Ákveðinn í að halda áfram á þessari braut

– segir Þrándur Þórarinsson myndlistarmaður –

Þrándur Þórarinsson. Til hægri er mynd af málverki hans af börnum og skreið.

Þrándur Þórarinsson myndlistarmaður stóð við trönurnar með pensil í hönd þegar tíðindamaður Vesturbæjarblaðsins leit til hans á vinnustofu hans á dögunum. Á striganum blasti Akureyrarkirkja við en einnig Kolbeinn kapteinn og Tinni sem listamaðurinn hefur málað inn á myndina neðan kirkjunnar. “Ég er að mála fyrir sýningu sem ég ætla að setja upp í menningarhúsinu Hofi á Akureyri innan tíðar. Í bókinni Leyndardómar halastjörnunnar sem er ein af Tinnabókunum koma þeir til Akureyrar. Ég á eftir að mála hundinn Tobba inn á myndina en hann var förunautur þeirra. Þarna er ég að tengja minni úr einni af Tinnabókunum við Akureyri.”

Þrándur hefur vakið verðskuldaða athygli að undanförnu. Ef til vill er réttara að nefna hann listmálara en myndlistarmann vegna þess að hann heldur sig við form og handtök sem finna má langt aftur í listasögunni en lætur nútíma stefnur og straum hjá líða. Þrándur málar í stíl gömlu meistaranna ef svo má að orði komast en leyfir hugmyndafluginu að reika og stundum að fara á flug. Einkum ef hann sér spaugilega hluti fyrir. Nýtt málverk hans af “Kausturfundinum” svokallaða þar sem nokkrir þingmenn komu saman að kvöldi dags og létu gamminn geisa fjálglega yfir ölglasi og komst í hámæli vakti mikla athygli. Þar felldi hann “Klausturþingmennina” inn í ramma hins gamla málverks. Annað nýlegt málverk hans þar sem hann málaði fjármálaráðherra færðan í svokallaða nábrók vakti einnig mikla athygli en frásagnir af nábrók eru ættaðar úr galdrafræðum fyrri tíma. Fyrir nokkrum árum sýndi hann magnaða mynd af Grýlu sem borðar börnin. En hver er þessi frumlegi listmálari sem sækir sér einkum efnivið í þjóðsögur og gamlar sagnir og blandar þeim saman við nútímann gjarnan í háðslegum stíl.

Norðlendingur og Norðmaður

“Ég er fæddur á Akureyri 1978. Foreldrar mínir eru Þórarinn Hjartarson, sagnfræðingur frá Tjörn í Svarfaðardal og Katjana Edwardsen, þýðandi sem er af norskum ættum og er búsett í Noregi. Leiðir foreldra minna lágu til sitt hvorrar áttar og ég ólst bæði upp á Íslandi og í Noregi. Við systkinin vorum að flakka talsvert á milli. Ég lauk framhaldsskólsanámi við Menntaskólann á Akureyri, las síðan heimspeki við HÍ og lauk meistaraprófi í heimspeki í Danmörku árið 2015. Leiðin að myndlistinni byrjaði snemma. Ég var síteiknandi sem barn. Ég var ekki í íþróttum því áhuginn beindist allur að teikningunni. Ég átti frændur sem voru líka að teikna. Einn þeirra er Hugleikur Dagsson skopmyndateiknari. Við erum systkinabörn og hann er einu ári eldri en ég.”  

Lærði hjá Odd Nerdrum

„Við Hugleikur teiknuðum mikið saman. Stundum bjuggum við hvor í sínu landi og þegar við hittumst bárum við saman teikningarnar okkar. Ég held að áhuginn hafi einkum sprottið frá þessum stundum okkar. Snemma áttaði ég mig hins vegar á því að við Hugleikur myndum stefna hvor í sína áttina á þessu sviði. Ég var síðan á myndlistarbraut í Menntaskólanum á Akureyri og stundaði einnig listnám við Myndlistaskólann þar í bæ. Síðar í málaradeild Listaháskóla Íslands. Námið við Listaháskólann hentaði mér hins vegar ekki. Nútíminn átti ekki allskosta við mig eða mínar hugmyndir. Ég stefndi ekki að því að vera konsept listamaður. Ég horfi meira til gömlu evrópsku meistaranna. Stúderaði bækur með verkum þeirra og langaði til þess að læra aðferðir sem þeir notuðu. Það er ekki fyrr en ég kynntist norska listmálaranum Odd Nerdrum að þetta fór að ganga eftir. Ég hafði vitað af honum og þekkti til verka hans en hann leitar einmitt í smiðju hinna eldri listamanna. Svo frétti ég að hann væri fluttur til Íslands og þá var ef til vill tækifæri til þess að kynnast manninum og leita til hans. Ég varð svo heppinn að rekast á hann á förnum vegi og tók hann tali. Talið færist að áhuga mínum. Hann hafði verið með nemendur og tók því vel að segja mér til. Þetta enti með því að ég var lærlingur hjá honum þann tíma sem hann bjó hér á landi eða í um þrjú ár á árunum 2003 til 2006.”

Þessa mynd má tengja við hrunið þótt tímaviðmiðið sé annað.

