1. des hátíð Valhúsaskóla

Frá árinu 1968 hefur viðhaldist sú góða hefð á Seltjarnarnesi að halda upp á 1. desember í elsta árgangi grunnskólans. Unglingarnir bjóða foreldrum sínum í kaffi og kökur auk þess sem nemendur sýna skemmtiatriði, flytja leikrit og dansa samkvæmisdansa. 

Eins og undanfarin ár var 1. des-hátíðin haldin í Félagsheimili Seltjarnarness. Dagskrá hófst með ávarp formanns nemendaráðs, Unnar Maríu Sigurðardóttur, að því loknu söng Þór Ari Grétarsson vinningshafi úr Söngkeppni Selsins.  Þá var komið að Söngleiknum Mamma Mía undir leikstjórn Lalla töframanns. Sýningin var stórskemmtileg og áhorfendur fögnuðu dátt. Eftir leiksýninguna var boðið upp á veitingar og síðan sveifluðu nemendur foreldrum sínum á dansgólfinu en danslistina voru unglingarnir búnir að nema hjá þeim Mettu og Hrund í íþróttatímum vetrarins. Hljómsveitin Meginstreymi hélt síðan uppi stuðinu fram til miðnættis. Glæsileg skemmtun í alla staði. Leikhópurinn hélt sérstaka styrktarsýningu á söngleiknum sunnudaginn 8. desember við góðar undirtektir. Aðgangseyrir styrktarsýningarinnar rennur í ferðasjóð 10. bekkjar fyrir útskriftarferð þeirra í Þórsmörk.

You may also like...