Líkamsræktarstöð í Breiðholtið

Dagur - World Class 1

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók fyrstu skóflustunguna að nýrri líkamsræktarstöð við Austurberg í Breiðholti á dögunum. Á myndinni heldur Dagur á skóflunni. Björn Leifsson í World Class heldur á hnausnum og Hafdís Jónsdóttir eiginkona hans fylgist með.

Framkvæmdir eru að hefjast við nýja líkamsræktarstöð í Breiðholti. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og hjónin Hafdís Jónsdóttir og Björn Leifsson, eigendur World Class, tóku nýlega fyrstu skóflustunguna að nýrri líkamsræktarstöð við Breiðholtslaug.

Framkvæmdir hefjast strax og er áætlað að stöðin opni í febrúar 2016. Skrifað var undir samning um byggingu og rekstur stöðvarinnar í apríl síðastliðnum og hefur undirbúningur staðið yfir síðan. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir gott fyrir hverfið að fá líkamsræktarstöð en hún mun líka styrkja Breiðholtslaug enn frekar. Hann kveðst vita fyrir víst að bæði nemendur í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og eins eldri borgarar sem búa í hverfinu muni fagna þessum framkvæmdum og aðstöðu til bættrar heilsu. Líkamsræktarstöðin mun rísa sunnan sundlaugarinnar og gerður verður tengigangur með fram íþróttahúsi til að samnýta afgreiðslu, búningsklefa og sturtur með sundlauginni. Gestir stöðvarinnar fá einnig aðgang að lauginni en slíkt er einnig nú þegar í boði fyrir þá viðskiptavini sem æfa í World Class í Laugum, á Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ. Deiliskipulag hefur verið samþykkt og heimilaði það aukinn byggingarétt að 1.700 fermetrum, en líkamsræktaraðstaðan er hönnuð af Úti og Inni arkitektum og Ara Má Lúðvíkssyni arkitekt. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við nýbyggingu verði boðnar út samhliða útboði á þeim breytingum sem gera þarf á þjónustubyggingu Breiðholtslaugar. Þrek ehf. mun byggja og reka líkamsræktaraðstöðuna, en Reykjavíkurborg byggir glerganginn með fram íþróttahúsinu. Þrek ehf. greiðir 75 milljónir króna fyrir byggingarréttinn, gatnagerðargjöld og afnot af bílastæðum.

World Class 2 1

Tölvuteikning af fyrirhugaðri líkamsræktarstöð við Austurberg í Breiðholti.

You may also like...