Þjóðsögurnar eru fullar af myndefni

Odd Nerdrum þykir ekki fara alfaraleiðir hvorki í myndlistinni eða í almennum háttum. “Nei – hann er nokkuð sérstakur. Bæði vinnur hann í þessum stíl og einnig tjáir hann sig með öðrum hætti en flestir eiga að venjast. Getur talað stanslaust, skiptir hann ekki máli hvort einhver sé að hlusta en í raun er hann skemmtilegur. Einn skemmtilegasti einstaklingur sem ég hef kynnst. Það er að hluta vegna áhrifa frá honum hvert ég sæki myndefni mitt. Ég fjalla mikið um íslenska sögu og bókmenntir. Þjóðsögurnar eru fullar af myndefni og hinn forni sagnaarfur er mikil uppspretta hugmynda. Ég blanda þessu stundum. Fer á milli þjóðernisrómantíkur og allt yfir í súrrealisma með viðkomu á barrokk tímabilinu. Tengingin við fortíðina einkennir myndsköpun mína. Hún er þó ekki nauðsynleg til að vinna í þessu formi. Ætli ég sé sjálfur ekki haldinn svo mikilli fortíðarþrá. Ég hef mikinn áhuga á sögu og las heimspeki. Þetta tengist allt saman. Þetta hefði eflaust farið öðruvísi ef ég hefði lært eitthvað annað til dæmis stærðfræði.”

Ekki kitsch málari

Talið berst aftur að norska stórmálaranum Odd Nerdrum sem hefur lýst sjálfum sem sem kitschmálara. Nokkru sem telst afturhvarf til gömlu meistaranna og gagnrýni á síðari listastefnur. Telur Þrándur sig vera kitsch listmálara. Hann neitar því. “Ég skil þessa hugmyndafræði en vil ekki tengja sjálfan mig við hana. Ekki að öllu leyti. Þetta er fremur þröng skilgreining en ég vil hafa rýmri hendur til þess að skapa mínar myndir. Stundum fæ ég að heyra að ég máli myndir sem fólk skilur. Þetta sé aðgengilegt form. Hugsanlega finnst fólki þetta fallegt. En ég hef líka verið að taka nútímann inn í verkin. Held að fólki líki það ágætlega.“

Nábrókin og persónulega 

Þrándur varð fertugur á liðnu ári og efndi af því tilefni til sýningar í Hannesarholti 6. október sl. Á sýningunni var afhjúpuð mynd af stórbóndanum og rokkstjörnunni Svavari Pétri Eysteinssyni sem er þekktur sem Prins Póló. Þeir Þrándur unnu talsvert saman um tíma. Fleiri ný verk voru á afmælissýningunni. Mannlífsmyndir og kyrralífsmyndir en málverkið af nábrók fjármálaráðherra naut ekki náðar húsráðenda Hannesarholts. Trúlega þótt of persónulegt.

Í myndlistinni er maður einsamall

Þrándur starfar eingöngu við myndlistina í dag og kveðst vart hafa undan. “Ég vann á sambýli um tíma og það var síðasta heiðarlega vinnan sem ég stundaði.” Telur hann myndlistina þá ekki heiðarlega. Hann brosir við. “Hún er öðruvísi vinna. Í myndlistinni er maður einsamall. Er eign húsbóndi og verður að beita sínum eigin aga til þess að eitthvað gerist. Ég er nokkuð lengi með hverja mynd. Þetta er mikil nákvæmnis vinna og framleiðslan er kannski minni en hún ætti að vera. Ég hef haldið mig við þessa stefnu og verið að þróa minn stíl. Ég er búinn að halda einar tólf sýningar. Sú síðasta var í Hannesarholti og önnur í Kaupmannahöfn. Nú stefni ég á Akureyri.”

Kaupendur eru einstaklingar og heimili

Þrándur segir að fyrstu viðbrögð við sýningum hans hafi komið honum á óvart. “Fyrsta stóra einkasýningin sem var 2008 gekk vel. Mun betur en ég bjóst við og var því hvetjandi fyrir áframhaldið. Það selst allt vel. Kaupendur eru einstaklingar og heimili. Ég hef ekki enn selt mynd til opinberra aðila og ekki heldur notið styrkveitinga þeirra. Ég hef til dæmis ekki fengið listamannalaun eða boð um að sýna á opinberum vettvangi. Kannski af því að ég vinn ekki með nútímalist. Eftir formbyltinguna um miðja síðustu öld var reynt að úthýsa þeim sem ekki fylgdu með. Mér líður ekki þannig að ég sé utanveltu og mér gengur vel. Ég vil alls ekki kvarta. Þegar kemur að öðrum listamönnum upplifi ég ekkert annað en gagnkvæma virðingu. Ég veit ekki af hverju ég er ekki í náðinni hjá þeim sem útdeila listamannalaunum og opinberu sýningarrými.”

Bý í Sörlaskjóli og vinn á Nýlendugötunni

Þú býrð í Vesturbænum. Ertu orðin Vesturbæingur. “Er maður ekki það sem maður býr. Ég bý vestur í Sörlaskjóli og vinn á Nýlendugötunni. Ég er alla daga í Vesturbænum. Ég flutti til Danmerkur 2012 og bjó þar í þrjú ár. Ég lauk mastersprófinu í heimspeki og var einnig að mála. Nú er ég hér og kann vel við mig. Kannski á ég eftir að hasla mér frekari völl erlendis. Í dag er stutt fyrir mig að fara á vinnustofuna og að sækja sjö ára dóttur mína í skólann. Hún býr hjá mér en stundum hjá móður sinni í Danmörku. Ég ólst þannig upp. Í tveimur löndum. Já – ég er alveg ákveðinn í að halda áfram á þessari braut.”

You may also like...