Ég hef komið til 113 landa

– segir Einar Þorsteinsson málarameistari –

Einar á sextugsafmælisdegi sínum í Sydney í Ástralíu. Blómin eru gjöf frá ferðaskrifstofunni sem annaðist ferðina. Að afmælinu loknu gaf Einar starfsstúlkum á hótelinu blómin enda að hans sögn erfitt að taka þau með heim til Íslands.

Einar Þorsteinsson málarameistari er hundrað landa fari. Hann hefur eytt umtalsverðum hlut æfi sinnar til að ferðast um heiminn þar sem hann hefur einnig sinnt öðru áhugamáli sínu sem er ljósmyndun. Einar hefur að sögn komið til 113 landa sem flest eru í fjarlægri kantinum frá ættlandinu. Hann hefur átt ýmsa ferðafélaga í gegnum tíðina. Oft ferðast með litlum hópum sem hafa tekið sig saman um ferðalög til framandi landa. Þegar myndaalbúmum Einars er flett kemur fljótt í ljós hversu fjölbreytt ferðalögin eru og aðstæður þar sem hann hefur farið eru oft gjörólíkar frá einu landi til annars. Hann hefur meðal annars farið með Síberíuhraðlestinni. Gengið á Kínamúrinn, grandskoðað fjarlæg lönd Austur Asíu. Ástralía er ekki undan skilin hann hefur einnig farið um sumar slóðir Suður Ameríku. “Nei – ég hef aldrei komið til Alaska því miður segir hann þegar norðlægar slóðir berast í tal. Veit ekki hvað ég á eftir. Heilsan er farin að gefa eftir og ég hef verið varaður við löngum flugferðum. Mig langar þó að fara enn einu sinni til Noregs þar sem ég bjó í sex ár,” segir þessi eldhressi ferðalangur og fyrr um málari yfir kaffibolla hjá Evelin Rodriges í Gerðubergi.

Hvaðan kemur þessi ferðagleði maður. Einar er fljótur til svars. “Af Teigunum í Reykjavík. Ég er fæddur á Hrísateig 4 í einu af húsunum sem flutt voru úr Skerjafirði inn á Teiga þegar rýma þurfti fyrir Reykjavíkurflugvelli. Ég er því aðeins yngri en flugvöllurinn þótt ekki muni mörgum árum. Ég átti heim á Hrísateigum fyrstu níu árin en þá flutti fjölskylda mín yfir í Hlíðarnar. Þar gerðist ég Valsari sem ég er enn og er stoltur af því.” Einar kveðst minnast æskuáranna sem skemmtilegs tíma en fleira hafi fylgt flutningnum í Hlíðarnar en nýtt hverfi og Fram. “Þegar þarna var komið sögu var ég sendur í sveit í nokkur sumur eins og títt var með krakka á þessum tíma. Sumarfríið var nokkuð langt og fátt um að vera fyrir þá sem voru á þessu aldursskeiði. Í mínu tilviki var ekki farin stysta leiðin til að finna drengnum sveitadvöl. Ég var sendur upp á Hólsfjöll. Lengra var varla hægt að komast nema þá út á Langanes. Á Hólsfjöllum fóru mótunarárin fram ásamt skólagöngunni í Hlíðunum í Reykjavík.” 

Soðið rollukjöt og siginn fiskur

Var lífið á Hólsfjöllum ekki frábrugðið því sem þú hafðir vanist í borginni. Voru þetta ekki viðbrigði. “Hvort það var. Það voru mikil viðbrigði að koma úr Hlíðunum og upp á Hólsfjöll. Vissulega var venjulegt fólk á báðum stöðum en umhverfið og hugsunarhátturinn sem það mótaði var allt annar. Flest var frábrugðið því sem ég átti að venjast. Maturinn var með allt öðrum hætti. Soðið rollukjöt og siginn fiskur voru algeng og mikið var um saltan og súran mat. Það var alveg nóg að éta. Ekkert skorti en vandinn var að venjast matargerðinni. Ég fékk alveg að heyra að ég væri úr höfuðborginni og matvandur eftir því. Einkum frá eldra fólkinu. Man að einhverju sinni rak gamall karl gallsúran bita upp í nasirnar á mér með þeim orðum að ég ætti að éta þetta. Gömlu mennirnir hefðu gert það. Ég hef alltaf verið fljótur til svars og lét ekki standa á svari þá fremur en á öðrum stundum. Eru þeir ekki líka allir dauðir svaraði ég strákpattinn og þetta var ekki frekar rætt í það skiptið að minnsta kosti. Ég hafði ekki vanist þessu. Gamli sveitamaturinn var að mestu horfinn í Reykjavík í mínum uppvexti. Alla vega var hann ekki á borðum á mínu æskuheimili. En það var ekki allt jafn vont á Hólsfjöllum. Lostæti leyndist þar líka. Ekkert komst í líkingu við hangikjötið þeirra. En það var hátíðamatur. Eftir að ég fór að dvelja þar á sumrin fékk ég sent hangikjötslæri um jólin. Þetta þótt lostæti heima og alltaf haft á borðum á jóladag.”     

