða hvort mannréttindabrot hafi verið framin og hvernig hægt er að styðja við fólk með þeim tækjum og tólum sem eru fyrir hendi, sem er fyrst og fremst lög og dómstólar í þessu landi.“ 

Fólk flutt úr landi áður en mál þess koma fyrir dómstóla

Claudia segir að þeir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem vilja leita réttar síns fyrir íslenskum dómstólum fái sjaldan tækifæri til að dvelja áfram hérlendis á meðan að málarekstri stendur. Kærunefnd útlendingamála synjar um 85% slíkra beiðna. Fólk sé því flutt úr landinu áður en mál þeirra koma fyrir dómstólum og sú hætta er að lögmenn missa tengsl við umbjóðendur sínir eftir að þeir yfirgefa landið. Claudia tók sérstaklega fram að málefni barna á flótta þurfa svo sannarlega mikla endurskoðun, en stjórnvöld virðist ekki vera í raun að taka tilliti til ákvæða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar þau má eru til skoðunar. Sem lögfræðingur á ég erfitt með að segja til um af hverju þetta er svona en geri mér grein fyrir að mikillar endurskoðunar er þörf.”

Aðflutt fólk skilar miklu í þjóðarbúið

Claudia vitnar til greinar sem Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins vann. “Þar kemur fram hversu jákvæð áhrif fólk sem komið hefur hingað frá öðrum löndum hefur haft á atvinnulífið, en hann telur fram að þátttaka erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði hafi verið lykilþáttur í að skapa hagvöxt síðustu ára. Hannes nefndi m.a. að næstum fjórði hver starfsmaður á Íslandi sé erlendur og atvinnuþátttaka þeirra sé mjög há, eða 94% samanborið við 77% hjá innfæddum. Það er að skila miklu í þjóðarbúið.“

Hærra hlutfall aðfluttra en á Norðurlöndunum

Claudia segir ljóst að jákvæðu áhrifin koma víðar fram. „Fólk ættað frá ólíkum svæðum er að deila menningu sinni með innfæddum á sama hátt og aðfluttir þurfa að aðlagast því umhverfi sem þeir búa í. Samkvæmt skýrslu OECD frá 2016 og norrænni skýrslu um atvinnuþátttöku og menntun innflytjenda og flóttamanna á Norðurlöndunum frá 2019 er hæsta hlutfall fólks af öðru þjóðerni en innfætt á vinnumarkaði á Íslandi ef borið saman við hin Norðurlöndin. Þetta er með öðrum hætti en sú staðalímynd sem aðflutt fólk hefur þurft að sæta um að þau séu hér til þess að lífa á kerfinu. Allar tölur sýna að Íslendingar njóta þess að hafa aðflutt fólk.” Claudia segir að nú sé önnur kynslóð fólks af erlendum uppruna að vaxa upp hér á landi. “Þetta á í raun að vera fólk í mun betri stöðu hvað tækifæri til atvinnu varðar en foreldrarnir sem komu hingað. Þurftu að læra tungumálið og laga sig að umhverfi og mannlífi sem gat verið ólíkt því er í þeirra heimalandi. En eins og staðan er í dag er engin opinber stefna til um hvernig eigi að fá fólk af þessari kynslóð til starfa hjá hinu opinbera. Ýmsar rannsóknir sýna að hlutfallslega færri innflytjendur útskrifast úr framhaldsskóla en nemendur af íslenskum uppruna. Við eigum enn margt ógert. Stjórnvöld þurfa að setja skýra stefnu en ekki síst að tryggi framkvæmd þess ef við ætlum að vinna bug á þessari þróun og skapa öruggari framtíð fyrir börn af erlendum uppruna. Alveg er ljóst að fólk af öðrum þjóðernum hefur sest hér að. Það er komið til að vera. Þau hafa og vilja halda áfram að skapa verðmæti fyrir samfélagið og auðga það að menningarlegum áhrifum.”

You may also like...