Ýmsar byggingar og byggingaþyrpingar eru að rísa úr jörð í Vesturbænum
Ýmsar byggingar og byggingaþyrpingar eru að rísa úr jörðinni í Vesturbæ Reykjavíkur eða munu rísa innan tíðar. Komnar misjafnlega langt á veg. Sumar eru risnar að mestu leyti eða að hluta en aðrar eru nánast á byrjunarreit þótt hafnar séu.
Fyrst má geta byggingu stúdentaíbúða við Gamla garð samkvæmt breyttu deiliskipulagi frá 21. ágúst 2019. Gert er ráð fyrir 69 stúdentaherbergjum í tveimur nýjum þriggja hæða byggingum. Í upphafi var gert ráð fyrir meiri nýbyggingum en horfið frá því þar sem þær þóttu of fyrirferðamiklar og skyggja um of á Gamla garð sem var teiknaður af Sigurði Guðmundssyni arkitekt á sínum tíma. Gert var ráð fyrir að íbúðirnar yrðu tilbúnar í haust 2021.
Hús íslenskra fræða
Við Arngrímsgötu 5 er Hús íslenskra fræða að rísa. Byggingin verður um 6.500 fermetrar auk um 2.200 fermetra opinnar bílageymslu. Ístak annast framkvæmdir er ætlað er verði lokið haustið 2023. Verkefnið hefur átt sér langan aðdraganda. Ákvörðun um framlag til byggingar hússins var fyrst tekin á Alþingi árið 2005. Niðurstaða hönnunarsamkeppni um útlit hússins var kynnt í ágúst árið 2008 en framkvæmdum var svo slegið á frest í kjölfar efnahagshrunsins. Árið 2013 tók þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, og nú forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, fyrstu skóflustunguna á lóðinni við Arngrímsgötu 5 og var síðar ráðist í jarðvinnu vegna verkefnisins. Verkið var lengi í biðstöðu og stór hola minnti á að ekkert var aðhafst um árabil. Svo langt gekk að gárungar voru farnir að tala um holu íslenskra fræða. En nú er hús að rísa óðfluga á lóðinni.
Héðinsreitur farinn af stað
Framkvæmdir eru hafnar á Svonefndum Héðinsreit. Reit sem markast af Mýrargötu, Ánanaustum, Vesturgötu og Seljavegi. Á reitnum eru tvær lóðir, Seljavegur 2 og Vesturgata 64. Nafn reitsins er tilkomið frá Vélsmiðjunni Héðni en Héðinshúsið svokallaða sem löngum hýsi starfsemi Vélsmiðjunnar Héðins er við austurenda reitsins. Undirbúningur að byggingum á Héðinsreit á sér nokkurn aðdraganda. Athugasemdir bárust vegna byggingamagns, hæð húsa, umferðarmálum og fleiru. Fyrirhugaðar framkvæmdir voru kærðar en kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Héðinsreits var hafnað. Gert er ráð fyrir að byggja á fjórða hundrað íbúðir.
Byrjað á Steindórsreitnum
Við austanverðan enda Hringbrautar eru að hefjast byggingaframkvæmdir. Þær eru á svonefndum Steindórsreit sem kenndur er við Bifreiðastöð Steindórs sem var þar með verkstæði og þjónustustarfsemi. Síðar flutti hluti af starfsemi BYKO í Steindórshúsin áður en hún fluttist í Örfirisey og var reiturinn stundum nefndur eftir henni eða BYKO reitur. Um er að ræða lóðir nr. 77 við Sólvallagötu og nr. 116 við Hringbraut. Byggingafélagið Kaldalón, sem er í eigu Kviku banka og einkafjárfesta hefur fest kaup á reitnum en hann hefur gengið kaupum og sölum á milli fjárfesta að undanförnu. Kaldalón keypti svæðið af félaginu Steindórsson ehf., sem er í eigu viðskiptafélaganna Hilmars Þórs Kristinssonar og Jóhanns G. Jóhannssonar en það félag hafði keypt hús og byggingarétt af öðrum aðilum. Gert ráð fyrir að heildarbyggingarmagn verði 15.700 fermetrar, þar af 70 íbúðir á 3.250 fermetrum á tveimur til fjórum hæðum.
Vesturbugt á stað á næsta ári
Fasteignaþróunarfélagið Kaldalón hyggst hefja uppbyggingu í Vesturbugt í Reykjavík um áramótin en framkvæmdir þar eru ekki hafnar. Þar er gert ráð fyrir um 190 íbúðum og atvinnuhúsnæði. Í Vestur-bugt verði aðallega tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðir. Jarðhæðir verði að mestu „lifandi“ með verslunarrýmum, en þó sé lítillega dregið úr því með nýju deiliskipulagstillögunni, fyrstu íbúðirnar komi á markað um mitt ár 2023 en verkefninu muni ljúka í árslok 2024.