Byggt fyrir verknám í FB
Undirritaður hefur verið samningur um viðbyggingu fyrir verknámsaðstöðu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Byggingin, sem verður tvær skemmur og tengingar, verður á lóð skólans við Hraunberg. Húsnæði skólans stækkar við þetta um 2.155 fermetrar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skrifuðu undir samninginn á dögunum.
Samningurinn var undirritaður við hátíðlega athöfn í skólanum þar sem auk borgarstjóra, ráðherra og skólameistara, Guðrúnar Hrefnu Guðmundsdóttur, tóku til máls sviðsstjórar í verknáminu. Þau fögnuðu öll því að ráðast ætti í byggingu verknámssmiðja og Kristín Reynisdóttir, sviðsstjóri listnáms sagði m.a. „Hér er fagnað í dag. Skörun listforma á sér stað og farvegur nýsköpunar er spennandi. Með nýrri byggingu verða tækifæri til að samnýta aðstöðu og vinna saman milli verkgreina. Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina, án innréttinga, er áætlaður um ein milljarður króna og greiðir ríkissjóður 60% en Reykjavíkurborg 40%. Kveðju fluttu við athöfnina þau Víðir Stefánsson sviðsstjóri verknáms og fagstjóri rafvirkjadeildar, Kristín Reynisdóttir sviðsstjóri listnáms og Benedikt Kristjánsson fagstjóri húsasmíðadeilar.