Vona að hverfiskjarnarnir eigi eftir að rísa upp

Unnur og Karl með hvatningaverðlaunskjalið.

– segir Unnur Sigurðardóttir í Gamla Kaffihúsinu í Drafnarfelli –

„Við lögðum út í þetta með bjartsýnina að vopni en efuðumst þó aldrei um að það væri þörf fyrir svona stað í Efra Breiðholti. Þetta hefur stundum verið erfitt og kostað vinnu en aldrei hvarflað að okkur að gefast upp. Staðurinn hefur stöðugt verið að festa sig í sessi,“ segir Unnur Sigurðardóttir sem rekið hefur Gamla kaffihúsið við Drafnarfell í Breiðholti ásamt fjölskyldu sinni undanfarin þrjú ár. Unnur ólst að hluta upp í Efra Breiðholti í nágrenni við Drafnarfellið en einnig í öðrum byggðum Breiðholtsins og átti ár í Fellaskóla. Hún segist því hafa leitað á gamlar heimaslóðir þegar hún ákvað að opna kaffihúsið.

Unnur og Karl Stefánsson eiginmaður hennar voru engir nýgræðingar í veitingarekstri þegar þau opnuðu Gamla Kaffihúsið. Þau höfðu bæði fengist við veitingarekstur og tengda starfsemi um lengri tíma. Þau ráku meðal annars Vínhúsið sem áður var þekkt sem A. Hansen í Hafnarfirði um tíma en seldu rekstur þess fyrir nokkru. „Þetta var farið að vaxa hér í Drafnarfellinu og því að verða full mikið fyrir fjölskylduna en við sinnum þessu nánast alveg sjálf, ég, Kalli og börnin okkar. Nú erum við að gera það sem okkur þykir skemmtilegast. Að starfa á gólfinu innan um viðskiptavinina. Þetta var orðin of mikil skrifborðsvinna að vera með báða staðina. “

Kaþólskar nunnur og messur í Fellaskóla 

En að Breiðholtsæskunni. „Já, – ég er 10 ára þegar við fluttum í Eyjabakka þar sem við vorum í tvö ár,“ segir Unnur. „Þaðan fluttum við í Rjúpufellið þar sem við vorum í önnur tvö og síðan vorum við fjögur ár í Seljahverfinu. Þótt við færum yfir Breiðholtsbrautina þá rofnuðu ekki tengslin við Fellin. Ég man að krakkar úr Seljahverfinu fóru mikið yfir í Fellin og við sóttum margt þangað. Meðal annars fórum við oft hingað í þjónustukjarnann og svo stöku sinnum í Fellahelli sem var félagsmiðstöðin í hverfinu og nýjung i lífi krakkanna. Ég man líka að það bjuggu kaþólskar nunnur í Völvufellinu og þær voru með litla kapellu í kjallaranum hjá sér. Svo voru haldnar messur i Fellakskóla því þetta var áður en að Maríukirkjan var byggð. Það var breskur prestur með þeim og við tókum eftir því hversu alþýðlegur hann var. Hann var ekkert að hika við að koma út á milli fólks og spjalla við það. Var ekkert að bíða eftir að fólk kæmi til hans í messu. Gat hitt það á förnum vegi eða hvar sem var.“

Fyrsta vinnan á pítustað og svo í versluninni Tinnu í Fellunum

Unnur var komin á síðari hluta unglingsáranna þegar hún flutti úr Breiðholtinu. En hvernig sér hún gömlu heimabyggðina fyrir sér í dag. Er mikill munur á því frá þeim árum sem hún var að alast upp og þegar hún kom til þess að setja atvinnurekstur af stað. „Mér líkaði alltaf vel við Breiðholtið en vissulega er breytingin mikil. Í fyrsta lagi hefur gróður vaxið um allt hverfið. Ég man að þegar við krakkarnir vorum að labba úr Seljahverfinu yfir í Fellin þá var nánast enginn gróður annar en lúpína sem breiddi nokkuð úr sér. Ég byrjaði líka að vinna í Fellunum. Fyrsta vinnan mín var á pítustað sem bauð upp á grillmat og svo fór ég að vinna í sjoppunni í Eddufellinu. Vinna mín í Fellunum endaði síðan í fataversluninni Tinnu en hún var í eigu ömmusystur minnar. Hún ákvað síðan að opna aðra verslun niður á Laugavegi og ég fór að vinna þar.“ Unnur segir ólíkt hafa verið að vinna í Fellunum og í Miðbænum. „Það var allt mikið ópersónulegra á Laugaveginum. Fólkið var allt öðruvísi. Hér þekktu menn flesta og samskiptin í versluninni voru oft á persónulegum nótum. Fólk sem kom í versunina á Laugaveginum kom alls staðar að og ekkert frekar úr nærliggjandi götum. Það kom oft úr öðrum borgarhlutum og það mynduðust engin kynni. Ég þekki þetta líka úr veitingageiranum.” 

