Hönnuninn er eins og tónlist
Trúlega hefur ekki hvarflað að Steinunni Sigurðardóttur þegar hún sat níu ára gömul með prjónana gegnt ömmu sinni og naut tilsagnar hennar við fyrstu lykkjurnar að prjónaskapurinn ætti eftir að leiða hana inn í tískuhús heimsins. Hún fékk snemma brennandi áhuga á fatahönnun og segir það einkum prjónaskapnum að þakka.
Henni er gjarnt að halda því á lofti að hún hafi prjónað sig inn í tískuheiminn. Steinunn stundaði nám við listaháskóla í París og New York og lauk prófi frá Parson School of Design. Hún starfaði um árabil við tísku- og fatahönnun hjá erlendum tískuhönnuðum en stofnaði árið 2000 fyrirtækið Steinunn og opnaði verslun – fyrst við Laugaveg en síðar á Grandagarði. Á meðal viðurkenninga sem henni hafa hlotnast eru hönnunarverðlaun Torsten och Wanja Söderberg-verðlaunin árið 2008 og hún var borgarlistamaður Reykjavíkur 2009. Steinunn er búsett í Skerjafirði ásamt eiginmanni sínum Páli Hjaltasyni arkitekt og syni og er með starfsstöð og verslun á Grandagarði. „Já – ég prjóna og sauma enn,“ sagði Steinunn þegar Vesturbæjarblaðið leit við hjá henni á Grandagarðinum á dögunum og hún lýsti því hvernig hún fór með prjónana sína inn í verksmiðjur og framleiðsluhús sem unnu fyrir tískuhúsin, settist við hlið tæknimannanna og prjónaði fyrir þá hugmyndir sínar og prufur en þeir unnu síðan að því að stilla vélar eftir þeim formum sem runnu af prjónunum og koma hönnuninni í framleiðslu. Tæpast er hægt að hugsa sér meiri nálægð hugmyndar og framkvæmda, nánara samstarfs hugmyndasmiðs og hönnuðar við hina eiginlegu framkvæmd sem hefur án nokkurs vafa skilað mörgum verka hennar fram á veginn.
Byrjaði hjá ömmu
Þegar Steinunn er innt eftir því hvar lífsstarf hennar hafi byrjað er hún fljót til svars. „Hjá ömmu. Amma vann á saumastofu. Hún kunni eitt og annað fyrir sér og hún gaf sér líka tíma til þess að kenna mér. Hún er mjög mikilvæg persóna í mínu lífi. Hún bjó á heimili foreldra minna og hafði þá þolinmæði til að bera að veita mér alla þá tilsögn sem hún gat. Ég nýt heldur ekki aðeins þeirra forréttinda að hafa numið af henni heldur einnig að eiga reynsluna af þessu aldursbili – eða kynslóðabil sem er á milli okkar.“ Steinunn segir að handverkið sé vanmetið hér á landi vegna þess að þar sé undirstöðuna að finna og nefnir vefnaðinn sérstaklega – verk vefn-aðarkonu á borð við Guðrúnu Vigfúsdóttur. Það er eflaust þessi reynsla sem ég bý að sem hefur mótað mig og mín sjónarmið þannig að ég tel að afar og ömmur eigi að gegna og gegni stóru hlutverki í uppeldi barnabarna sinna. Ég trúi því og treysti að fólk sjá til þess að börnin fái að njóta þeirrar kynslóðar og þess sem hún hefur að gefa. Ég hef oft hugsað um af hverju eldra fólk er ekki fengið að leikskólastarfinu – til dæmis til þess að koma í heimsóknir í skólana og lesa fyrir börnin. Við verðum að skapa það umhverfi að eldra fólk eigi kost á þessu – að lesa fyrir börn eða eiga með þeim sögustundir. Með því flytjum við fróðleik á milli kynslóðanna. Tengjum þar saman. Lesstund í leikskóla held ég að hljóti að vera bæði gefandi og góð fyrir bæði fyrir börn og fullorðna.“
Í New York og París
