Valhúsaskóli í úrslit Skólahreysti

Valhusaskoli 5 ridill

Það var líf og fjör í íþróttahúsinu í Mýrinni Garðabæ þegar Skólahreysti hóf göngu sína í ár. Ellefu skólar úr vesturhluta Reykjavíkur og af Seltjarnarnesi kepptu í fjórða undanriðli keppninnar.

Íþróttahúsið var fullt af litríkum stuðningsmönnum sem létu ekki sitt eftir liggja og studdu skóla sína af lífi og sál. Skólahreysti er nú haldin í ellefta sinn í ár með þátttöku yfir 100 grunnskóla af öllu landinu. Landsbankinn er sem fyrr aðalbakhjarl Skólahreysti og mun fylgja keppninni um allt land. Skólarnir ellefu sem mættust í keppninni í gær voru Austurbæjarskóli, Hagaskóli, Háaleitisskóli, Háteigsskóli, Hlíðaskóli, Landakotsskóli, Langholtsskóli, Laugalækjarskóli, Réttarholtsskóli, Valhúsaskóli og Vogaskóli. Eftir gríðarmikla baráttu var það lið Valhúsaskóla sem vann riðilinn með 56 stigum og komst í úrslit Skólahreysti annað árið í röð. Í öðru sæti varð Réttarholtsskóli með 52 stig og í þriðja sæti varð Hagaskóli með 47,5 stig. Réttarholtsskóli á enn möguleika að komast í úrslit sem eitt af tveimur stigahæstu liðum sem ekki komast sjálfkrafa áfram sem sigurvegarar. Keppendur í liði Valhúsaskóla hafa unnið sér inn þátttökurétt í úrslitakeppni Skólahreysti 2015 sem verður 22. apríl og sýnd í beinni útsendingu á RÚV úr Laugardalshöll. Landsbankinn veitti liðum í þremur efstu sætum undanriðla vegleg verðlaun. Þá stóð bankinn einnig fyrir Instagram-myndakeppni á hverjum viðburði en áhorfendur geta sent inn myndir merktar skolahreysti og bestu myndirnar eru verðlaunaðar á hverjum stað.

You may also like...