Virðulegir borgarar, strákapör og misskipting

— Út er komin hjá Skruddu bókin Lífið í lit. Um er að ræða nýstárlega bók þar sem segir frá miklum átökum að tjaldabaki í íslensku viðskiptalífi. Bókin er einnig fjölskyldusaga Helga Magnússonar. Saga af mikilli velgengni afa hans og alnafna í viðskiptum. Í bókinni lýsir Helgi uppvexti sínum á Melunum í Reykjavík á eftirstríðsárunum. Vesturbæjarblaðið birtir kafla úr bókinni. —

Helgi Magnússon .

Foreldrar mínir keyptu hús á Grenimel 20, tilbúið undir tréverk, rétt eftir stríð ásamt gömlum skólabróður pabba úr Verslunarskólanum, Ewald Berndsen og Jóhönnu Baldvinsdóttur, konu hans. Þeir félagar unnu að smíði hússins allar helgar og öll kvöld eins og þá var algengt og drógu svo um hvor fjölskyldan yrði á hvorri hæð. Foreldrar mínir lentu á neðri hæðinni. Í risinu var íbúð sem var leigð út og í kjallaranum bjó svo fjórða fjölskyldan. Í kjallaranum var líka stúlkuherbergi svokallað, en fyrstu árin bjó þar vinnukona sem aðstoðaði móður mína við heimilishaldið. Foreldrar mínir fluttu inn í sína íbúð í árslok 1947 þegar þau giftu sig og þarna á Grenimel 20 fæddist ég hinn 14. janúar 1949.

Hverfið er allt að byggjast upp á þessum árum. Fólkið sem þarna settist að var almennt ágætlega sett og tiltölulega ungt, milli þrítugs og fertugs og við götuna bjuggu margir sem voru í viðskiptum, iðnrekendur, kaupmenn, heildsalar og fleiri slíkir. Í næsta húsi við okkur var maður sem hét Sverrir Sigurðsson iðnrekandi í Sjóklæðagerðinni. Hann var mikill listaverkasafnari, en þau hjónin fluttu síðar út á Seltjarnarnes og gáfu bænum listaverkasafn sitt en áður höfðu þau stofnað Listasafn Háskóla Íslands með myndarlegri málverka- og peningagjöf til skólans. Oft komu listmálarar heim til þeirra í hádeginu eins og Þorvaldur Skúlason og Svavar Guðnason svo einhverjir séu nefndir. Þau hjón voru reyndar sérstakir velgjörðarmenn Þorvaldar og stærsti hluti málverkasafnsins sem kom í hlut Háskólans voru verk eftir hann. Á hæðinni fyrir ofan þau var fólk sem tengdist Þjóðleikhúsinu og iðulega með danska ballettdansara hjá sér sem voru að vinna við leikhúsið. Beint á móti okkur bjó heildsali, Tómas Pétursson. Synir hans, Ragnar Tómasson lögfræðingur og Gunnar Tómasson hagfræðingur, eru kunnir menn í samtímanum. Aðeins vestan við okkur bjó Gunnar Eggertsson, sonur Eggerts Kristjánssonar heildsala. Aron Guðbrandsson í Kauphöllinni var vestar. Oddur Jónsson, forstjóri Mjólkurfélags Reykjavíkur, var þarna líka á næsta leiti, svo nokkrir séu nefndir. Oddur er móðurafi Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra Marels, sem kemur hér síðar við sögu, en Marta móðir hans ólst upp á Grenimel. 

Helgi Magnússon á bernskuárum sínum heima á Grenimel 20.

Sundkappa bjargað frá drukknun

Í kjallaranum bjó ágæt kona sem hafði keypt þá íbúð af pabba. Hún hét Ásta Jónsdóttir og var skrifstofukona hjá O. Johnson & Kaaber. Með henni bjó sonur hennar, Logi Jónsson. Svo vildi til að Ásta var vinkona Ingibjargar, systur pabba. Síðan líða árin og einn af vinum mínum sem ég kynnist í Verslunarskólanum er Magnús Hreggviðsson. Þá kemur á daginn að Logi sonur Ástu er sonur Jóns Magnússonar sem var móðurbróðir Magnúsar. Logi er ári eldri en ég, mikill öndvegismaður, hámenntaður líffræðingur og hefur kennt við Háskólann. Einhvern tímann kenndi hann konunni minni þegar hún lærði hjúkrunarfræði. 

