Ganga þarf um umhverfi hafnarinnar af varúð og virðingu

Þessi mynd var tekin við Reykjavíkurhöfn um 1930. Í ár eru liðin 100 ár frá því að höfnin var formlega tekin í notkun. Afmælisins er minnst og fjallað um höfnina í ítarlegu viðtali við Gísla Gíslason hafnarstjóra Faxaflóahafna.

Reykjavíkurhöfn er 100 ára. Stofndagur hennar var 16. nóvember 1917 þegar hafnarnefndin kom saman á skrifstofu Knud Zimsen borgarstjóra ásamt verkfræðingunum Kirk og Pedersen og ráðunautum hafnarnefndar. Á fundinum náðist samkomulag um þau ágreiningsmál sem uppi voru og tók hafnarnefndin við hafnarmannvirkjunum með nokkrum fyrirvörum frá þeim degi að telja. Nær níu áratugum síðar eða í byrjun árs 2005 tók nýtt hafnarfyriræki, Faxaflóahafnir sf., til starfa. Fyrirtækið á og rekur fjórar hafnir, Reykjavíkurhöfn, Grundartangahöfn, Akraneshöfn og Borgarneshöfn. Faxaflóahafnir sf. er sameignarfélag í eigu fimm sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðarsveitar, Skorradalshrepps og Borgarbyggðar. Höfnin hefur frá upphafi verið stór þáttur í bæjarmynd og umhverfi gamla Vesturbæjarins. Segja má með sanni að þessi borgarhluti hafi byggst frá höfninni. Í dag er Reykjavík eina höfuðborg Vesturlanda sem hefur höfn þar sem útvegur og fiskvinnsla á sér samastað. Vesturbæjarblaðið hitti Gísla Gíslason hafnarstjóra Faxaflóahafna að máli á dögunum.

Gísli segir að starfsemi Reykjavíkurhafnar sé hluti af Íslandssögunni. Allt frá landnámi hafi verið stundaðar siglingar hingað til lands – margar og merkilegar á hinum ýmsu tímum. Engin raunveruleg hafnaraðstaða var þó í landinu og því notast við það sem náttúran hafi skapað. Oft tók aðstöðuleysið toll og skips- og mannskaðar voru tíðir. Af þeim sökum voru menn farnir að velta fyrir sér hafnargerð í Reykjavík um miðja 19. öld og 1856 hafi var stofnaður sérstakur hafnarsjóður í Reykjavík. Stofnun sjóðsins þýddi þó ekki að hægt væri að hefjast handa með hafnargerðina. Það ver ekki verið fyrr en árið 1913 að hafist var handa við verkið.

Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna á hafnarskrifstofunni í Hafnarhúsinu við gömlu höfnina. Hafnarhúsið var reist á árunum 1932 til 1939 fyrir skrifstofur og vörugeymslur Reykjavíkurhafnar og var á sínum tíma ein stærsta bygging í Reykjavík.

Hafnargerðin strandaði fyrst og fremst á fjárskorti

“Þarna strandaði fyrst og fremst á því að erfitt var að fá fjármuni til svo umfangsmikils verks. Hafnargerðin var stærsta verk Íslandssögunnar á þeim tíma og verkfræðilegt afrek miðað við þá kunnáttu og tækni sem til var á þeim tíma. Sjónarmið voru líka skipt og sitt sýndist hverjum um hvort forsvaranlegt væri að fara út í slíka risaframkvæmd. Verslunarmenn þrýstu fast á hafnargerðina enda höfðu orðið mörg stór tjón upp undir landi vegna aðstöðuleysisins þar sem bæði vörur, skip og mannslíf töpuðust í erfiðum veðurskilyrðum. Útgerðin var einnig að breytast og færast til nýrri tíma. Togaraútgerð var hafin og ýmsir athafnamenn töldu að höfnin yrði sá sproti sem mestu varðaði um framtíð borgarinnar og mannlífsins þar sem varð. Ég held að fáum blandist hugur um í dag að höfnin hafi allt frá fyrstu tíð mikil áhrif á þróun borgarinnar og einkum þess hluta hennar sem næst liggur.”

