Tekur leikskólinn Ós við rekstri Mýrar?

Myri 1

Leikskólanum Mýri í Litla Skerjafirði.

Til athugunar er að loka Leikskólanum Mýri í Litla Skerjafirði eða að sameina hann rekstri foreldrarekna leikskólans Óss við Bergþórugötu. Leikskólinn Mýri hefur starfað síðan 1. september 1989. Fyrstu sjö árin var hann foreldrarekinn og leigðu foreldrar húsið af Læknafélagi Reykjavíkur. Ástæðan er sú að útlit er fyrir að börnum fækki í Vesturbænum.

Fyrir skömmu var foreldrum leikskólabarna á Mýri tilkynnt af skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar að framtíð skólans var til umræðu. Bent var á að skólastjóri væri að láta af störfum á komandi sumri og einnig útlit fyrir að einungis um 30 börn verði í skólanum á komandi vetri og ástæðan sögð að útlit sé fyrir að börnum sé að fækka í Vesturbænum. Þá hefur einnig komið fram að verið sé að leita að framtíðarhúsnæði fyrir leikskólann Ós við Bergþórugötu en hann er svokallaður foreldraleikskóli og rekinn af foreldrum barna sem njóta skólavistar. Í því sambandi hefur sú hugmynd komið fram að Ós taki að sér rekstur leikskólans Mýrar. Verði það niðurstaða athugana skóla- og frístundaráðs mun foreldrum barna sem dvelja á Mýri bjóðast áframhaldandi skólavist þar en einnig að senda börn í aðra leikskóla í hverfinu. Tekið skal fram að engar ákvarðanir hafa verið teknar um þetta mál þar sem það er á athugunarstigi.

You may also like...