Unnið að sameiningu prestakallanna í efra og neðra Breiðholti

— Viðtal við séra Magnús Björn Björnsson sóknarprest í Breiðholtskirkju

Séra Magnús, lengst til hægri, ásamt nánum samstarfsmönnum, Erni Magnússyni organista, Halldóri Konráðssyni kirkjuverði og sr. Toshiki Toma presti innflytjenda. 

Séra Magnús Björn Björnsson tók við starfi sóknarprests í Breiðholtskirkju í byrjun árs 2018. Hann var prestur á Seyðisfirði um árabil. Starfaði síðan á vegum alþjóðlegra samtaka, en áður en hann kom til starfa í Breiðholtskirkju hafði hann verið prestur við Digraneskirkju í Kópavogi í 18 ár. Eiginkona hans er Guðrún Dóra Guðmannsdóttir hjúkrunarfræðingur og eiga þau þrjár dætur og einn son. Séra Magnús spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.

“Ég er Reykvíkingur. Fæddur í Vesturbænum 1952 og ólst þar upp. Var í Melaskóla og Hagaskóla. Fór síðan í Menntaskólann í Reykjavík og eftir stúdentspróf lá leiðin í guðfræðideild Háskóla Íslands þaðan sem ég lauk prófi í guðfræði 1978. Eftir það dvaldi ég um tíma í Noregi við framhaldsnám í hagnýtri guðfræði við Meginhetsfakultetet í Osló. Er ég kom heim varð ég prestur á Seyðisfirði í átta ár.” Voru ekki viðbrigði fyrir Melabarnið að flytjast til Seyðisfjarðar í allt annað umhverfi. Magnús segir svo ekki hafa verið. “Ég var mikið í sveit á sumrin þegar ég var strákur og leið alltaf vel úti á landi. Þótt nokkuð hafi tekið á í samfélagið eystra þegar síldin hvarf um áratug áður en að ég kom þangað hafði það náð sér ágætlega á strik. Þarna voru gerðir út tveir togarar og það bjuggu um eitt þúsund manns í firðinum á þessum tíma. Þarna var líka öflugt menningarlíf sem maður tók þátt í eins og kirkjukórinn og leikfélagið svo einhvers sé getið. Það var kraftur í Seyðfirðingum og er. Aðalheiður Borgþórsdóttir sem nú er bæjarstjóri á Seyðisfirði var unglingur þegar ég var prestur fyrir austan og ég man vel eftir henni. Það bjuggu sterkar fjölskyldur í bænum og öflugir einstaklingar sem létu sitt ekki eftir liggja. Ég get nefnt Jónas Hallgrímsson sem var bæjarstjóri á árunum 1974 til 1984 og Þorvald Jóhannsson skólastjóra sem tók við bæjarstjórastarfinu af Jónasi. Þótt hvorugur þeirra væri innfæddur Seyðfirðingur beittu þér sér fyrir hag byggðarinnar. Jónas átti stóran þátt í stofnun fyrirtækisins Austfar. Hann á manna mestan heiður af því að Smyril Line hóf farþegasiglingar frá Noregi og Danmörku til Seyðisfjarðar og kom bænum á kort ferðaþjónustunnar. Þorvaldur starfaði síðan fyrir Samtök sveitarfélaga á Austurlandi og lét sitt ekki eftir liggja í baráttu fyrir bæinn og Austurland. Í dag er skemmtilegt að sjá hvernig Seyðisfjörður hefur þróast. Bænum hefur verið haldið vel við og öflugt menningarlíf hefur náð að blómstra. Seyðisfjörður en raunverulegur lista og menningarbær á Austurlandi.”