Sumar á síldarplani

“Þegar ég hætti að vera í sveit á sumrin 15 ára var unglingavinnan á frumstigi og hvað þar var í boði greip mig ekki. Ég fór að horfa í kringum mig. Ég sá að auglýst var eftir fólki á síldarplön á Raufarhöfn. Ég sló til. Farið var með rútu morguninn eftir og byrjað að vinna strax og við vorum komin. Á fyrsta útborgunardegi kom í ljós að ég var of ungur. Ég mátti ekki vinna. En ég hafði strax tekið til hendinni þótt ég væri ekki eldri því ég hafði lært að vinna í sveitinni á Hólsfjöllum. Þeir sem stjórnuðu á síldarplaninu höfði tekið eftir því. Ákváðu því að tala ekkert um aldur minn og ég var látinn vinna áfram og fékk auk þess útborgað. Þarna gerðist eitt og annað. Mér drengnum stóð stundum ekki á sama. Mest gekk á í landlegum. Mikið var drukkið og tekist á. Einkum þegar norsku skipin voru í landi. Norðmennirnir voru duglegir við brennivínið og mun meiri slagsmálahundar en Íslendingarnir sem þó gátu tekið til hendi. Stundum logaði allt í slagsmálum. En þetta var ákveðin lífsreynsla.”  

Hafði engan áhuga á að drekka mig fullan á hverju föstudagskvöldi

Svo gekkstu málaraveginn. Hvernig kom það til. “Ég fór ekki aftur á síld. Ég fór í byggingavinnu og síðan að vinna í blikksmiðju sem var í JL-húsinu við Hringbraut. Ætlunin var að gera við mig langtímasamning en ég ákvað að taka því ekki. Á þeim tíma voru föstudagsfylliríin í tísku og mér hugnaðist ekki að taka þátt í þeim. Hafði engan áhuga á að þurfa að drekka mig fullan á hverju föstudagskvöldi fyrir félagsskapinn. Svo fór ég að huga að einhverju iðnnámi sem lenti með því að ég komst á samning og varð málarameistari. Starf sem ég sinnti síðan allt fram að starfslokum.”

Hef ekki liðið fyrir kvenmannsleysi

En svo lá leiðin til Osló. Hvað kom til. “Ég held að einhver leiði hafi verið kominn í mig. Mér fannst að ég þyrfti að breyta til. Ef til vill blundaði ævintýraþrá undir niðri. Þannig var að góður vinur mín sem ég hafði starfað mikið með að félagsmálum hafði flutt til Osló. Hann hvatti mig til þess að koma og prufa þetta. Upphaflega átti þetta að verða eitt ár en þau urðu sex. Eftir fyrsta árið var maður farinn að kynnast umhverfinu og kominn meira inn í tungumálið. Freistandi var að halda áfram.” Einar bjó í miðborg Oslóar. Við Geitmisvejen á Mayerlökka rétt við St. Hans Haugen garðinn. Í göngufæri niður á Karl Johan. Þar voru blokkir og íbúðirnar með nokkru öðru sniði en hér heima. Dæmi voru um sameiginleg klósett fyrir nokkrar íbúðir. Á þessum tíma þótti Norðmönnum óþarfa munaður að hver hefði sitt eigin klósett. Alger óþarfi. Ég byrjaði að læra að rata um Osló einkum miðborgina með því að labba um og svo fékk ég mér götukort. Undir lokin var ég farinn að hugsa heim og ákvað að fara til baka þegar þessi sex ár voru liðin.“ Einar var einn. Bjó einn við klósettleysið á Geitmisvejen. Hefur hann alltaf verið einn. „Já – þótt ótrúlegt megi virðast hef ég alltaf verið einn. Aldrei náð að festa ráð mitt. Eflaust mér sjálfum að kenna. Á ýmsu gekk og stundum munaði litlu. Ég hef ekkert liðið fyrir kvenmannsleysi en hef alltaf verið ógiftur og barnlaus.“ 