Sögulegir atburðir á Miðbakka

Gísli lítur út um glugga hafnarskrifstofunnar eins og hann kallar skrifstofur Faxaflóahafna. Þar blasir Miðbakkinn við og hann lætur hugann reka til baka. “Hér hafa ýmsir sögulegir atburðir átt sér stað. Hér kom sir Winston Churchil á stríðsárunum. Steig af skipsfjöl og stappaði stáli í breska hermenn og Íslendinga. Flugvélar komu og lentu á höfninni. Í því sambandi má minnast Charles Lindberg flugkappa sem kom hingað í ágúst 1933 og höfnin var einnig notuð fyrir farþegaflug á fyrstu árum þess þegar sjóflugvélar eða flugbátar voru notaðir. Síðla árs 1955 kom Halldór Kiljan Laxnes heim með nóbelsverðlaunin með Gullfossi og steig á land á Miðbakkanum. Og þann 21. apríl 1971 kom danska varðskipið Vædderen (hrúturinn) með íslensku handritin og lagðist að Miðbakkanum. Mikill fjöldi fólks tók fagnandi á móti þessum fyrstu íslensku handritum sem voru flutt hingað heim frá Danmörku og margir höfðu búið sig í sitt besta skart í tilefni dagsins. Það tengjast ýmsir bæði menningarlegir og sögulegir atburðir Miðbakkanum og hafnarsvæðinu. Verkamannafélagið Dagsbrún gerði sinn fyrsta kjarasamning við höfnina þegar verið var að jafna kaup hafnarverkamanna. Það var raunar upphafið að þeim ferli sem síðar einkenndist af störfum verkalýðsforingjanna Eðvarðs Sigurðssonar sem jafnan var kenndur við félagið og Guðmundar J. Guðmundssonar. Þá er engin spurning um að tilkoma hafnarinnar og þeirra tækifæra sem þar urðu til styrkti þá þjóðernisvakningu sem hófst með heimastjórninni 1904 og lauk með fullveldisyfirlýsingunni 40 árum síðar eða 1944.

Sir Winston Churchill þá forsætisráðherra Bretlands kom til Reykjavíkur 6. ágúst 1941 og valdist hér daglangt. Hér sést hann ganga frá skipsfjöl við Reykjavíkurhöfn en margir komu til þess að fagna honum. Ísland var á þessum tíma hernumið af Bretum vegna heimsstyrjandarinnar og var koma forsætisráðherrans liður í að stappa stáli í sína menn og Íslendinga.

Tími járnbrautanna

Gísli heldur áfram að horfa til baka – allt til upphafs hafnarinnar. “Á sama tíma og farið var að huga að hafnarframkvæmdum var margt að gerast hér á landi. Íslendingar höfðu fengið heimastjórn 1904 og verið var að byggja vegi og brýr, huga að byggingu spítala og hafna. Vonarneisti var vaknaður í landinu og tímabil ákveðinna framara að hefjast. Íslendingar voru á hinn bóginn fátækir af verkfærum til stórra framkvæmda hvort sem var til moksturs eða flutninga. Því voru meðal annar fluttar tveir eimvagnar hingað, af gerðunum Minor og Pioner, og lagðir teinar upp í Öskjuhlíð. Vagnarnir voru síðan notaðir til þess að flytja efni til hafnargerðarinnar. Páll Ásmundsson starfaði við stjórn eimreiðanna þá ungur að árum en hann var fæddur 1894 á Brekkustígnum. Ég flutti smá erindi um höfnina á Hrafnistu fyrir skömmu. Þar hitti ég meðal annars dóttur Páls sem þar býr. Við áttum gott samtal um þessa tíma en störfin við eimreiðina hafa haldið nafni föður hennar á lofti allt til þessa dags. Hins vegar var hætt að nota hana árið 1928 og síðan hefur ekki verið nein járnbraut á Íslandi. Þess má einnig geta að hafnargerðin hafði umtalsverð áhrif á atvinnulífið sem ekki var of gott um þær mundir. Margir sem gengu atvinnulausir fengu vinnu við hafnargerðina.”

Séð yfir Miðbakka við gömlu höfnina. Á miðri myndinni má sjá hús sem byggt var fyrir Skipaútgerð ríkisins á sínum tíma. Ýmsar hugmyndir hafa verið um nýtingu þessa svæðis en Gísli Gíslason hafnarstjóri segir frá sínum bæjardyrum séð komi ekki koma til greina að byggja íbúðarhúsnæði á bakkanum. Húsið er nú í eigu útgerðarfélagsins Brims og mun einkum notað sem geymsluhúsnæði.

