Breiðholtið er falin perla
– segir Hrafnhild Eir R. Hermóðsdóttir nýr framkvæmdastjóri ÍR
Hrafnhild Eir R. Hermóðsdóttir tók við starfi framkvæmdastjóra ÍR á dögunum. Hún er ekki ókunnug félaginu en hún gegndi starfi íþróttastjóra um tíma auk þess að hafa æft bæði handbolta og frjálsíþróttir með félaginu. Hrafnhild hefur verið öflugur liðsmaður í frjálsíþróttadeild ÍR, bæði sem þjálfari og iðkandi og á hún að baki í gegnum tíðina nokkur Íslandsmet í hlaupagreinum. Hrafnhild er með BSc í Íþróttafræði, MS í Íþrótta- og heilsufræði auk BS í viðskiptafræði. Hrafnhild Eir ræðir við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.
Þú ert alin upp í Breiðholti. Hvernig var að alast upp þar. “Ég er uppalin í bökkunum og hef átt heima þar stóran hluta ævinnar. Að mínu mati var gott að alast upp í Breiðholtinu. Það var mikið líf í hverfinu og mikil menning fyrir útiveru. Sumrin einkenndust af útileikjum og ferðum í Elliðarárdalinn. Ófáar hjólaferðir og gönguferðir voru farnar um dalinn og oft var nesti haft með. Uppbygging bakkahverfisins býður upp á mjög fjölskylduvænt umhverfi þar sem bílaumferð fer utan um hverfið og grunnskólinn staðsettur í miðju hverfisins. Einnig er stutt í náttúruna þar sem Elliðarárdalurinn er í göngufæri. Ég myndi segja að Breiðholtið sé falin perla.
Líf mitt er mótað af íþróttum
Hvenær fórstu að æfa íþróttir og síðan að keppa. Ertu enn að æfa og taka þátt í íþróttum. “Ég ákvað að prófa að æfa handbolta þegar ég var 11 ára eftir að hafa fengið kynningu í skólanum. Ég æfði handbolta í um sex ár eða þar til ég ákvað að skipta yfir í frjálsíþróttir. Íþróttirnar hafa átt stóran þátt í mínu lífi og mótað mig sem einstakling. Í gegnum íþróttirnar hef ég lært ýmislegt líkt og þrautseigju og eljusemi. Einnig hef ég verið svo heppin að kynnast góðu og gefandi fólki sem eru mín önnur fjölskylda í dag. Jafnframt hef ég fengið tækifæri til þess að ferðast til landa sem ég hefði líklega aldrei farið til ef ekki hefði verið fyrir íþróttirnar og allar keppnis- og æfingaferðirnar. Það má því segja að líf mitt sé mjög mótað af íþróttum enda valdi ég að mennta mig á því sviði. Ég hef því sjálf kynnst því hvað skipulagt íþróttastarf getur haft jákvæð áhrif á mótun einstaklinga. Í gegnum starfið er hægt að kenna ýmis gildi líkt og umburðarlyndi, samvinnu og virðingu og stuðla að persónulegum metnaði. Einnig skapa íþróttir vettvang fyrir iðkendur til þess að bæta sjálfstraust, þjálfa leiðtogahæfni og tileinka sér aga. Ég tel að þetta séu allt þættir sem nýtast vel í daglegu lífi og gera einstaklinginn að árangursríkari samfélagsþegn.”
ÍR skapaði nýja strauma
Hvernig leggst í þig að taka við einu af elstu íþróttafélögum landsins með langa sögu að baki. “Það er mikill heiður að fá tækifæri til að starfa fyrir félag eins og ÍR. Félagið á langa sögu og hefur verið brautryðjandi á hinum ýmsum sviðum. Félagið lét meðal annars þýða og gefa út fyrstu leikreglurnar í knattspyrnu hér á landi á prenti, árið 1908. Einnig hélt ÍR fyrsta íþróttanámskeiðið fyrir allt landið árið 1922, meðal annars í fimleikum, frjálsíþróttum, knattspyrnu og sundi. Með þessu námskeiði þótti ÍR hafa skapað nýja strauma í íþróttahreyfingu landsmanna. Félagið hefur því komið mörgu góðu í framkvæmd og vonandi mun svo vera áfram. Von mín er sú að ég geti látið gott af mér leiða og haldið áfram því góða starfi sem hefur verið unnið hjá ÍR.”
Náum að vera með nokkuð óbreytt sumarstarf
Sumarið er að hefjast eftir óvenjulegan vetur og vor út af Covid. Verður starfið í sumar frábrugðið. “Þetta hafa verið sérstakir og krefjandi tímar en sem betur fer hafa þeir einkennst af samkennd og samstöðu. Allir ÍR-ingar, hvort sem þeir eru stuðningsmenn, iðkendur, foreldrar, sjálfboðaliðar, þjálfara eða starfsmenn félagsins eiga hrós skilið fyrir framgang á þessum tímum. Þjálfarar voru duglegir að senda iðkendum heimaæfingar og hvetja þá til hreyfingar. Einnig mætti félagið miklum skilningi frá foreldrum og iðkendum og stuðningsmenn létu sitt ekki eftir liggja þegar kom að því að styðja við félagið. Sem betur fer höfum við náð að vera með nokkuð óbreytt sumarstarf og hefur það farið vel af stað. Það eru tvö sumarnámskeið í boð hjá félaginu í sumar. Annars vegar sumarnámskeiðið “Sumargaman” en það er fyrir alla krakka á aldrinum sex til níu ára. Á námskeiðunum er lögð áhersla á hreyfingu, leikgleði, útivist og sköpun og geta börnin valið um tvær brautir: íþróttabraut eða lista- og sköpunarbraut. Síðan er knattspyrnudeild ÍR með knattspyrnuskóla en hann er fyrir alla krakka á aldrinum sex til tólf ára.”
Fjölnota íþróttahús í notkun í haust og frjálsíþróttavöllur í sumar
Hverju breyta ný mannvirki á ÍR svæðinu og gerbreytt aðstaða félagsins. “Það eru bjartir tímar framundan hjá ÍR. Það er mikil uppbygging á svæðinu og nú í haust mun fjölnota íþróttahús sem stendur norðaustan megin við ÍR heimilið verða tekið í notkun. Í húsinu verður meðal annars aðstaða fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir auk lyftingaklefa. Þetta bætir mjög aðstöðuna hér í Breiðholtinu og skapar mörg tækifæri. Meðal annars verður hægt að æfa knattspyrnu allan ársins hring við góðar aðstæður þar sem veður setur ekki strik í reikninginn. Einnig verður hægt að bjóða upp á betri aðstöðu fyrir frjálsíþróttir í Breiðholtinu en æfingar hafa farið fram að stærstum hluta í Laugardalnum. Síðan er von okkur sú að frjálsíþróttavöllurinn verði tilbúinn næsta sumar en mikil þörf er fyrir slíkan völl á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er fyrirhugað að reisa parkethús suðaustan við fjölnota íþróttahúsið. Íþróttahúsið sem á að reisa verður á tveimur hæðum, alls um 4220 fermetrar en þar af er íþróttasalurinn um 2400 fermetrar á einni hæð. Í húsinu verður hægt að iðka ýmsar íþróttir en miðað er við að kröfum til keppni í handbolta og körfubolta verði mætt.“