Í hjarta Vesturbæjar fyrir jafnt unga sem aldna

Aflagrandi 40.

Hér á Aflagranda gengur allt sinn vanagang, félagsstarfið er að fara af stað eftir jólafrí. Við leitumst við að bjóða upp á fjölbreytt starf og þægilega samveru í hlýju umhverfi. Hér geta allir fundið eitthvað við hæfi og jafnvel farið út fyrir þægindarammann og prófað eitthvað alveg nýtt. Öflugt starf er í húsinu á opnunartíma frá 8:30 til 15:45 en einnig er starf í húsinu eftir lokun, og er þá unga fólkið meira með völdin. 

Nýtt skemmtilegt starf í húsinu er t.d. Dungens and Dragon klúbbur sem er byrjaður að spila hjá okkur öll fimmtudagskvöld. 

Nú er að fara af stað bæði dansleikfimi og hreyfiþjálfun. Auður Harpa er mörgum kunn fyrir stuðtímana sína, hún verður annan hvern föstudag kl. 13:30 með dansleikfimi. Fyrsti tíminn er 29. janúar. Við fáum líka sjúkraþjálfara frá Hæfi sem verður með hreyfiþjálfun annan hvern fimmtudag kl. 12:45 og er fyrsti tíminn 4. febrúar. Bæði dansinn og hreyfiþjálfunin eru ykkur að kostnaðarlausu svo við hvetjum alla til að koma og taka þátt. 

Opin vinnustofa alla morgna

Við erum með opna vinnustofu alla morgna þar sem fólk hittist með handavinnuna sína og ræðir heimsmálin yfir kaffibolla. Helga Gunnarsdóttir stýrir söngstund alla miðvikudaga og svo tekur hið sívinsæla bókaspjall með Hrafni Jökulssyni við kl. 15:00. Komið og njótið. 

Tanya frá Heilsuskólanum er með Zumba Gold námskeið alla föstudaga kl. 10:30. Nýtt námskeið var að byrja í síðustu viku og ekkert mál að bætast í hópinn. Tálgun, útskurður, myndlist, postulínsmálun og bókmenntaklúbbur eru dæmi um félagsstarf hér í húsinu og nóg pláss fyrir áhugasam

Hingað er hægt að koma og borða hádegismat milli 11:30-12:30, panta/afpanta verður matinn fyrir kl. 12:30 daginn áður og svo er síðdegiskaffi kl. 14:30 alla daga nema mið. og fös. þá er kaffið til kl. 15:00. Nánari upplýsingar um hádegismatinn veitir Sigrún í síma 411-2707.

Kraftur í KR aftur að byrja

Í samstarfi við íþróttafélagið KR bjóðum við upp á Kraft í KR og stefnum við á að fara af stað aftur alla mánudagsmorgna kl. 10:30 í byrjun febrúar. Tímarnir eru fyrir 60+ og er markmiðið að bjóða upp á fjölbreytta hreyfingu. Íþróttafræðingur sér um tímana. Boðið er upp á frístundaakstur frá Þorraseli Vesturgötu kl. 10:10, Grandavegi 47, kl. 10:15 og Aflagranda 40, kl. 10:20 í KR heimilið og aftur til baka. Við hvetjum ykkur til að nýta ykkur frístundaaksturinn. Bæði hreyfingin og aksturinn er ykkur að kostnaðarlausu.

Alltaf til í nýjar hugmyndir

Í samfélagshúsinu okkar viljum hafa viðburði fyrir Vesturbæinga svo sem flóamarkaði, spilakvöld, veislur, sýningar og allt það sem Vesturbæingar kalla eftir. Endilega ef þið hafið hugmyndir að starfi eða viðburði sem ykkur langar að sjá hér í samfélagshúsinu okkar nú eða skrá ykkur í félagsstarfið, hafið samband við Sirí verkefnastjóra eða Helgu umsjónarmann félagsstarfs á skrifstofunni, 411-2701 & 411-2702. Við erum alltaf meira en til í nýjar hugmyndir og áskoranir og auðvitað að kynnast nýju fólki.

Við hvetjum alla til að finna facebooksíðuna okkar, Samfélagshúsið Aflagranda, því þar koma allar tilkynningar og sérstaklega núna á þessum tíma þar sem við gætum þurft að aflýsa áður auglýstum viðburðum. Jafnframt viljum við minna á að grímuskylda er í húsinu og gestir bera ábyrgð á að koma með eigin grímu og passa uppá sóttvarnir.

Siri og Helga.

You may also like...