Tveggja og þriggja herbergja vinsælastar
Tveggja og þriggja herbergja íbúðir hafa verið vinsælastar á Seltjarnarnesi að undanförnu. Það má segja að markaðurinn hafi aðallega verið í þessum minni eignum og þær hafa líka hækkað mest í verði á undanförnum árum.
Þetta segir Ólafur Finnbogason sölumaður hjá fasteignasölunni Mikluborg í samtali við Nesfréttir. Ólafur segir að það virðist vera mikill straumur á Nesið í dag og því sé einnig skortur á eignum í millistærð og raðhúsum um 200 fermetra og góðum hæðum. Allar eignir sem koma í þeim flokkum séu að seljast vel. „Mikill gangur hefur verið eftir áramót á Hrólfsskálamelnum og hafa fimm íbúðir selst þar á árinu. Einnig var salan á Skerjabraut 1 til 3, þar sem Prjónastofan Iðunn stóð, mjög góð og seldist húsið nánast upp á fyrstu vikunni þannig að verktakarnir eiga einungis eina tveggja herbergja íbúð herbergja íbúð eftir í því húsi.“ Ólafur segir að vegna góðrar sölu þar verði spennandi að fylgjast með hvernig salan á Hrólfsskálamel 1 til 5 sem fer í sölu vonandi á þessu ári muni ganga en þar sé um að ræða fjölbreyttar íbúðir sem henta bæði fyrir yngra fólkið sem fyrsta eign sem og eign fyrir þá sem vilja minnka við sig. „Helsta aðdráttarafl Seltjarnarnesins er gott skipulag á bænum. Þar er stutt á milli skóla og tómstunda og einstakt á höfuðborgarsvæðinu að ekki þurfi að skutla börnum á milli skóla og tómstundarsóknar, enda er öll aðstaða á sama reitnum. „Góð sala hefur verið á Nesinu síðastliðið ár en skortur er á eignum og vonandi mun salan á Hrólfsskálamel 1 til 5 koma hreyfingu á markaðinn með auknu úrvali af eignum í millistærð. Erfitt er að segja hvaða svæði séu dýrust á Seltjarnarnesi en auðvitað hafa sjávarlóðirnar og sunnanvert Nesið alltaf verið aðeins dýrara en norðanmegin“, segir Ólafur Finnbogason.