Verkamannabústaðirnir voru byggðir af mikilli framsýni og hafa elst vel

Þrjár systur úr verkamannabústöðunum. Kristín, Stella og Systa.

Systurnar Kristín og Ingveldur (Stella) Róbertsdætur eru aldar upp í Verkamannabústöðunum og búa þar báðar í dag. Kristín er formaður Húsfélags alþýðu. Foreldrar þeirra Ingveldur Einarsdóttir og Róbert F. Gestsson eignuðust íbúð í Verkó og fluttu með dætur sínar þrjár 1963 þegar þær voru þriggja, sjö og níu ára gamlar. Þær þekkja því báðar sögu húsanna og ekki síður mannlífið þar frá bernsku til fullorðins- ára. Þær settust niður með Vesturbæjarblaðinu á dögunum og litu til baka. 

„Við erum grónir Vesturbæingar. Fluttum hingað í byrjun árs 1963, þegar foreldrar okkar sóttu um að kaupa íbúð á Hringbraut 80. Tvær föðursystur okkar áttu einnig íbúðir í Verkamannabústöðunum en mis lengi. Á þeim tíma þurfti fólk að vera félagar í Byggingafélagi alþýðu til þess að fá íbúð og úthlutunin byggðist á félagsnúmerum þannig að sá sem var með lægsta númerið fékk úthlutað. Þegar flutt var í fyrsta áfanga verkamannabústaðanna 1932 keyptu afi okkar og amma íbúð á Ásvallagötu 63 og þar býr Stella, segir Kristín“ „Áður en við fluttum á Hringbrautina áttum við heima í Smáíbúðahverfinu sem þá var nýlegt en faðir okkar kunni ekki við sig þar enda alinn upp hér í Verkó. Honum fannst hann kominn út í sveit þegar tók að nálgast Sogalækinn,“ segir Ingveldur (Stella). 

Kristín og Auður Róberta Gunnarsdóttir sem átti heima á Hringbraut 76 að koma úr afmæli á Hringbraut 82.

Fyrstu hugmyndirnar þóttu ekki nógu hentugar

Þær systur rifja upp söguna að baki þessum íbúðabyggingum. Kristín tekur upp fundargerð aðalfundar í Byggingafélagi verkamanna frá 18. febrúar árið 1931. “Á þeim fundi sagði Héðinn Valdimarsson formaður félagsins frá starfi stjórnar á umliðnum tíma og frá stofnfundi. Hann sýndi teikningar sem lágu fyrir fundinum og áttu að gilda sem fyrirmyndaruppdrættir af hinum hugsuðu byggingum. Formaðurinn lagði sig mjög fram um að mæla með uppdrættinum og lýsa því á allan hátt hve heppilegar byggingar þetta mundu reynast. En fljótt heyrðist á fundarmönnum að þeir voru óánægðir og litu mjög á annan veg á það mál. Kristín Stefánsdóttir talaði nokkur orð og vítti mjög allan frágang á þessum teikningum og kvaðst ekki mundi kaupa slíkar íbúðir nema gerðar yrðu á þeim ýmsar breytingar, svo sem á eldhúsi sem væri of lítið, vaskhús vantaði og þurrkloft, sem væri þó ómissandi. Auðheyrt var að fundurinn var samþykkur þessu og flestum þar inni fundust að lítil þægindi væru þarna á boðstólum og margur hugsaði til þess að lítt hafi nefndinni tekist á þessu sviði. Ef ekki væri annað að bjóða en raun bar vitni. Þá talaði Erlendur Vilhjálmsson skörulega og mælti á þá leið að þetta væru óhæfar teikningar. Þótt þær væru snotrar á að líta væri óhugsandi að nokkur vildi eiga þau hús sem byggð væru eftir þeim. Hann sagði enn fremur að þeir feðgar myndu alls ekki nota þær. Umræðum var slitið á miðnætti enda flestir þreyttir á því máli sem engin ráðning fékkst á. Var svo borin upp tillaga frá formanni nefndarinnar Héðni Valdimarssyni þess efnis að fundurinn frestaði að ræða þetta meir, fæli stjórn félagsins að fá nauðsynlegar breytingar á þessum uppdrætti og um leið að rannsaka hverjir gætu keypt húsin ef af byggingum yrði og hve mikla upphæð þeir treystu sér til að hafa handbæra.“ 

Á þessari mynd sést vel hvernig Verkamannabústaðirnir við Hringbraut eru byggðir í ferhyrning sem myndar umgjörð um stóran garð.