Logi var mikið hraustmenni. Ef kalt var í veðri voru krakkar eðlilega sendir dúðaðir út en Loga nægði að vera á einni skyrtu. Þegar ég fór að hitta hann síðar í boðum hjá Magnúsi Hreggviðssyni, frænda hans, þá rifjaði hann upp sögu sem ég var búinn að gleyma. Hún var á þá leið að þegar við vorum þarna sem krakkar var mikið byggt í nágrenninu, til dæmis voru framkvæmdir að hefjast við Bændahöllina – Hótel Sögu. Gríðarstór grunnur hafði verið grafinn að höllinni og ekkert varinn, eins og skylt er núna. Um tíma fylltist grunnurinn af vatni. Krakkar úr nágrenninu fóru að smíða sér pramma til að sigla á þessari tjörn og auðvitað vorum við með okkar pramma þarna nokkrir strákar af Grenimelnum. Logi minntist þess að ég hefði þarna eitt sinn bjargað lífi hans. Þá hefði hann hvolft prammanum úti á tjörninni og einhverjir voru á þurru landi, þar á meðal ég, sem drösluðu honum „á land“. Ég mundi nú ekkert eftir þessu en það skemmtilega er að Logi átti eftir að verða einn af okkur fremstu keppnismönnum í sundi um tíma.

Foreldrar Helga Magnússonar Magnús Helgason og Katrín Sigurðardóttir.

„Skafarinn er á Reynimel“

Virðulegir borgarar, strákapör og misskiptingMelarnir voru alveg nýtt hverfi á þessum árum. Allar götur ómalbikaðar og því oft drullusvað. Malbikið tók ekki við fyrr en komið var upp á Hringbraut og því reyndist fólki oft nauðsynlegt að hafa klút í vasanum til að þurrka óhreinindin af skónum þegar komið var á malbikið, en á þeim árum lögðu bæjarbúar sig mjög fram um að vera snyrtilegir til fara. 

Foreldrar mínir fóru allra sinna ferða fótgangandi, en fljótlega eignuðust þau lítinn Fiat. Þrátt fyrir það gekk faðir minn áfram í vinnuna niður í Hafnarstræti, þar sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri í fyrirtæki föður síns. Honum þótti þetta hressandi ganga. Ég sé hann ljóslifandi fyrir mér í jakkafötum með vesti, hatt á höfði og í skóhlífum á leið til og frá vinnu. Í vestisvasanum geymdi hann vasaúr sem fest var við langa gullkeðju. Þessi lýsing gæti allt eins átt við um Helga afa minn, eins og ég man hann, en þeir feðgar voru um margt líkir og mjög samrýmdir. Svona virðulegir menn eru sjaldséðir nú á dögum. Hann kom alltaf heim í mat klukkan tólf og var mættur aftur til vinnu upp úr hádeginu. Þennan hátt höfðu landsmenn á, hvar í sveit sem þeir voru settir og þess vegna voru hádegisfréttir Útvarpsins sagðar kl. 12:20 til þess að tryggt væri að allir væru komnir til síns heima þegar þær hófust. 

Það var ógleymanlegt að alast upp á Melunum og sérstaklega er ríkt í minningunni þegar „skafarinn“ mætti, sem núna er kallaður veghefill. Kannski kom einhver krakki hlaupandi og kallaði: „Skafarinn er á Reynimel“ Þá þusti öll hersingin þangað og stundum fór allur morgunninn í að elta skafarann. Síðan kom kannski „sprautubíllinn“ til að binda rykið og ekki varð þá minni fögnuður hjá börnunum og öll strollan fylgdi á eftir bílnum. Það urðu því mikil viðbrigði þegar Melarnir voru malbikaðir á ofanverðum sjötta áratugnum en sú vinna tók óhemju langan tíma. Þarna voru flokkar manna á sumrin að raða hellum og rennusteinum og krakkaskarinn hékk yfir þeim. Hverfið lyftist allt upp þegar búið var að malbika, þetta varð algjör bylting. En þá tók sóparinn við og skemmti börnunum.

Viggó bróðir pabba og ég fyrir utan Grenimel 20.