Sérkenni sem við verðum að varðveita

Gísli segir útvegur og fiskvinnsla hafi alla tíð verið hluti af starfsemi hafnarinnar og svæðinu um hverfis hana. “Þetta eru séreinkenni Reykjavíkurhafnar sem við verðum að varðveita. Þetta eru ákveðin söguleg borgareinkenni og útvegsstarfsemin þjónar fleiri atvinnugreinum en sjávarútveginum. Ferðaþjónustan nýtur einnig góðs af henni. Höfnin með allri sinni fjölbreytni dregur ferðafólk til sín enda er ýmis konar ferðaþjónusta farin að blómstra á hafnarsvæðinu.” Gísli segir að útvegsstarfsemin skipti líka miklu máli fyrir fjárhag hafnarinnar. Hún skapar umtalsverðar tekjur ekkert síður en önnur hafnarstarfsemi. Það hafa líka orðið miklar breytingar og framþróun í sjávarútvegi á síðustu 25 árum eða um það bil. Er við horfum á Örfiriseyna þá megum við ekki gleyma að fiskvinnslan sem er stunduð þar er matvælaframleiðsla á heimsmælikvarða. Íslendingar hafa náð miklum árangri í að framleiða hágæða mat og nú eru framleiddir matarskammtar í milljónatali sem fara til helstu verslanakeðja umheimsins. Það er liðin tíð að við séum að selja frosnar fiskblokkir til stofnanaeldhúsa í öðrum löndum.”

Nauðsynlegt fyrir höfn að hafa slipp

Gísli segir að ef maður hefði staðið í fjöruborðinu árið 1917 og reynt að segja fyrir um framtíðina hefði á engan hátt verið hægt að sjá fyrir þær breytingar sem orðið hafa á einni öld og engin leið sé heldur fyrir okkur að sjá fyrir hvað muni gerst næstu 100 árin fram til ársins 2127. “Gamla höfnin varð fljótt aðalinnflutningshöfn landsins og var það lengi eða þar til stærstur hluti vöruflutningana var fluttur inn með Sundum og fara nú um Sundahöfn sem er hluti Reykjavíkurhafnar.” Gísli bendir á að Slippurinn sé enn starfandi í gömlu höfninni. “Við viljum halda í hann sem lengst. Það er okkar sjónarmið að nauðsynlegt sé að hafa slipp. Skipaviðgerðir eru hluti af þeirri þjónustu sem höfnin þarf að veita. Slippurinn hefur líka aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Það hefur komið glöggt í ljós þegar hótel- og veitingastarsemi fór að skjóta rótum á hafnarsvæðinu. Hótelgestum finnst flestum fátt að því þótt verið sé að skrapa skipskrokka og sjóða fyrir utan hótelgluggann þeirra. Þetta er ný reynsla sem mörgum finnst gaman að upplifa.”

 

Flókið sambýli en hafnarstarfsemin verður að halda velli

Ólíkum atvinnugreinum hefur fjölgað á hafnarsvæðinu á undanförnum árum. Þar má finna auk fiskvinnslu og matvælaiðju margvíslega verslunarstarfsemi, listiðju og sýningarsali, hönnunarhús og tölvuiðnað svo nokkuð sé nefnt auk hótela- og veitingastarfsemi af ýmsum toga. En hvernig hefur svo ólíkum starfsgreinum gengið að deila þessu takmarkaða umhverfi sem mótað er af gömlu höfninni og Örfiriseynni. “Þetta er auðvitað talsvert flókið sambýli ólíkra aðila en að mínu mati hefur það gengið mjög vel. Sagan hefur þróast hratt undanfarin áratug og margar nýjungar hafa skotið rótum á skömmum tíma. Þess vegna verðum við að gæta þess alveg sérstaklega að hafnarstarfsemin haldi velli. Við höfum fullan skilning á því að almenningur þarf að hafa greiðan og góðan aðgang að þessu svæði þar sem svo margvísleg starfsemi fer fram. Það þarf líka að huga að andrými allrar þeirrar starfsemi sem skotið hefur rótum.”

Sjávarklasinn – vettvangur nýsköpunar

Gísli talar um þróunarstarfsemi og nefnir Sjávarklasann sér-staklega í því sambandi. “Þetta er sex ára gamalt fyrirtæki sem hefur heppnast ótrúlega vel. Þar eru um 60 fyrirtæki og stofnanir í ýmis konar hafntengdri starfsemi eiga formlega aðild að samstarfsvettvangi Íslenska sjávarklasans. Fyrirtækjum og stofnunum af öllum stærðum og gerðum stendur til boða að gerast virkur þátttakandi í þessari starfsemi og taka þannig þátt í samstarfsvettvangnum og efla tengsl sín við önnur fyrirtæki og frumkvöðla. Þarna er vettvangur nýsköpunarfyrirtækja til að starfa í gegnum virkt eignarhald og ráðgjöf af ýmsu tagi. Því má bæta við að Íslenski sjávarklasinn rekur Hús Sjávarklasans þar sem yfir 40 fyrirtæki í hafntengdri starfsemi eru saman komin undir einu þaki.”