Konur fengu teikningunum breytt

Kristín segir að næsti fundur um mál þetta hafi verið haldinn í júní þar sem um 200 manns hafi verið á fundi. Héðinn Valdimarsson setti þann fund og gaf Einari Erlendssyni húsameistara orðið sem lagði fram fyrirmyndarteikningar af hinum fyrirhuguðu verkamannabústöðum og skýrði fyrir fundinum allt þeim viðvíkjandi. Fljótt heyrðist á mönnum að þeir voru ánægðir með þetta fyrirkomulag á byggingunum. „Það voru konur sem fengu þessum fyrstu teikningum breytt. Konur með stóra barnahópa sem þekktu vel hverjar þarfir heimilisins voru. Þarna var nýlunda að íbúðir fyrir alþýðufólk væru með þeim nútíma þægindum sem hér voru t.d. að hafa baðkar og þvottahús. Þau voru ekki einu sinni í híbýlum þeirra efnameiri. Eftir þessum endurbættu teikningum Einars Erlendssonar var fyrsti áfangi verkamannabústaðanna reistur. Í þessum fyrsta áfanga var meira um skraut, en í hinum síðari varð á vissan hátt einfaldleikinn meira ríkjandi. Guðjón Samúelsson teiknaði annan áfanga sem lokaði portinu eða hringnum og þar snúa stofurnar mót sól og í þriðja áfanganum sem Gunnlaugur Halldórsson teiknaði voru blokkirnar sjálfstæðar einingar og stofan sneri í sólarátt.” 

Ingveldur Einarsdóttir með tveimur dætra sinna, Systu og Stellu.

Mogginn og Þjóðviljinn og skipst á blöðum

Árið 1937 bjuggu um 1200 manns í bústöðunum sem var næstum sami íbúafjöldi og byggði Neskaupstað á sama tíma. „Þetta var svona hálfgerð önnur „Litla Moskva“ en þó skiptust menn talsvert eftir pólitík. Vinstri menn voru fjölmennastir en það var líka talsvert af hægri sinnuðu fólki. Heima var keyptur Þjóðviljinn en nágranni okkar keypti Moggann og svo var skipst á blöðum. Fólk vildi fylgjast með. Á okkar uppvaxtartíma var íbúum þó farið að fækka. Í upphafi voru fjölskyldurnar fjölmennari, jafnvel fimm til sex krakkar í hverri. Í næsta stigagangi þar sem Guðmundur J. Guðmundsson eða Guðmundur Jaki eins og hann var oft kallaður, átti heima. voru 10 til 20 krakkar  Svo fækkaði krökkunum, fólkið eltist og börnin uxu upp.

Litlar verslanir um allt 

Hér var öll þjónusta til staðar. Hér var lestrarsalur þar sem Taflfélag alþýðu hafði m.a. aðsetur, fiskbúð, kjötbúð, nýlenduvöruverslun, brauð- og mjólkurbúð eins og var á þeim dögum þegar mjólkurvörur voru aðeins seldar í sérverslunum Samsölunnar því kaupmenn fengu ekki að selja mjólk í verslunum sínum. Margir kunnu að kveða og pabbi sagði okkur frá því að þegar hann var að alast upp á fyrstu árum bústaðanna hafi mátt heyra óminn af kveðskapnum út í portið. 

Krakkarnir úr verkamannabústöðunum gengu í Melaskóla. Hér er bekkjarmynd úr 12 ára bekk í Melaskóla.

