Vesturbærinn er skemmtilegur

Guðmundur Steingrímsson. Timburveggurinn í bakgrunni er táknrænn fyrir áhugamál hans.

– segir Guðmundur Steingrímsson ritstjóri, tónlistarmaður og rithöfundur og fyrrv. alþingismaður –

Guðmundur Steingrímsson ritstjóri, tónlistarmaður og rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður hefur sent frá frá sér nýja skáldsögu. Bókin nefnist Heimsendir og er gefin út hjá Bjarti útgáfu, sem er staðsett í Vesturbænum í Reykjavík. Bókin fjallar um Leif, rótlausan blaðamann, sem ákveður að rífa sig upp úr tilbreytingarleysinu, losa út síðustu peningana úr fjárfestingum sínum á netinu, og bjóða kærustunni, Unni, í lífsnautnaferð til Bandaríkjanna. Ferðin þróast á óvæntan veg. 

„Þetta er einhvers konar tilvistarleg spennusaga og kannski líka nútíma ævintýri um ungan mann sem fer út í heim til að berjast við dreka, í eigin sálarlífi og annars staðar. Það er klassískt viðfangsefni. Mér fannst gaman að heyra að fólki finnst hún skemmtileg og spennandi. Það á erfitt með að leggja hana frá sér. Ég byrjaði að skrifa hana fyrir löngu síðan en náði ekki að klára fyrr en ég hætti á þingi. Þá hafði ég meiri tíma. Ég hef hugsað mér að skrifa núna fleiri bækur. Það eru nokkrar bækur í kollinum sem ég verð að koma á blað.“ 

Skemmtilegur Vesturbær

Guðmundur hefur búið í Vesturbænum um árabil. Flutti á Nesveginn árið 2004 og síðar í Faxaskjól þar sem hann býr nú ásamt konu sinni Alexíu Björgu Jóhannesdóttur leikkonu og tveimur börnum. En hvað kom til að Garðbæingurinn settist að í Vesturbænum í Reykjavík? “Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Ég gekk í Menntaskólann í Reykjavík og kynntist þá mörgum jafnöldrum mínum úr Vesturbænum. Ef ég horfi lengra aftur í tímann þá á ég ákveðnar rætur í Vesturbænum. Faðir minn, Steingrímur Hermannsson, var alinn upp í Tjarnargötunni og var KR-ingur. Bróðir minn býr einnig í Vesturbænum og þar eru margir vinir mínir. Krakkarnir eru ánægð í skólunum bæði Melaskóla og Hagaskóla og við kunnum afskaplega vel við okkur. Maður er með sjóinn og náttúruna beint fyrir framan augun. Að búa í Faxaskjólinu er næstum því eins og að búa í Flatey. Nálægðin við sjóinn er svo mikil. Mér finnst líka gaman að upplifa breytingarnar sem hafa verið að gerast í Vesturbænum. Umhverfið við Hagamelinn ber orðið svolítinn keim af miðborgarlífi. Kaffi Vest er skemmtileg viðbót og margt annað skemmtilegt í aðsigi. Íbúasamsetningin er líka að breytast. Krökkunum hefur verið að fjölga bæði í mínu nánasta umhverfi niður við sjóinn í Faxaskjóli og einnig annars staðar í borgarhlutanum. Það eru að verða ákveðin kynslóðaskipti. Þegar ég flutti í Vesturbæinn voru ekki mörg börn í nágrenni við okkur en þeim hefur fjölgað verulega og nú er orðið mikið líf og fjör í götunni og nágrenni hennar. Þetta er virkilega góður staður. Stutt að hjóla niður í bæ.”

Guðmundur Steingrímsson ásamt Alexíu Björgu Jóhannesdóttur eiginkonu sinni. Myndin var tekin í tilefni af Reykjavíkurmaraþoni síðastliðinn laugardag.

Smiðurinn er í ættinni

“Við Alexía festum kaup á húsi í Faxaskjóli fyrir fimm árum. Það var búið að gera það upp að hluta og við tókum til við að halda áfram þar sem fyrri eigendur höfðu horfið frá. Við klæddum húsið með timbri, skiptum um glugga og gerðum kvist á þakið og tvennar svalir. Ég fékk húsasmíðameistara í lið mér sem stýrði verkinu og kenndi mér margt. Ég vann mikið við húsið sjálfur og geri enn, því það er ekki alveg búið. Þetta er eitthvað í blóðinu. Faðir minn smíðaði oft og sagaði stundum heldur lengra en gott þótti eins og einhvern tíma varð frægt. Smiðsáhuginn liggur í ættinni. Móðurafi hans og langafi minn Steingrímur Guðmundsson var byggingameistari og byggði mörg hús í Miðborginni. Þar á meðal gamla Kvennaskólann. Ég held að pabbi hafi haft þetta frá honum og jafnvel einnig úr föðurætt sinni sem er úr Skagafirði. Föðurafi hans, Jónas á Syðri Brekkum, faðir Hermanns afa, fékkst við smíðar. Eftir að hafa unnið við að endurgera húsið í Faxaskjólinu hef ég öðlast meiri kunnáttu. Núna er ég farinn að taka að mér smíðar og umsjón smíðaverkefna fyrir vini mína, ásamt öðru sem ég er að fást við. Mér finnst það mjög gaman. Smíðar eru róandi og gefandi.”