Hringdi í fastagestinn

Það myndast hópar fastakúnna sem koma aftur og aftur og tengsl verða til. Þetta hefur gerst hér eftir að við opnuðum Gamla Kaffihúsið. Sama fólkið fór að koma aftur og aftur og hefur haldið góða tryggð við okkur. Við erum með nokkra fastagesti sem koma hingað reglulega. Sumir daglega. Jafnvel alltaf á sama tíma. Ef þeir mæta ekki nokkra daga í röð hringjum við til þeirra. Heyrum í þeim hljóðið til að kanna hvort ekki sé allt í lagi. Ég man eftir einum sem alltaf kom minnst einu sinni í viku og þegar hann hafði ekki sést í tvær vikur hringdi ég í hann. Þá kom í ljós að hann hafði lent á spítala í nokkra daga. Ég þekki þetta líka úr Fjarðakaupum í Hafnarfirði þar sem við verslum mikið. Þar er sama fólkið búið að starfa árum saman og þekkir viðskiptavinina. Ég held að tengslin sem geta myndast hafi mikið að segja en það er allt of lítið af því í dag. Ég er viss um að tengsl af þessum toga gætu orðið hluti af endurreisn hverfiskjarnanna. Það var spennandi að sjá Breiðholtið byggjast upp á sínum tíma og nú þegar maður er aftur komin hingað með atvinnurekstur þá verður einnig áhugavert að sjá hvernig rætist úr þessum nýju hugmyndum. Hér var öflugur þjónustukjarni og fyrir skömmu var byggð ný blokk sem okkur sýnist vel heppnuð. Það hefur heyrst af fleiri hugmyndum um íbúðabyggingar. Hvort hugmyndir um háhýsi verða að veruleika er hins vegar spurning. Ég held að lægri byggð myndi falla betur að þessu umhverfi. Það eru leyfi fyrir því að byggja aðra hæð ofan á þjónustukjarnann þar sem við erum en skoðanir munu eitthvað skiptar um hvort það muni henta.“

Matarsmekkurinn hefur gjörbreyst 

Unnur hefur lengi fengist við veitingar. Finnst henni matarsmekkur fólks hafa breyst. „Já, hann hefur gjörbreyst. Ég hitti æskuvinkonu mína á dögunum og við vorum að rifja upp árin í Fellaskóla. Þá var enginn skólamatur og við fórum í sjoppuna hinu megin við götuna og fengum okkur franskbrauð og Kók í hádeginu. Þetta var ekki það hollasta sem við gátum borðað en svona var hugsunarhátturinn fyrir ekki lengri tíma. Fjölbreytni hefur aukist og einnig er lögð mun meiri áhersla á hollustu en áður var samanber dæmið um franskbrauðið og Kókið. Ég man eftir því að aðalmáltíðirnar voru soðin ýsa eða ýsa í raspi. Og svo lambalærið á sunnudögum eða sunnudagssteikin eins og hún var kölluð. Grænmeti sást varla á borðum fólks fyrir utan grænar baunir og rauðkál. Fólk fór sjaldan út að borða enda ekki um marga veitingastaði að ræða. Helst var farið út að borða við hátíðleg tækifæri. Fólk klæddi sig þá í sín bestu föt og fór í Grillið á Sögu eða á Hótel Holt eða Loftleiðir. Þessa fínni og dýru stað. Um annað var vart að ræða þótt skyndibitastaðir væri að koma upp. Matseðillinn sem við erum að búa til er mjög ólíkur því sem maður ólst upp sem krakki við eldhúsborðið heima.“

Vínmenningin hefur lagast mikið

„Vínmenningin hefur líka breyst og það til batnaðar. Þótt menn drekki sig en fulla þá er himin og haf á milli þess tíðaranda sem ég ólst upp við og þess sem er í dag. Áður fyrr drakk fólk áfengi einfaldlega til þess að finna áhrifin. Skipti oft litlu máli hverrar gerðar áfengið var eða hvað það hét. Fólk var lítið að gæða sér á góðum vínum með mat eða bjór til þess að kæla sig þegar heitt var enda var hann löngum bannvara á Íslandi. Það eina sem fólk fékk út oft úr áfengisdrykkju var að glata ráði og rænu og uppskera þynnku og timburmenn daginn eftir. Ég man eftir rúntinum og Hallærisplaninu svo nefnda þar sem unglingar komu saman til óhóflegrar drykkju. Sem betur fer hefur þetta breyst.“  