Frá Seyðisfirði í alþjóðastarf 

Svo ákvaðstu að breyta til. “Já – eftir átta góð ár austur á Seyðisfirði ákváðum við fjölskyldan að yfirgefa staðinn. Mér bauðst starf hjá alþjóðlegum samtökum kristilegs félags heilbrigðisstétta og gerðist svæðisstjóri fyrir Norðurlöndin á þeirra vegum. Þetta var um margt ólíkt prestsstarfinu. Ég ferðaðist talsvert. Fór til Norðurlandanna og Grænlands og einnig til Asíu og Afríku. Þarna kynntist maður öðrum aðstæðum og veruleika en við búum við hér á landi og þetta var mjög lærdómsríkt. Samtökin starfa alþjóðlega og eru samkirkjuleg. Ég kynntist því fólki hvaðan æva að úr veröldinni. Það opnaði heimili sín fyrir mér og leyfði mér að taka þátt í lífi sínu, fór með mig í kirkjuna sína. Þegar ég horfi til baka þá er ég mjög þakklátur fyrir fólkið sem ég kynntist.” 

Aftur að prestskapnum 

“Já – eftir þetta snéri ég mér aftur að prestskapnum. Ég starfaði sem prestur við Fríkirkjuna í Reykjavík í smá tíma, var að leysa af eftir að séra Cecil Haraldsson hætti og þar til séra Hjörtur Magni Jóhannsson núverandi fríkirkjuprestur kom til starfa. Cecil varð síðar prestur á Seyðisfirði og öflugur í bæjarfélaginu og forseti bæjarstjórnar þar um tíma. Við eigum því báðir sögu að austan. Ég tók svo við starfi sem prestur við Digraneskirkju í Kópavogi árið 2000 og var þar í 18 ár eða allt þar til að ég kom hingað í Breiðholtið.”  

Séra Magnús í prédikunarstólnum í Breiðholtskirkju.

Sterkur kjarni í söfnuðinum 

Magnús segist hafa tekið við góðu umhverfi í Breiðholtskirkju. Starfið sé í mjög góðum skorðum. Séra Gísli Jónasson prófastur starfaði þar um langt árabil. Hann er nú prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra með starfsaðstöðu í Breiðholtskirkju. Það er sterkur kjarni í söfnuðinum, sem þykir vænt um kirkjuna sína. Það kemur vel fram í öllu safnaðarstarfi. Mig langar sérstaklega að nefna Hollvinafélag Breiðholtskirkju. Það styrkir starfið með fjárframlögum bæði kaupum á tækjum og efni, t.d. í barnastarfinu.”

Unnið að sameiningu prestakallanna

Nú er unnið að því að sameina prestaköllin í Neðra og Efra Breiðholti en hugmyndir um það hafa verið að þróast. Magnús segir það vera gert með vaxandi samvinnu á milli safnaðanna. Þetta sé unnið í rólegheitum. “Hugmyndin er að nýta báðar kirkjurnar. Áfram verði tvö kirkjuhús en samstarf prestanna aukið og þjónustan efld.” Magnús segir margt mæla með því að sameina þessi prestaköll. “Neðra og Efra Breiðholt liggja landfræðilega saman og svo eru söfnuðirnir líkir að innri gerð og samsetningu. Margbreytileiki mannfélagsins gerir þá líka. Það er mikið af aðfluttu fólki bæði í Neðra og Efra Breiðholtinu. Fólki sem hefur komið hingað frá ýmsum löndum og menningarsvæðum og valið sér búsetu hér í Breiðholtinu. Þetta fólk er komið úr ýmsum kirkjudeildum og tilheyrir einnig öðrum trúarbrögðum.”  