Tók ákvörðun um að hætta í stjórnmálum 

Oft hefur reynst stjórnmálamönnum erfitt að skipta um vettvang og stundum heyrast raddir um að atvinnulífið sé ekki hliðhollt fólki sem starfað hefur í stjórnmálum meðal annars með setu á Alþingi. Sumir hætta af sjálfsdáðum en aðrir falla í prófkjörum og kosningum. Guðmundur dróg sig úr stjórnmálunum af sjálfssáðum. “Já – ég tók mína eigin ákvörðun um að hætta stjórnmálaþátttöku. Alla vega um sinn. Mig langaði að sjá hvað lífið hefur upp á að bjóða. Ég tel þingmennsku ekki endilega vera ævistarf. Ég hafði alla vega ekki hugsað það þannig. Þingmennska og önnur stjórnmálastörf gefa vissulega af sér góða reynslu. Maður kynnist mörgu með því að taka þátt í stjórnmálum en það þarf ekki að vera eitthvað lögmál að fólk eigi eða vilji hanga í þessu endalaust.” Guðmundur bendir á að mikil og nokkuð stöðug endurnýjun hafi orðið á Alþingi að undanförnu. Það sé bæði gott og slæmt. “Þingið sem situr í dag er mjög ungt. Margir af þingmönnum eru að taka sín fyrstu skref. Margir af þeim sem sátu með mér á þingi eru horfnir til annarra verka – sumir eftir of stutta setu að mínu mati. Þótt ég telji mikilvægt að endurnýjun eigi sér stað, þá held ég að svo ör endurnýjun skapi ákveðið reynsluleysi innan raða þingsins sem getur leitt til þess að þingið hjakki of mikið í sama farinu. Best er ef endurnýjunin er nokkuð jöfn. Það er ekki gott að um helmingur þingmanna komi nýr af nálinni inn á þing eftir hverjar kosningar. Þingmennska og önnur stjórnmálaþátttaka er vissulega ákveðin almannaþjónusta sem einhverjir verða að sinna og það er nauðsynlegt að fólk nái að öðlast nokkra reynslu í þeim störfum. Og síðan finnst mér mikilvægt að sú reynsla nýtist líka annars staðar eftir þingmennsku.”

NPA verkefnið minnisstætt

Guðmundur kveðst mjög sáttur við störf sín á þingi. Hann hafi komið málum í gegn og náð að hafa góð áhrif. En eru einhver verkefni honum hugleiknari en önnur sem hann vann að þann tíma sem hann sat á Alþingi? “Mér er NPA verkefnið líklega minnisstæðast. Ég hafði frumkvæði að þingsályktunartillögu um að NPA, eða notendastýrð persónuleg aðstoð við fatlað fólk, yrði einn meginvalkosturinn í þjónustu við fatlað fólk. Það var samþykkt og ég var síðan fenginn til að stýra verkefnisstjórn um innleiðingu NPA. NPA er þjónustuform sem gjörbreytir lífsskilyrðum fatlaðs fólks og er besta leiðin til að færa fötluðu fólki sjálfstæði í lífi sínu. Þegar ég var að vinna að þessu lá leiðin fram og aftur á milli ráðuneyta og sveitarfélaga því það er í þeirra verkahring að inna þessa þjónustu af hendi. Þetta var heilmikið starf, sem leiddi meðal annars til þess að um 50 NPA samningar voru gerðir í nokkurs konar tilraunaskyni. Það var áhrifamikið að sjá hvað þessir samningar höfðu mikil áhrif á líf fólks. Nú nýverið var síðan NPA lögfest sem þjónustuform. Það var merkur áfangi sem hefur mikil og raunveruleg áhrif á líf fatlaðs fólks, aðstandenda þeirra og á samfélagið allt.”