Börn frumbyggja urðu félagsmenn

Það var algengt að börn frumbyggja yrðu félagsmenn og eignuðust íbúðir. „Þegar við vorum litlar átti Steini fisksali, faðir Víglundar sem lengi var kenndur við BM Vallá og féll frá nú um daginn íbúð á Hofsvallagötunni og rak fiskbúð hér ofar í götunni og systir hans bjó á Hringbrautinni. Við vorum oft sendar út í búð eftir einhverju sem vantaði, t.d. í mjólkurbúðina eftir pundi af skyri eða pela af rjóma, til Steina í fiskbúðinni eftir ýsu sem hann pakkaði inn í dagblað með öruggum hreyfingum, eða kjötfarsi í kjötborðinu hjá Lauja eða Guðlaugi.  Við fórum til Möggu í Möggubúð og fengum hjá henni vínarbrauðsenda en þeir voru auðvitað eftirsóttir hjá öllum krökkum og ekki alltaf til, stundum eignuðumst við pening og keyptum fánakúlur hjá henni. Þær systur Kristín og Stella segja að skemmtilegt hafi verið að alast upp á Hringbrautinni.

Þetta var góður hópur

“Þetta var góður hópur hér í Verkó. Hann var mátulega stór og portið var okkar staður. Við höfðum ekki mikinn samgang við krakka utan húsanna hér. Við fórum ekki mikið og það var heldur ekki mikið um að aðrir krakkar kæmu inn í portið. Við þekktum til dæmis lítið til krakkanna sem bjuggu hinum megin við Hofsvallagötuna eða Hringbraut, ég átti samt vinkonu sem bjó ská á móti okkur hinum megin við Hringbrautina,“ segir Kristín. „Við þurftum eiginlega ekki að leita út fyrir portið.“ 

Skemmtilegast að vera bókasafnskonan

Við krakkarnir lékum okkur úti í ýmsum leikjum. Það var nauðsynlegt að eiga bolta, enda voru boltaleikirnir vinsælir, eins og brennó, kíló, sto og fleiri. Svo voru hér leiktæki og sandkassar þar sem hægt var að fara í gluggaleik. Þá teiknaði einn upp einhvern glugga í sandinn og hinir áttu að finna út hvaða gluggi þetta var. Við fórum reglulega á bókasafnið og þegar ekki var hundi út sigandi og við urðum að vera inni lékum við systurnar okkur í bókasafnsleik, skemmtilegast var að vera “bókasafnskonan” og stimpla í bækur eins og gert var á bókasafninu.

Jólatré frá 1955

Af því nú eru að koma jól er gaman að rifja upp að fyrsta jólatréð var sett upp í portinu 1955. Þegar við vorum litlar var krökkunum í portinu boðið á skrifstofu félagsins sem var á Bræðraborgarstíg 47. Þar fengum við ilmandi, rauð og falleg epli og appelsín í flösku og vorum minnt á að passa upp á að perurnar á jólatrénu yrðu ekki fyrir skemmdum. Síðan þá hefur jólatré verið sett upp í portinu börnum og fullorðnum til yndisauka.“ 

Sameiginleg upphitun var nýjung  

Sameiginleg upphitun var í verkamannabústöðunum sem var óvenjulegt á þessum tíma. „Þarna var ákveðin framsýni á ferð. Þetta var fyrir daga hitaveitunnar og í stað þess að kolaofn væri í hverri íbúð var höfð sameiginleg upphitun. Það var þó ekki hitað stöðugt. Minna á sumrin og svo var ekki kynt á nóttunni. Í kyndiklefunum voru stórir kolaofnar þar sem vatnið var hitað og á morgnana fóru kyndarar niður í klefana og mokuðu í ofnana til þess að ná hitanum upp. Kyndiklefarnir og þessi sameiginlega upphitun er ástæðan fyrir stóru strompunum sem eru á byggingunni. Það er rétt – þessar byggingar voru langt á undan sinni samtíð. Í verkamannabústöðunum var heitt og kalt rennandi vatn, klósett í hverri íbúð og baðkar. Vinir og vandamenn komu utan úr bæ til að fara í bað. Í eldhúsi var bæði rafmagnseldavél og gas, vaskahús og þurrkherbergi í hverjum kjallara.  Auðvitað voru þetta tímamótabyggingar!