Hús foreldra minna, Grenimelur 20, er fyrir miðri götu á milli Hofsvallagötu og Furumels. Þegar komið var vestur fyrir Hofsvallagötu mátti finna braggahverfið Camp Knox sem teygði sig yfir svæðið sem núna er vestasti hlutinn af Grenimel, Reynimel og Hagamel. Þetta var eitt stærsta braggahverfi bæjarins en fór að minnka þegar ég var um 10 ára aldurinn og þá kom Melabúðin, alveg í kantinum á braggabyggðinni. Margir bjuggu líka í stórum íbúðabragga við Hjarðarhaga á þessum tíma. 

Mikið hefur verið fjallað um braggahverfin í fræðibókum og skáldverkum, en allir sem lifðu þessa tíma muna hvers konar ófremdarástand var í húsnæðismálum í bænum þegar fólkið streymdi í þúsundavís á mölina. Í braggahverfin safnaðist saman fólk sem margt átti í basli. Innan um voru auðvitað vandræðagrey, en mestmegnis var þetta fólk sem bjó við lítil efni og átti einskis annars úrkosta til að koma þaki yfir höfuðið. Þjóðfélagið stimplaði því miður þetta fólk og setti það skör lægra en samborgarana. Við krakkarnir vorum hræddir við krakkana úr braggahverfinu og ekki hvarflaði að manni að fara inn á þeirra yfirráðasvæði. Það lék sér enginn að því. 

Margir þessara krakka voru samtíða mér í Melaskóla og Hagaskóla. Þau nutu ekki sanngirni í skólanum og voru hálfpartinn dæmd til útskúfunar, til dæmis í hina svonefndu tossabekki. Þeir fengu því ekki sömu tækifæri og aðrir krakkar. Það svíður að hugsa til baka og minnast þessara samferðamanna sem var frá byrjun skákað út af borðinu ef svo má að orði komast. Maður áttaði sig ekki á hver meðferðin var á þessum krökkum og skildi ekki hvað líf þeirra var erfitt fyrr en löngu síðar þegar fólk fór að tjá sig um æskuárin í bröggunum í sjálfsævisögum og endurminningaritum.

Úr afmæli mínu á Grenimel 20 en ég sný baki í myndavélina.

Milli barnanna á Melunum og Camparanna voru stundum háðar orrustur yfir Hofsvallagötuna og fleiri hverfi og hverfa hlutar áttust við í bardögum. Strákar smíðuðu sér sverð og skildi fyrir þessar viður eignir. Friðrik Þór Friðriksson gerði þessum liðsafnaði ungra drengja og unglinga skil með eftirminnilegum hætti í kvikmynd sinni Bíódagar. Mæður reyndu mikið að fá syni sína ofan af þessu, því stundum urðu talsverð átök. Einhvern tímann varð mikill liðsafnaður á Melunum þar sem þeir Baldvin Berndsen, Sigurður Stefánsson og Óli Kr. Sigurðsson, sem síðar varð Óli í Olís, höfðu forystu. Þessir þrír voru fremstir í flokki, svo yngdist fylkingin eftir því sem aftar dró og við þeir yngstu alveg aftast og fljótastir að forða okkur ef illa gekk. 

Ég rifjaði upp þessi átök með Sigurði Helgasyni yngri, síðar forstjóra Flugleiða og stjórnarformanni Icelandair, fyrir nokkrum árum, en hann bjó á Hagamelnum. Sigurður er nokkrum árum eldri en ég, en kvaðst hafa haldið sig engu að síður aftarlega í fylkingunni með okkur yngri strákunum. – Sigurður alltaf varkár eins og fram kom í verkum hans síðar á ævinni. En vettvangur átaka var ekki eingöngu yfir Hofsvallagötuna því það var einnig barist á milli gatna á Melunum. Hagamelur átti sína foringja sem oft sóttu fylktu liði inn á yfirráðasvæði okkar á Grenimel og fóru ránshendi um lendur okkar og eigur. Slíku var að sjálfsögðu svarað eins fljótt og auðið var – ekkert gefið eftir á báða bóga. 

Það var í raun merkilegt frjálsræðið sem börn höfðu til leikja á þessum tímum og léku í raun lausum hala í hverfinu og langt út fyrir það heilu og hálfu dagana án þess að foreldrarnir væru með nefið ofan í þeirra lífi. Kaffi- og matmálstímar voru jafnframt hluti af daglegri tilkynningarskyldu barna en ef úr féll eitt og eitt skipti þar sem maður skilaði sér ekki heim á þessum tímum þá var litið framhjá því – um síðir náðu allir til síns heima.

You may also like...