Góð lýðheilsa meðal ungs fólks á Nesinu
Góð lýðheilsa er á meðal ungs fólks á Seltjarnarnesi. Það kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem Jón Sigfússon framkvæmdarstjóri Rannsóknar og greiningar kynnti á dögunum um lýðheilsu nemenda í 8., 9. og 10. bekk á Seltjarnarnesi sem gerð var í mars 2016. Kynningin fór fram á fundi Samráðshóps um áfengis- og vímuvarnir í hátíðarsal Gróttu, en samskonar könnun var gerð meðal sama aldurshóps um allt land.
Í niðurstöðum kom fram að áfengis- og vímuefnaneysla ungmenna á Seltjarnarnesi er óveruleg líkt og undanfarin ár. Aðrar niðurstöður sem vöktu athygli á landsvísu er hversu samvera barna á Seltjarnarnesi með foreldrum er mikil og einnig að þunglyndi og kvíði eru nánast óþekkt. Iðkun íþrótta, á meðal aldurshópsins sem spurður var, er meiri á Seltjarnarnesi samanborið við iðkun annarra ungmenna á landinu. Grunnskóli Seltjarnarness fær rós í hnappagatið fyrir framúrskarandi starf í könnuninni, en nemendur þar segjast allir vera ánægðir og enginn vill hætta í skólanum. Nánari upplýsingar um skýrsluna veitir forvarnarfulltrúi bæjarins Sigrún Hv. Magnúsdóttir í síma 595 9132, en skýrsluna í heild sinni má finna á heimasíðu bæjarins.