Fyrsta byggingarsamvinnufélagið

Og þetta var líklega fyrsta byggingarsamvinnufélagið sem stofnað var, Byggingafélag verkamanna og síðar Byggingafélag alþýðu. Fyrsti formaður félagsins var Héðinn Valdimarsson sem einnig var formaður Dagsbrúnar eins t.d. Sigurður Guðnason, Hannes  Stephensen og Guðmundur J. Guðmundsson sem bjuggu í verkamannabústöðunum.“ 

Lúxus að búa hér 

„Íbúasamsetningin hefur breyst talsvert á umliðnum árum. “Mín íbúð er með þeim fyrstu sem var seld á frjálsum markaði,“ segir Kristín. „Það var lúxus að búa hér á árum áður og mér finnst þessi lúxus hafa um margt haldist. Alla vega í okkar augum sem eigum rætur hér.” 

Mætti endurvinna þessar teikningar og byggja 

„Ég veit að mörgum fannst verkamannabústaðirnir vera gráar og einsleitar byggingar,“ heldur Kristín áfram. „Engu að síður er hver bygging gerð með sínum hætti. Þær eru ekki eins, mismunandi áherslur eru í þessum húsum enda húsin byggð í þremur áföngum eftir teikningum þriggja arkitekta sem taka upp nýjungar utan úr heimi. Ég hef velt fyrir mér hvort ekki mætti endurgera þessar gömlu teikningar og nýta þær aftur og byggja eftir þeim þar sem nú er vaxandi þörf á minni íbúðum. Það má aðlaga þær breyttum tíma því kröfur eru aðrar í dag. Þegar við vorum litlar gerðum við okkur ekki grein fyrir því að við byggjum eitthvað þröngt, við sváfum þrjár saman í einu herbergi það var eðlilegt og á kvöldin sátum við saman í stofunni og hlustuðum á útvarpið og prjónuðum, saumuðum eða teiknuðum á meðan.”

Hér erum við nokkrar stelpur í portinu að búa til skautasvell 1967.

Garðurinn og lifnaðarhættir hafa breyst  

Eitt hefur t.d. breyst en það eru garðarnir sem eru upp við húsin. “Þegar við vorum litlar hékk þvottur til þerris í öllum görðum  Mikið var um rabarbara og rifs og fólki var annt um að hafa garðana fína. Garðurinn var ekki sama framlenging af íbúðunum eins og í dag. Grillmenningin var ekki komin í árdaga Verkamannabústaðanna.” 

Íbúarnir voru hluti af heild

Þrír afkomendur afa og ömmu Kristínar og Stellu eru búsettar í verkamannabústöðunum. Kristín sjálf og Stella sem bjó um tíma annars staðar en kom aftur og ein til. „Fólk þekktist betur hér áður, mikið var um skyldmenni, krakkarnir voru fleiri og samkenndin önnur. Íbúarnir voru meira hluti af heild. voru saman í félagi og eignuðust íbúðir sínar á sömu forsendum. Engu að síður er nú um gott samfélag að ræða þótt það sé aðeins á öðrum nótum.

Friðlýstir 2011

Verkamannabústaðirnir voru friðlýstir 2011, ytra byrði og garðveggir ásamt leikvallarskýlinu á Héðinsvelli. „Verkamannabústaðirnir hafa fengið styrki bæði frá Húsafriðunarsjóði og Húsverndarsjóði Reykjavíkurborgar til ýmissa verkefna m.a. að endurnýja ónýta steinsteypta kjallaraglugga sem eru hér í fyrsta áfanga bústaðanna og að endurreisa garðveggina sem stóðu framan við húsin milli Hofsvallagötu og Bræðraborgarstígs. 

Byggt af framsýni og hafa elst vel

„Verkamannabústaðirnir eru menningarverðmæti sem við verðum að hugsa um og bera virðingu fyrir,“ segja þær systur Kristín og Stella. „Hér var vandað til verka strax í upphafi. Pólarnir, sem höfðu áður verið byggðir fyrir fátækt fólk voru með allt öðrum hætti. Munurinn var gríðarlegur. Þeir voru bara hreysi. Alþýðufólk vildi fá almennilegt húsnæði. Verkamenn skyldu fá góð hús. Þessi byggðakjarni hefur elst vel og í dag er hann dæmi um mikla framsýni á erfiðum tímum,“ segja Kristín og Stella. 

 

You may also like...