Gunnar Felixson hlaut Stjörnu KR

Gunnar Felixson.

Á fundi aðalstjórnar KR í september sl. var samþykkt einróma að Gunnar Felixson skildi sæmdur helstu viðurkenningu KR – KR Stjörnu. Gunnar Felixson Stjörnu KR. Gunnar fæddist árið 1940 og er því orðinn 82 ára gamall. Hann lék knattspyrnu með KR upp alla yngri flokka og sinn fyrsta leik með meistaraflokki KR sumarið 1959. Frá árinu 1961 átti hann fast sæti í meistaraflokki KR – í liðinu sem í dag er enn vitnað til sem gullaldarliðs KR.

Gunnar var fljótur og mjög teknískur leikmaður og markaskorari mikill. Hann lék tæplega 200 leiki með KR og skoraði í þeim yfir 90 mörk, eða u.þ.b. mark í öðrum hvorum leik. Þar á meðal voru fyrstu Evrópuleikir KR, gegn Liverpool sem þá var einnig að leika sína fyrstu Evrópuleiki. Gunnar skoraði eina mark KR í leikjunum. Gunnar varð 4 sinnum Íslandsmeistari með KR og 6 sinnum bikarmeistari, auk annarra titla. Gunnar lék einnig sjö leiki með landsliði Íslands og skoraði í þeim 2 mörk. Það vakti athygli út fyrir landsteinana þegar þeir bræður Hörður, Bjarni og Gunnar léku saman með landsliðinu gegn Bretum sumarið 1963, enda voru ekki mörg dæmi þekkt um slíkt. Gunnar kom einnig að þjálfun yngri flokka hjá KR.

Eftir að knattspyrnuferlinum lauk þá sat Gunnar í nokkur ár í stjórn knattspyrnudeildar KR, síðustu árin sem varaformaður. Hlutverk hans þar var þó miklu stærra en bara seta í stjórn, því hann var sá aðili sem ný kynslóð í stjórn knattspyrnudeildarinnar upp úr 1980 leitaði til um ráð og stuðning, og ekki aðeins á stjórnarárunum heldur í fjölda ára þar á eftir. Þá var Gunnar í forystu Bakvarða KR, sem voru deildinni og félaginu ómetanlegur stuðningur á sínum tíma. Sama má segja varðandi fjármögnun stúkubyggingar KR o.fl. o.fl sem hann kom að.

You may also like...