Togarar við bryggju í Reykjavíkurhöfn en ljóst er að bygging hafnarinnar átti stóran þátt í að togaraútgerð hófst að nýju hér á landi og varð stór atvinnuvegur.

Mikil breyting með tilkomu Faxaflóahafna

Við höfum dvalið nokkuð við fyrri tíð og það afrek sem hafnargerðin var á sínum tíma en hvernig líst Gísla á framtíðina. “Ég get ekkert annað en verið bjartsýnn. Það urðu mikil tímamót þegar Faxaflóahafnir urðu til. Krafa um betri nýtingu fjármuna ásamt meira skipulagi voru hvatinn á bak við sameininguna. Þetta skiptir miklu máli fyrir þróunina næstu áratugi. Ljóst var að ekki væri hægt að auka við starfssvæði Reykjavíkurhafnar nema þá með því að búa til landfyllingar er engar hugmyndir eru um að auka við þær. Af þeim sökum er nauðsynlegt að horfa á allt svæðið umhverfis sunnanverðan Faxflóann og gæta að því hvað gera megi til hagræðingar. Mikilvægt er að búa þannig í haginn að áfram verði byggt á því sem áður hefur verið gert. Það er líka nauðsynlegt að skipulagið sé gott.” Gísli segir mikið af verkefnum fram undan. “Siglingar um norðurhöf munu aukast hvort sem verður vegna sjávarútvegs eða vöruflutninga og við þurfum að vera undirbúnir undir vaxandi skipaumferð. Umhverfismálin eru líka mikilvæg. Það eru vaxandi hættur í hafnarrekstri með aukinni fjölbreytni og við erum að vinna að því að fá umhverfisvottun fyrir Faxaflóahafnir. Sú rafvæðing sem nú er að eiga sér stað í samgöngum mun ná til siglinganna að einhverju leyti. Allt útlit er fyrir að á næstu árum fari minni skip að sigla fyrir raforku en þau stærri verði látin ganga fyrir léttara eldsneyti það er fljótandi gasi. Nú er líka til umræðu að banna notkun svartolíu í Norðurhöfum.”

Framtíð olíubirgðastöðvarinnar getur ráðist af breyttri orkunotkun

Tal um bann við svartolíu og raf- og gasknúin skip leiðir hugann að olíubirgðastöðinni í Örfirisey. Starfsemi sem ýmsir vilja færa burt úr eynni. Geta það verðið raunhæfar hugmyndir í ljósi þeirrar þróunar sem nú er að hefjast eða hafin. Gísli segir að á einhverjum tímapunkti muni olíubirgðastöðin fara. “Ég tel enn ekki tímabært að tímasetja það. Það er bæði hagkvæmast og einnig mesta öryggið fólgið í að hafa hana sem næst markaðnum þannig að olíuflutningar verði sem minnstir á landi. Það liggur ekki fyrir hvar mætti finna henni stað við núverandi aðstæður en það staðarval yrði að ráðist af hagkvæmni og umhverfismálum. Það er en með vaxandi fjölda rafbíla og jafnvel breytingum á orkunotkun skipa geta aðstæður breyst nokkuð hatt. Nú fer næstum allt flugvélaeldsneyti um Helguvíkurhöfn sem er í næsta nágrenni við Keflavíkurflugvöll sem var mikil breyting. En ég tel að framtíð olíubirgðastöðvarinnar í Örfirisey muni að einhverju leyti ráðist af þeim breytingum sem verða á orkunotkun.”

Ganga verður um umhverfi hafnarinnar af varúð og virðingu

Gísli segir að lokum að koma verði góðu skipulagi á Vesturbugtina, Vesturbakkann og Mýrargötusvæðið. “Í því efni tel ég farsælast að taka eitt skref í einu og gæta þess að láta skipulagið virka. Gæta verður þess að byggja ekki íbúðarhúsnæði of nálægt þeirri atvinnustarfsemi sem þar fer fram. Við eigum eftir að sjá breytingar en það er grundvallar atriði að taka eitt skref í einu, fara hægt en láta þær virka. Gamla höfnin er einskonar stofustáss fyrir borgina. Einhvern tíma voru uppi hugmyndir um íbúðarhúsnæði eða blokkarbyggingu á Miðbakkanum. Af minni hálfu finnst mér það ekki koma til greina Höfnin þarf að hafa ákveðið andrými og ganga þarf um umhverfi hennar af varúð og virðingu.

You may also like...