Söfnuðir fólks af ýmsum þjóðernum

Að undanförnu hefur verið unnið að því að mynda söfnuð þar sem fólk af ýmsum þjóðernum getur komið og átt stundir saman í Breiðholtskirkju.Toshiki Toma sem er prestur innflytjenda leiðir þetta starf og hefur starfsaðstöðu hér. Hann er með messu einu sinni í mánuði og heldur bæna- og lofgjörðrstundir oftar. Sumir eru að taka sín fyrstu skref til kristinnar trúar. Í þessum bænastundum gefst fólki tækifæri til þess að bera fram spurningar og tjá sig. “Ég sé fyrir mér að alþjóðlegi söfnuðurinn vaxi og dafni á næstu árum. Fólki líður vel sem sækir stundirnar og þörfin fyrir samfélag og félagsskap er mikil. Breiðholtskirkja er mjög vel staðsett sérstaklega fyrir þá sem ekki eiga bíl. En við sjáum einnig fyrir okkur stóraukið starf meðal íbúa í Breiðholti af erlendum uppruna. Séra Toshiki Toma kemur mjög mikið að málum flóttafólks. Til að vekja athygli á málum þeirra verða tónleikar í Breiðholtskirkju á skírdag kl. 17. Það er ókeypis inn á tónleikana. Kór Breiðholtskirkju flytur tvö ný tónverk sem tengjast flóttafólki.”

Frá göngumessu í Breiðholti, en þær eru í júní. Þá er gengið á milli kirknanna í Breiðholti og messað til skiptis í kirkjunum.

Barnastarf og starf eldri borgara

“Við erum með barnastarf hér í kirkjunni. Við erum meðal annars með starf fyrir börn á aldrinum sex til níu ára. Þar æfa þau söng undir stjórn Bjargar Pétursdóttur og Arnar Magnússonar organista. Þau sungu við aftansöng á aðfangadag og gerðu það óskaplega fallega. Það auðgaði stundina og söngurinn snerti við öllum. Á miðvikudögum í hádeginu eru fyrirbænastundir. Þar er beðið fyrir fjölda fólks sem er veikt eða er í vanda. Í framhaldinu er starf fyrir eldri borgara. Eftir bænastundina borðar fólk saman og þeir sem kjósa að taka þátt í starfi eldri borgara fara síðan yfir í það. Við byggjum það á þeirri hugsun að maður sé manns gaman.” Síminn hringir og Magnús svarar. Í símanum er kona sem er að biðja hann um að annast jarðarför. Eftir símtalið berst talið að þeim mikilvæga þætti prests- og kirkjustarfsins. Hann segir að jarðarfarir hafi tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum. “Nú er orðið meira um að þessar athafnir fari fram í kyrrþey. Til þess geta legið ýmsar ástæður. Ein er sú að kostnaður við jarðarfarir er nokkur og þegar veitingar til fjölmenns hóps bætast við vex hann. Sumar fjölskyldur hafa annast veitingarnar eða erfidrykkjuna sjálfar, en þegar um er að ræða kaup á tilbúinni veislu frá veitingahúsum er oft um umtalsverðar upphæðir að ræða.”

Gefandi samfélag í Alfa

Alfanámskeiðin ber á góma en Magnús var formaður samstarfsnefndar Alfa hér á landi. En hvað er Alfa? „Þessi námskeið eru haldin á vegum margra kirkna hérlendis og höfða til mjög breiðs hóps fólks. Það hefur komið í ljós að fólk kemur á námskeiðin af margvíslegum hvötum. Sumir vilja kynna sér kristna trú, aðra langar að skoða og rannsaka kristindóminn. Enn aðrir eru að leita svara við grundvallarspurningum lífsins, eru nýir í trúnni eða eru efasemdarmenn. Allt þetta hefur komið fram á námskeiðunum. Námskeiðið er mjög aðgengilegt. Fólk byrjar á því að borða saman, svo er fræðsla um kristna trú. Í lokin eru umræður í hópum þar sem rætt er um efni fræðslunnar eða spurningar sem brenna á þátttakendum. Allir þættirnir eru jafn mikilvægir, því samfélagið sem myndast er svo gefandi. Það er gaman að nefna það, að á samfélagskvöldum alþjóðlega safnaðarins hér í Breiðholtskirkju höfum við verið með alfa fræðslu. Hún er á ensku en textuð á farsi, tungumáli Írana og Afgana, en þeir eru einmitt fjölmennir í alþjóðlega söfnuðinum í Breiðholtskirkju.” 

You may also like...