Kríuvarp á Seltjarnarnesi 2019
Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur hefur fylgst vel með fuglavarpinu á Seltjarnarnesi síðustu áratugi og kannað útbreiðslu og þéttleika varpfugla á Nesinu annað hvert ár fyrir umhverfisnefnd. Í skýrslu Jóhanns Óla sem kom út í lok desember 2019 segir að kríuvarpið í sumar hafi verið í meðallagi. Fuglum fer fækkandi, flatamál varpsins dregst saman en þéttist að sama skapi. Í Dal í Suðurnesi er samdrátturinn mest áberandi og fækkaði hreiðrum úr 710 í 245 en þar hefur lengi verið eitt stærsta og öflugasta kríuvarpið á Seltjarnarnesi. Sömu sögu er að segja af öðrum varpsvæðum í Suðurnesi en þar fækkaði hreiðrum úr 1.235 í 847 milli talninga. Varpið í Snoppu var minna og afmarkaðra og fækkaði hreiðrum úr 405 í 180. Mikil fjölgun var hins vegar á kríuvarpi í Gróttu í sumar og fundust 240 hreiður en aðeins 20 árið 2017.
Áhugasamir geta kynnt sér skýrsluna „Varpfuglar á Seltjarnarnesi árið 2019“ á vefslóðinni shorturl.at/BQSY6 eða á vefsíðu Seltjarnarnesbæjar.
Hannes Tryggvi Hafstein – Formaður umhverfisnefndar