Rótarýklúbbur Seltjarnarness 50 ára

Á þessu ári eru 50 ár liðin frá stofnun Rótarýklúbbs Seltjarnarness.  Af því tilefni var haldin hátíðarkvöldverður Rótarýklúbbs Seltjarnarness á Nauthóli 23. október sl.  í tilefni afmælis klúbbsins. Á myndinni eru f.v. Haraldur Ólafsson, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Björgólfur Thorsteinsson, Sjöfn Þórðardóttir, Ólöf Sigvaldadóttir, Erlendur Magnússon, forseti Rótarýklúbbs Seltjarnarness og Ásdís Helga Bjarnadóttir, umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi. 

Á þessu ári eru fimmtíu ár liðin frá stofnun Rótarýklúbbs Seltjarnarness. Stofnfundur klúbbsins var haldinn í anddyri íþróttahússins á Seltjarnarnes 20. mars 1971, stofnbréf Rótarýklúbbs Seltjarnarness var síðan veitt af Alþjóðasambandi Rótarý á þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní 1971, og var í kjölfarið haldin fullgildingarhátíð 25. júní 1971 í Félagsheimili Seltjarnarness til að fagna viðurkenningunni.

Þar sem samkomutakmarkanir voru nokkuð þröngar fram eftir sumri á árinu var afmælishátíðinni frestað til 23. október sl. og var hún haldin í Nauthóli að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni forseta, Íslands og Ásdísi Helgu Bjarnadóttur umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi. Í ávarpi sínu dró Guðni forseti fram söguþekkingu sína og fræddi hátíðargesti meðal annars um veldi Seltjarnarneshrepps hins forna, sem náði allt frá Gróttu að Elliðaám og frá Kollafirði til Skerjafjarðar, þar sem veitingahúsið Nauthóll stendur. Þannig má halda því fram að klúbburinn hafi ekki leitað út fyrir bæjarmörkin heldur aftur í söguna í sókn sinni eftir vettvangi á heimaslóðum til hátíðarhalda sinna.

Víðtæk starfsemi Rotarý á heimsvísu

Ásdís Helga ávarpaði einnig hátíðargesti og fór í stuttu máli yfir starfsemi Rótarý á heimsvísu, sem er víðtækari en margan kann að gruna. Rótarý er meira en aldargömul alþjóðleg hreyfing fólks sem stendur fyrir mannúðar- og menningarstarfi, bæði alþjóðlega og í nærumhverfi einstakra klúbba. Meðal þekktustu verkefna alþjóðlegu hreyfingarinnar er þátttaka hennar í áætlun um útrýmingu lömunarveiki í heiminum, sem staðið hefur yfir í 35 ár og stuðlað að fækkun tilvika lömunarveiki um 99.9%. Önnur verkefni snúast um að stuðla að friði, sjá fólki í þróunarlöndum fyrir hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, veita aðstoð við mæður og börn, styðja við menntun og styðja við umhverfismál, svo eitthvað sé nefnt. 

Guðmundur Ásgeirsson heiðursfélagi

Ásdís Helga ræddi einnig starfsemi Rótarýklúbbs Seltjarnarness, en í fimmtíu ára sögu sinni hefur klúbburinn komið að fjölmörgum málefnum. Meðal þeirra verkefna og viðburða sem klúbburinn stendur fyrir má nefna verðlaunaveitingar til nemenda Mýrar- og Valhúsaskóla sem skara fram úr í skólasundi, bókaverðlaun til nemenda í Valhúsaskóla fyrir framúrskarandi námsárangur og Kaldalónsskálina, tónlistarviðurkenningu í minningu Selmu Kaldalóns, sem er veitt fyrir frábæran árangur í tónlistarnámi. Þá hefur klúbburinn gefið út örnefnakort á Nesinu, sett upp fræðsluskilti, gróðursett tré í Björnslundi við Bakkavör, auk þess að annast varðveislu og framkvæmdir við Albertsbúð, hús klúbbsins í Gróttu.

Á afmælisfundinum var Guðmundur Ásgeirsson útnefndur heiðurs-félagi Rótarýklúbbs Seltjarnarness en Guðmundur hefur verið manna ötulastur í starfsemi klúbbsins, gegnt þar ýmsum embættum, meðal annars sem forseti klúbbsins og formaður Gróttunefndar um árabil. Þau eru mörg verkefni klúbbsins sem náð hafa fram að ganga fyrst og fremst fyrir tilstilli hans.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Ólöf Guðfinnsdóttir og Guðmundur Ásgeirsson, nýr heiðursfélagi Rótarýklúbbs Seltjarnarness. 

You may also like...