Vona að fólk sýni framtaki borgarinnar með þjónustukjarnana áhuga

„Breiðholt er bæði fallegt og vel skipulagt byggðahverfi. Þetta er orðið mjög gróið umhverfi,“ heldur Unnur áfram. „Á hinn bóginn er leiðinlegt hvernig þjónustukjarnarnir hafa grotnað niður. Bæði sá sem er hér og einnig í Bökkunum og Seljahverfinu. Þessi þróun hófst með tilkomu Kringlunnar og síðar Smáralindar. Mjóddin hefur eflaust einnig haft einhver áhrif þótt þar sé um minni verslanamiðstöð að ræða. Fólk fór að leita í þessar stóru verslanamiðstöðvar og starfsemin í litlu kjörnunum þreifst ekki. Það er skelfilegt að sjá niðurníðsluna þar. En við og eflaust margir fleiri binda miklar vonir við að kaup borgarinnar á húsnæði á þessum stöðum og að endurskipulagning nái að snúa þessari þróun við. Þetta er svo ný til komið að fólk er ef til vill ekki farið að átta sig á þessu. Hugmynda- og skipulagsvinna á einnig eftir að fara fram af hálfu borgarinnar. Ég ætla rétt að vona að fólk komi, sýni þessu framtaki borgarstjórnar áhuga og verði tilbúið að þróa starfsemi á þessum stöðum.” Unnur segist hafa orðið vör við áhuga fólks á að fá aftur verslunarstarfsemi í hverfiskjarnana. „Ég heyri þetta hér í mínu starfsumhverfi. Ég held að hugsunarhátturinn sé að breytast og þá einkum hjá yngra fólki. Fólk horfir meira til þess að geta nálgast daglegar lífsnauðsynjar í nálægð og jafnvel göngufæri við heimili sín og svo er alltaf spurning um hvað fleira geti þrifist. Nú er vaxin upp kynslóð sem vill hafa staði til þess að geta hist í nágrenni við heimili sín. Ég er ekki síst að höfða til þessa unga og kraftmikla fólks sem alist hefur upp í Breiðholtinu. Ég held að það geti komið með fullt af hugmyndum sem við sem eldri erum höfum ekki hugarflug til þess að móta. Það er margt ungt og kraftmikið fólk sem hefur alist upp í Fellunum og ég er viss um að það verða einhverjir til þess að hoppa á möguleika sem kunna að opnast eftir þetta framtak borgarinnar. En það er auðvitað alltaf spurning um hvað eigi að gera, hvað nái til fólks og hvað getur verið sjálfbært og rekið sig.“

Viðburðir í Nýló og Asparfellinu

Unnur nefnir Nýlistasafnið sem um tíma var með starfsemi í bakhúsi við Drafnarfellið og hefur enn aðstöðu í hluta þess. „Það var mikil tilbreyting að fá Nýló hingað í hverfiskjarnann. Líf fylgt safninu og fólk var að koma og fara. Ljósmyndasýning Spessa sem var haldin var í tenglum við Listahátíð vakti mikla athygli og síðan er búin að vera sýning hér í Gamla Kaffihúsinu í sumar þar sem ung stúlka fjallaði á myndrænan hátt um hvernig hún upplifir Breiðholt. Þetta var skemmtilega gert hjá henni. Hún nefnir sýninguna „Ég elska Breiðholt“ sem var byggð upp sem sería af veggspjöldum prýddum hinum ýmsu kennileitum í Breiðholtinu. Markmið þeirra með sýningunni var að draga fram það fallega og jákvæði í Breiðholti. Svo má minnast á annað sem gert var í tilefni Listahátíðar. Það var fólkið í Asparfellinu bauð heim. Opnaði heimili sín fyrir gestum og gangandi og efndi til ýmissa viðburða í tilefni dagsins. Bauð fram veitingar og fékk jafnvel tónlistarfólk til þess að koma og spila. Þá kom líka ung stúlka til þess að var með DJ hér hjá okkur. Spila tónlist fyrir fólk. Þetta var hluti af Listahátíð.“

Ánægjulegt að fá hvatningarverðlaunin 

Gamla Kaffihúsið hlaut hvatningarverðlaun hverfisráðs Breiðholts fyrir skömmu. Unnur segir ánægjulegt að fá slíka viðurkenningu. Þetta sé raunveruleg hvatning til þess að halda áfram og gera betur. En er Gamla Kaffihúsið fyrst og fremst kaffihús eða fremur alhliða veitingastaður. „Eiginlega bæði. Við reynum að blanda þessu saman eftir bestu getu. Fólk getur komið hingað, fengið sér kaffisopa og spjallað saman. Við erum með smárétti og stærri máltíðir. Fólk getur komið í kaffi eða fengið sé að borða allt eftir í hvernig skapi það er þann daginn. Svo megum við ekki gleyma kaffihlaðborðinu á sunnudögum. Þetta er ekta rjóma og majonesveisla. Þá bjóðum við upp á brauðtertur og rjómatertur að gömlum sið. Þetta hefur vakið áhuga hjá mörgum enda sunnudagar þeir dagar í lífi fólks sem það getur haft lítið fyrir stafni og notið dagsins. Við lítum björtum augum fram á veginn og viljum nota tækifærið til þess að þakka Breiðhyltingum og öðrum fyrir hversu vel þeir hafa tekið okkur.“ Að lokum ber að þakka frábæran bolla af súkkulaði sem ein af dætrum Unnar framreiddi. Betra getur það ekki orðið með sunnudagshlaðborðinu.

You may also like...