Kínverjar alltaf verið stórir í sniðum

Eftir að hafa farið til 113 landa er freistandi að kalla Einar heimshornaflakkara. Hann talar um Páskaseyju, Sydney í Ástralíu og Tangó í Argentínu eins og hann þekki ekkert betur. Og þetta er bara smábrot. Hann hefur lagt rækt við að kynnast austur Asíu og flettir upp á myndum frá Kína í albúmi sínu. „Þar er allt stórt,“ segir hann. „Kínverjar hafa alltaf verið þolinmóðir en stórir í sniðum. Dæmi um það er leirherinn. Leirherinn telur um átta þúsund styttur og enga eins sem Kínakeisari lét gera til að tryggja sér ævarandi vernd. Þeir hafa alltaf verið stórtækir og því hlaut að koma að því að þeir myndu sýna sig utan landsteinana eða eigum við að segja utan Kínamúrsins. Þeir eru farnir að sýna sig meira í veröldinni. Þótt trúarbrögð séu ekki ríkjandi í Kína nútímans er grunnurinn í búddisma. Í því felst ákveðin gæfa. Hugsaðu þér ef þeir væri múslimar. Væru örugglega búnir að strádrepa hverjir aðra.“

Evrópa of nálægt

Einar kveðst hafa hlaupið að mestu yfir Evrópu. „Hún er líklega of nálæg. Ég hef þó komið til ýmissa staða á evrópsku meginlandi en ekkert ef ég miða við heimshluta á borð við Austur Asíu. Ég hef heldur aldrei farið til sólarlanda. Hef aldrei haft löngun til þess. Hef líklega ekki eirð í mér til þess að liggja á sólarströnd. Á ferð um VietNam enduðum við hópurinn á sólarströnd. Ég eirði illa á ströndinni og nýtti tímann til að fara um og taka myndir.“ 

Með Ara Trausta og fleirum í Síberíuhraðlestinni

En hvernig hópa hefur Einar alið sér sem ferðafélaga. „Þeir eru mismunandi. Stundun hafa kunningjahópar tekið sig saman en líka fólk sem hefur gaman af að ferðast. Þessir hópar hafa verið nokkuð ólíkir í gegnum árin. Ég hef til dæmis ferðast nokkuð með Ara Trausta Guðmundssyni jarðfræðingi og síðar alþingismanni.“ Ein af merkilegri ferðum Einars var með hóp sem kallaði sig Landnámu með Síberíuhraðlestinni árið 2000. Í hópnum voru ýmsir þjóðþekktir einstaklingar. Þar á meðal Ari Trausti og frú, Ari Arnalds og frú, Dagfinnur Stefánsson fyrrum flugstjóri, Kristjana Milla Thorsteinsson, Ragnheiður Erla Bjarnadóttir prestur með meiru, Sigurður Halldórsson, Eva Júlíusdóttir sálfræðingur og fleiri. „Þetta var mjög fróðleg ferð og við sáum margt. Sovétríkin voru að vísu liðin undir lok á þessum tíma en margt var lítið breytt frá gamla tímanum.“ Of langt væri að rekja allar ferðir Einars. Þar væri komið efni í nokkrar ferðabækur. Svo víðförull er hann. En er honum eitthvað minnisstæðara en annað. „Mér er þetta allt minnisstætt, Myanmar og Franska Pólýnesía, Gala Pagos eyjar eða Amazon og Argentína. Allt er þetta minnisstætt,“ segir þessi hressi yfir hundraðlandafari úr Vesturberginu í Breiðholti. 

Með Ara Trausta í Mongólíu. Sagði honum að tími væri kominn til að upplýsa eiginkonu hans hvernig hjákonan liti út.
Tannlækningastofa í Kína. Tannlæknirinn var ekkert hrifinn að ég væri að taka myndir af honum. Hann hljóp á eftir mér og ætlaði að ná myndavélinni. En ég hvarf í mannfjöldann.
Múrari er varð á vegi Einars í Kína. Ég lærði nú ekki mikið af honum.

You may also like...