Steinunn bjó um tíma í Now York og einnig í París. Hún fékk inngöngu í Parsons School of Design í New York en hana hafði lengi langað að komast til náms í fatahönnun erlendis. Vegna þess að hún kom frá landi þar sem hönnun var varla kennd og hafði þar af leiðandi ekki mikla undirstöðu í faginu varð hún að leita fyrir sér um nám. „Mér var tekið vel í Parsons enda fyrsti Íslendingurinn sem kom þangað til náms. Þetta var góður skóli og mér leið vel vestra.“ Eftir skóla lá leið Steinunnar til starfa fyrir þekkta hönnuði og tískuhús, fyrst Ralph Lauren síðan Calvin Klein og þar næst Tom Ford. Steinunn er þekkt fyrir mikla alúð við verkefni sín og á sjónþingi sem efnt var til í Gerðubergi fyrir nokkrum árum sat Páll Hjaltason arkitekt og eiginmaður hennar á meðal spyrjenda. Ein spurning hans á málþinginu var greinilega varpað fram til þess að draga þessa hlið fram í dagsljósið og ef til vill einnig til gamans en hann spurði á þá leið að síðustu tvær vikurnar fyrir hverja sýningu hafði hún nánast horfið og síðan aftur birst tekin, föl og vannærð, hvað hafi eiginlega gerst á þessum tveimur vikum. Steinunn svaraði að bragði eins og hennar var von og vísa og lýsti á lifandi og skemmtilegan hátt vinnuferlinu við uppsetningu stórra tískusýninga, öllum þeim fatnaði sem skoða þyrfti, valinu og að lokum uppsetningu og framgangi sjálfrar sýningarinnar. Því rennsli sem áhorfendur sjá á sýningarsviðinu. Þrjátíu sígarettur og sautján kaffibollar hefðu þá ekki þótt neitt yfirþyrmandi dagsskammtur undir því vinnuálagi og pressu. Því hafi ekki verið fjarlægt að tala um vannæringu.
Nálægðin við framleiðsluna skiptir öllu
En hvað er Steinunn að gera í dag. „Ég var að ljúka við að senda frá mér línu af prjónafatnaði og nú er ég að vinna útfærslu á munstri sem ég er að nota þannig að ég geti sent það og látið framleiðendurna líta á það og segja kannski „Steinunn við getum þetta ekki og þú verður að einfalda það.“ Steinunn segir framleiðsluna fara í gegnum ákveðin ferli stig af stigi ef svo má segja. „Eitt er að teikna og síðan verður að endurskapa teikninguna í efninu. Það er mun erfiðara að vinna í þrívídd en í tvívídd því þá koma ýmsir nýir saumar inn og annað sem þarf að kanna og þá reynir á kunnáttuna í sníðamennsku.“ Steinunn segir nálægðina við framleiðsluna skipta miklu og hún sé góður skóli. „Maður fer í gegnum framleiðsluferlið og lærir af mistökunum hver sem þau eru. Nálægðin við tæknifólkið hefur kennt sér mest og gefið í gegnum tíðina. Án þess samstarfs væri ég varla stödd þar sem ég er í dag.“ Steinunn segir hönnun ungt fag á Íslandi. „Orðið hönnun kom varla inn í tungumálið fyrr en með tilkomu Listaháskólans árið 2000. Því eru ekki nema einn og hálfur áratugur síðan hægt var að læra hönnun sem háskólanám á Íslandi. Fram til þess tíma varð að sækja allt slíkt nám erlendis. Hönnunin hér heima stendur því að vissu marki enn á byrjunarreit og þá fyrst og fremst vegna þess að við erum ekki komin nógu langt í framleiðslunni. Ég hef stundum sagt að Ísland sé fullt af „prototypum“. Ég hugsa að það sé þó farið að minnka vegna vaxandi þekkingar og reynslu en við þurfum alveg örugglega að bæta okkur við framleiðsluna til að verða samkeppnisfærari á erlendum mörkuðum. Ég held að þetta gildi fyrir allar tegundir lista hvort sem um söng, tónlist, kvikmyndir eða annað er að ræða. Ég tel mig hafa verið heppna að í gegnum æfi mína og störf að hafa fengið að njóta samstarfs við mjög góða framleiðsluaðila – jafnvel þá bestu í heiminum. Þar hef ég lært ýmislegt um gæði og annað sem ég er að vinna með í dag.“
Hönnunin eins og tónlist
