Á annan milljarð í undirbúning borgarlínu

— verkefnið háð því að samningur náist á milli ríkis og sveitarfélaga — 

Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Íbúðalánasjóðs og Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, voru formenn átakshópsins.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa samþykkt samkomulag um að leggja 800 milljónir króna í tæknilegan og fjárhagslegan undirbúning að borgarlínu á þessu ári og næsta. Samkomulagið er gert með fyrirvara um að sama framlag komi frá ríki og að samkomulag náist milli ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033. Því er ætlað að heildarfjárhæðin til undirbúningsins á þessu ári og næsta nemi um 1,6 milljarði.

Ætlunin er að hefja vinnu við greiningu á heildarkostnaði við verkefni og að ráðist í útboð og annað sem þessari framkvæmd fylgir. Ákveða þarf hvaða rekstrarmódel verður notað, ákveða endanlega skiptingu milli sveitarfélaga og hver aðkoma sveitarfélaganna annars vegar og ríkisins hins vegar á að vera. Verkefnið er háð því að sameiginlegur skilningur verði milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu. Verkefnið er mikilvægur liður í því samkomulagi sem unnið er að á milli ríkisins og sveitarfélaganna um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033. 

Sjö milljarðar á ári í fimmtán ár

Í erindisbréfi starfshóps um verkefnið er markmiðið að komast að samkomulagi um fjármögnun 102 milljarða fjárfestingaráætlunar í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu, sem þýðir um sjö milljarða á ári í 15 ár. Uppbygging samgangna á höfuðborgarsvæðinu, stofnbrauta, almenningssamgangna og hjóla- og göngustíga er afar brýnt viðfangsefni til að ná fram markmiðum um betra umferðarflæði, meira öryggi vegfarenda og til að draga úr mengun á svæðinu,“ segir í bókuninni.

Nýtt og afkastamikið kerfi

Á heimasíðu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu segir að Borgarlínan sé nýtt og afkastamikið kerfi almenningssamgangna sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu undirbúa nú í sameiningu. Borgarlínan sé forsenda þess að sveitarfélögin geti þétt byggð í miðkjörnum og við línuna og vaxið án þess að brjóta nýtt land undir byggð utan skilgreindra vaxtarmarka. Með Borgarlínu verði hægt að byggja hagkvæmari rekstrareiningar með að byggja þéttari byggð t.d. með því að hafa færri bílastæði. Borgarlínan mun ganga eftir samgöngu- og þróunarásum sem búið er að festa í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

Tengist húsnæðismálum

Átakshópur forsætisráðherra í húsnæðismálum lagði til fyrr á þessu ári að uppbyggingu borgarlínu verði hraðað og uppbygging leiguíbúða fyrir tekjulága taki mið af aðgengi að skilvirkum almenningssamgöngum. Þá verði framkvæmdum við stofnbrautir umhverfis höfuðborgarsvæðið hraðað miðað við það sem gert sé ráð fyrir í samgönguáætlun.

You may also like...