Að trimma með heiðri og sóma

Á myndinni eru Agnes Hlöðversdóttir, Ágústa G. Sigfúsdóttir heiðursfélagi, Guðrún Geirsdóttir og Sigrún Hallgrímsdóttir þjálfir TKS.

Trimmklúbbur Seltjarnarness ætti flestum Nesbúum að vera kunnur. Þetta er  hópurinn sem hefur hlaupið um stíga og strendur Seltjarnarness frá því að Margrét Jónsdóttir, frumkvöðull og íþróttakennari, ýtti okkur af stað árið 1985. Allar götur síðan hefur hópurinn notið þess að trimma út fyrir Gróttu, eða beygja við steininn, taka spretti á Norðurströndinni, hlaupa brekkur upp og niður Strandirnar og stytt okkur leið um Mýrarnar. 

Á þessum 36 árum höfum við farið í gegnum margs konar áherslur í hlaupum, mismunandi tísku í hlaupafatnaði og skóm, sett okkur misháleit markmið sem flestum hefur við náð með öflugum stuðningi og dyggri stjórn frábærra þjálfara. Þar höfum við notið stuðnings bæjaryfirvalda sem hafa af framsýni stutt við þjálfun og eflingu líkamlegs heilbrigðis. Á móti hefur Trimmklúbburinn verið ötull í að boða fagnaðarerindið um heilsubót hlaupanna, haldið árleg námskeið fyrir nýliða og staðið fyrir Neshlaupinu og Kirkjuhlaupinu sem dregið hefur að sér fjölda hlaupara úr nágrannasveitunum.

Ágústa lifandi dæmi um kosti þess að hlaupa

Þó að vissulega hafi fækkað í hópi þeirra sem fyrstir sprettu úr spori með TKS árið 1985 má glöggt merkja heilsusamleg áhrif hlaupanna á því að enn eru býsna margir þeirra enn í fullu hlaupafjöri og stunda sín hlaup reglulega með hópnum. Ein þessara er hún Ágústa G. Sigfúsdóttir. Ágústa er fædd 1941 og fagnaði því áttræðisafmælinu sínu núna í júní. Ágústa er lifandi dæmi um kosti þess að hlaupa. Síðan 1993 hefur hún tekið þátt í fjölmörgum almenningshlaupum, m.a. hlaupið 20 sinnum hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Þar hefur hún ítrekað lent í verðlaunasæti. Hún hleypur þrisvar í viku allt árið um kring auk þess að sækja tíma í World Class. Hún er Trimmklúbbsfélögum sönn fyrirmynd og því ákváðum við í TKS að nýta afmælið hennar til að heiðra okkar ágæta félaga og gera að heiðursfélaga Trimmklúbbs Seltjarnarness. Hún deilir þeim titli með tveimur öðrum frábærum konum og heiðursfélögum; Margréti Jónsdóttur stofnanda Trimmklúbbsins og Þorbjörgu Bjarnadóttur.

Um leið og við óskum Ágústu til hamingju með heiðursnafnbótina þá hvetjum við alla áhugasama að kynna sér starfsemi Trimmklúbbsins og koma og hlaupa með okkur. Fastir æfingatímar eru á mánudögum og miðvikudögum kl. 17:40 og á laugardögum kl. 9:30 frá Sundlaug Seltjarnarness. Þá má benda á frekari upplýsingar á facebook síðu TKS.

Kirkjuhlaupið á annan jóladag

Skemmtilegt gæti líka verið að segja frá Kirkjuhlaupinu – árlegu hlaupi á annan dag jóla þar sem hlaupið er á milli kirkna á Seltjarnarnesi og Reykjavík. Síðast mættu 500 manns og nutu hlaups og veitinga í safnaðarheimilinu í Seltjarnarneskirkju.

You may also like...