Steinunn segir hönnunin er eins og tónlistin að þessu leyti. „Tónsmiðurinn situr við hljóðfærið sitt og semur en svo þarf meira að koma til þegar þarf að koma afurðinni á framfæri. Alls staðar er fólk sem aðstoðar við sköpunarferli þar til það er á enda. Tónsmiðurinn þarf á útsetjurum og hljóðveri að halda. Leikritahöfund-urinn á leikstjóra og leikhúsfólki. Kvikmyndagerðarmaðurinn á sveit tækni- og tökufólks. Hver lærir af öðrum þegar fólk vinnur saman. Í mínu tilfelli lít ég á verksmiðjuna eins og hljóðblöndun í tónlistinni.“ Steinunn segir að oft sé talað um fatahönnun eins og allt eigi að búa til á Íslandi. Allar hugmyndir og hönnun eigi að fara í framleiðslu hér heima. En er það hægt. „Nei það er ekki hlægt vegna þess að við erum ekki nógu mörg. Það eru ekki til nægilega margir einstaklingar sem hafa þá kunnáttu í framleiðsluferli eða eigum við að segja verksmiðjukunnáttu sem þarf hér heima til að hægt sé að framleiða allt – allt frá siffoni og yfir leður. Eða prjónið. Við erum með prjónavélar fyrir íslenska prjónið en ekkert þar fyrir utan. En þrátt fyrir þetta er ég alveg á því að framleiða eingöngu á Íslandi geti alveg gengið í sumum tilfellum en fyrir mér er mjög takmarkað hvað ég get framleitt hér heima.“
Náttúrulegu efnin undirstaða
Steinunn segir segir náttúrulegu efnin mikilvæg og að þau skipi stóran þátt í sköpunar- og framleiðsluferli sínu. „Síðan ég stofnaði fyrirtækið mitt hef ég í allt að 97% tilfella notað náttúrleg efni til þess að vinna með. Ég hef unnið mikið með ull og einnig silki og nokkuð með kasmír og er stolt af því að hafa helgað mig náttúr-unni að þessu leyti.“ Þetta tel ég mikilvægt fyrir alla sem fást við hönnun því þá lærir hönnuðurinn og verksmiðjan lærir á móti. Ég held að þetta sé eins í fleiri greinum. Stundum gott að taka sjálfan sig út Steinunn segir hollt fyrir hönnuð að taka sjálfan sig í gegn öðru hvoru. Taka sjálfan sig út fyrir hönnunarferilinn. Eiga raunveruleikasamtal við sjálfan sig í stað þess að gleyma sér á fluginu. „Ég hef auðvitað bæði grætt og tapað á því en hvernig sem það hefur farið hef ég alltaf verið ákveðin í að halda áfram. Sérstaklega getur verið gott að draga andann aðeins djúpt þegar um mjög persónulegan klæðnað er að ræða. Klæðnað sem þarf að harmónera við karakter þess sem á að klæðast honum. Ég er heldur ekkert bundin því að fólk klæðist eingöngu í mínar flíkur. Allskonar samsetning getur hentað fólki og með honum getur það búið til og styrkt sinn eigin karakter. Fólk setur heimili sín saman úr ýmsum hlutum og fatnaðinn líka. Heimili standa líka saman af kynslóðum og þarna kem ég enn og aftur að ömmu. Breiddinni sem þarf að vera í lífi fólks.“
Ekki út úr kassanum fyrr en allt er búið
Steinunn hefur auk hönnunar og framleiðslu starfað við kennslu. „Eitt af því skemmtilega hér heima er að geta gefið eitthvað til baka. Við eigum öll að gefa eitthvað til baka – til samfélagsins og ég hef reynt það með því kenna og halda fyrirlestra þar sem ég miðla öðrum af reynslu minni. Þetta er hollt fyrir sjálfa mig, Og gott fyrir hönnuð að eiga samtal við unga fólkið. Ég man hvað þetta var erfitt í fyrstu. Að koma fram fyrir annað fólk. Ég gleymi því ekki að þegar ég hélt fyrirlestur í Norræna húsinu árið 2002 að ég var svo nervös og ég faldi mig hálfvegis á bak við ræðupúltið. En það hefur lagast. Ég hef líka reynslu af þessum löngu vinnutörnum sem Páll lýsti á sjónþinginu á sínum tíma. Það þarf einbeitingu hvað sem maður er að gera. Maður verður að leyfa sér að fara inn í kassann og ekki út úr honum fyrr en allt er búið.“