Björt framtíð hafði áhrif

Guðmundur sat á þingi fyrir þrjá flokka meðan hann var í pólitík. Hann var fyrst varaþingmaður fyrir Samfylkinguna frá 2007 og fram yfir hrun. Svo varð hann alþingismaður Norðvesturkjördæmis á árunum 2009 til 2013, fyrst fyrir Framsóknarflokkinn og síðan utan flokka og þar á eftir alþingismaður Suðvesturkjördæmis 2013 til 2016 fyrir Bjarta framtíð, sem hann stofnaði. Hann segir Bjarta framtíð hafa náð að marka sér töluverða sérstöðu og að áhrifin séu líklega meiri en margir geri sér grein fyrir. “Við vildum breyta þessari hefðbundnu stjórnmálamenningu og opna nýjar leiðir fyrir fólk til þess að hafa áhrif. Margir kveiktu á því sem við vorum að gera og ég held að þessi löngun til að hafa stjórnmálin aðgengileg, mannleg og jafnvel uppbyggileg hafi smitað út frá sér og sé viðurkennd krafa í dag. Við náðum líka árangri í mörgum sveitarstjórnum og ég held að við höfum náð að halda á frjálslyndiskeflinu nokkuð vel í þessu pólitíska boðhlaupi gamalla og nýrra flokka sem er í gangi. Kannski er Viðreisn búið að taka við því kefli núna. Mér sýnist það. Það er alla vega mikilvægt að einhver sé með það. Við tókum góðan sprett, fannst mér, með frjálslynd stefnumál og líka grænar áherslur, sem ég er mjög ánægður með að við gerðum, ásamt áherslunni á mannréttindamál.” Guðmundur segir nauðsynlegt fyrir fólk sem starfar í stjórnmálum og situr í sveitarstjórnum og á Alþingi að mynda nokkurn skráp um sjálft sig. “Áreitin geta verið mörg bæði í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og jafnvel í samskiptum í hinu daglega lífi. Maður verður á milli tannanna á fólki. Það er hluti af hinu pólitíska lífi. Þetta getur leitt til þess á löngum tíma að fólk þróar með sér tilhneigingu til að vera endalaust í vörn eða vera sama um allt sem sagt er. Hvort tveggja er slæmt að mínu mati. Á einhverjum tímapunkti í stjórnmálum stendur fólk frammi fyrir því að skrápurinn sé mögulega að breyta persónuleikanum varanlega. Þá er spurning hvort fólk sé til í það. Ég var ekki til í það.”   

Hef alltaf haft áhuga á að skrifa

Guðmundur snýr aftur að lífinu eftir þingstörfin og segir veröldina of spennandi til þess að binda sig of lengi við þingmennsku. “Ég hef alltaf haft áhuga á að skrifa. Ég byrjaði að vinna sem blaðamaður fimmtán ára gamall, þá meðfram námi. Ég var á Tímanum hjá Indriða G. Þorsteinssyni og Ingvari Gíslasyni. Ég man vel þegar Indriði var að semja fyrirsagnirnar, bölvandi út í eitt. Hann var eftirminnilegur maður. Ég viðheld núna blaðamannaþörfinni og áhuganum á þjóðfélagsmálunum með því að skrifa pistla í Fréttablaðið og svo rekum við gömlu félagarnir úr pólitíkinni, ég og Róbert Marshall, fyrirtæki sem heitir Vertu úti sem sér um útgáfu tímarits, sem heitir Úti og fjallar um útivist og alls konar áskoranir og lífsstíl úti í náttúrunni. Við erum líka með vefsíðuna vertuuti.is. Sjónvarpsþættirnir Úti voru líka á RÚV í vor og Útivarpið í útvarpinu í sumar. Við erum fjölmiðlafyrirtæki á sviði útivistar og við hyggjum á ýmislegt fleira því tengt. Það er mjög gaman að fjalla um þetta efni. Fólk er svo glatt þegar það er í útivist og endalaus áhugaverð ævintýri að gerast. Ég sé mikla hugarfarsbreytingu í þessum efnum. Fleira og fleira fólk drífur sig upp úr sófunum og fer út. Fer að ganga og hlaupa og vera úti í náttúrunni. Við erum að byggja þennan rekstur upp. Þetta er lítið fyrirtæki og að koma því af stað er basl í byrjun. En við þurfum ekki að kvarta. Svo er ég líka í tónlist. Hljómsveitin sem ég hef verið í frá því í menntaskóla, Skárren ekkert, eða SKE, starfar ennþá. Við erum nýlega búnir að halda okkar árlega ball í Flatey. Svo erum við Róbert alltaf með gítarana niðri á skrifstofu. Við getum algjörlega gleymt okkur þar í gítargutli, félagarnir. Lífið er gott.”

You may also like...