Seltjarnarnesbær gerist Heilsueflandi samfélag

Alma D. Möller landlæknir og Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri við undirritunina.

Seltjarnarnesbær varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi í lok október sl. þegar að Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og Alma D. Möller landlæknir undirrituðu samning þess efnis í húsnæði Vivaldi vallarins á Seltjarnarnesi.

Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum.

Með Seltjarnarnesbæ eru 23 sveitarfélög aðilar að Heilsueflandi samfélagi og skuldbinda sig þannig til að efla heilsu og vellíðan íbúa sinna með markvissum hætti. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög einnig að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Nú er unnið að því með fulltrúa landlæknisembættisins að útfæra betur hvernig Seltjarnarnesbær getur best uppfyllt markmiðin og verður það kynnt sérstaklega fyrir íbúum.

You may also like...