Árni Heimir bæjarlistamaður

Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2020, Árni Heimir Ingólfsson tónlistarmaður og tónlistarfræðingur ásamt Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra og Guðrúnu Jónsdóttur formanni menningarnefndar Seltjarnarnesbæjar.

Árni Heimir Ingólfsson tónlistarmaður og tónlistarfræðingur var útnefndur Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2020 við hátíðlega athöfn í Bókasafni Seltjarnarness í gær þriðjudaginn 28. janúar. Þetta er í 24. sinn sem bæjarlistamaður er heiðraður.

Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur er fæddur árið 1973. Árni Heimir er með BM-próf í píanóleik og tónlistarsögu frá Oberlin-tónlistarháskólanum í Ohio og doktorsgráðu í tónlistarfræði frá Harvardháskóla. Hann hefur kennt við Listaháskóla Íslands, verið tónlistarstjóri og listrænn ráðgjafi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og kynnt íslenska tónlistarsögu víða um heim. Hann hefur sinnt rannsóknum á íslenskri tónlistarsögu frá miðöldum fram á 20. öldina. Þær hafa getið af sér fjölda greina og fyrirlestra, en einnig bækur og geislaplötur sem hlotið hafa tilnefningar og verðlaun. Bók Árna Heimis Jón Leifs – Líf í tónum var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita 2009 og Saga tónlistarinnar – Tónlist á Vesturlöndum frá miðöldum til nútímans hlaut sömu tilnefningu 2016. Geisladiskarnir Melódía frá 2007 og Hymnodia sacra frá 2010 með tónlist úr íslenskum nótnahandritum fyrri alda hlutu báðir Íslensku tónlistarverðlaunin í flokki sígildrar tónlistar.

You may also like...