Melaskólinn er einstök bygging

– segir Ástríður Guðmundsdóttir fyrrverandi kennari í Melaskóla –

Yngsta systkinið skírt. Frá vinstri, Þorvarður Jón, Ástríður og Halldóra í fangi stóru systur.

Ástríður Guðmundsdóttir kennari tengist Melaskóla með tvennum hætti. Hún var nemandi í skólanum sem barn og fullorðin ákvað hún að ljúka kennaranámi og hóf síðan störf sem kennari við gamla skólann sinn á Melunum. Undir starfslokin starfaði hún í hlutastarfi en hætti endanlega þegar kórónaveirufaraldurinn barst til landsins. “Þá var ég farin að vinna það lítið að mér fannst ekki taka því lengur.”

Ástríður er Reykvíkingur og Vesturbæingur í húð og hár. Faðir hennar var Guðmundur Jónsson óperusöngvari og útvarpsmaður og móðir hennar Þóra Haraldsdóttir. “Föðurforeldrar mínir bjuggu á Öldugötunni. Afi minn Jón Þorvarðsson var kaupmaður í Reykjavík og rak veiðarfæraverslun við Tryggvagötu. Halldóra Guðmundsdóttir föðuramma mín var ættuð frá Akranesi en fluttist 15 ára til Reykjavíkur. Eini angi ættar minnar utan Reykjavíkur liggur upp á Skaga. Móðir mín var hreinn Reykvíkingur. Foreldrar hennar voru Ástríður Einarsdóttir sem ég heiti eftir og Haraldur Þórðarson skipstjóri. Ég man þegar ég var krakki að sumum fannst ekki mikið til þess koma að vera bara Reykvíkingur. Að vera ekki frá einhverju héraði eða byggð út á landi. Vissulega kom fólk af landsbyggðinni til borgarinnar og kenndi sig stundum við hin fyrri heimkynni sín. En þá verðum við líka að athuga að Reykjavík er orðin nokkuð gömul. Fólk var tekið að safnast saman hér á 18. öld og jafnvel fyrr og ættir ná alveg jafn langt aftur. Foreldrar mínir kynntust á KR balli og ömmur mínar og afar bjuggu við Öldugötu og Hringbraut. Allt hreinir Vesturbæingar. Þetta var skemmtilegt svæði. Allir þekktu alla eða næstum því og flestir miklir KR ingar. Ég náði líka í að breiða út saltfisk sem sumarstarf. Saltfiskstæðið var efst við Kaplaskjólsveginn þar sem vinnslustöð Bæjarútgerðarinnar var á sínum tíma. Þarna fengu krakkar úr Vesturbænum oft fyrstu sumarvinnuna sína.”

Í fyrstu blokkinni við Kaplaskjólsveginn

Ástríður Guðmundsdóttir.

Ástríður dvaldi tvö fyrstu ár ævinnar í Svíþjóð og síðar eitt ár í Austurríki þar sem faðir hennar var við nám. “Eftir heimkomuna fluttum við í fyrstu blokkina sem reis við Kaplaskjólsveginn – 37 til 41. Þá voru engar byggingar í kring. Þetta var rétt við Jófríðastaði. Nokkurn veginn beint á móti KR. Þetta var eins og sveit. Næstu árin fór svæðið að byggjast. Kaplaskjólsblokkirnar risu hver af annarri. Borgin var að teygja sig til vesturs. Ég var tvö ár í Lauganesskóla og svo hófust kynni mín af Melaskóla sem síðar átti eftir að verða starfsvettvangur minn í mörg ár. Ég er úr fjölmennum árgangi. Alls voru tíu bekkjardeildir í mínum árgangi og þurfti að nota stóran hluta af stafrófinu til þess að greina þær í sundur. Mig minnir að ég hafi verið í J bekk. Við vorum 32 í bekknum. Ég eignaðist marga góða vini í Melaskóla og við höfum haldið sambandi alla tíð. Þegar við áttum 55 ára bekkjarafmæli fórum við í dagsferðalag á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Þá var kennarinn okkar Dagný Albertsdóttir á lífi en hún féll frá fyrir þremur árum komin á tíræðisaldur. Við höfum orðið að fresta 60 ára afmælinu vegna kórónaveirufaraldurins. Þó er aldrei að vita nema að við efnum í eitthvað ef þessu ástandi líkur.”  

Ástríður með föður sínum Guðmundi Jónssyni óperusöngvara.

Var alin upp við góðan mat

Ástríður byrjaði að kenna í Melaskóla eftir að hafa lokið kennaraprófi 1971. “Ég byrjaði þó ekki starfsferilinn þar. Ég hafði ekki ákveðið hvað ég vildi gera og starfaði sem flugfreyja hjá Loftleiðum um tíma. Það var gaman en ég vil ekki gera mikið úr því þótt það væri ákveðin reynsla. Ég ákvað svo að fara í Kennaraskólann og þaðan lá leiðin til kennslu í Melaskóla. Ég var þó ekki alveg samfleytt við kennsluna því ég starfaði í Borgarleikhúsinu frá 1989 til 1994. Ég starfaði líka við matseld einkum fyrir kvikmyndagerðarmenn. Meðal annars við kvikmyndirnar Stellu í orlofi, Karlakórinn Heklu og Kristnihald undir jökli. Þetta var svona aukavinna því kennaralaunin voru ekki það há að maður þurfti að vinna með kennslunni.” Ástríður hefur alltaf haft gaman af að fást við matargerð. Kveðst þó ekki húsmæðraskólagenginn. “Ég slapp við það en var alin upp við góðan mat. Það var alltaf góður matur á heimilinu þegar ég var að alast upp. Ég var vön góðu og hef eflaust tekið kunnáttuna með mér að heiman. Svo les ég góðar uppskriftir og reyni að fylgjast með. Laufey Steingrímsdóttir næringarfræðingur er skólasystir mín og góð vinkona. Talsvert af fólki sem ég var með í Hagskóla hefur orðið þekkt í samfélaginu.”

J bekkur í Melaskóla. 

Melaskóli einstök bygging

Ástríði er annt um gamla skólann sinn – ekki síður húsið en stofnunina. Segir að þessi fallega bygging sem var teiknuð af Einari Sveinssyni arkitekt og húsameistara Reykjavíkur á sínum tíma megi ekki drabbast niður. “Mér finnst vanta upp á að viðhaldi skólabyggingarinnar hafi verið sinnt nægilega vel á undanförnum árum. Það er gott að spara en sparnaður má ekki verða  til þess að verðmæti eins og ég tel vera í húsi Melaskólans skemmist af skorti á viðhaldi. Þegar Ingi Kristinsson var skólastjóri var hann seigur við að kreista út peninga til þess að sinna því sem ábótavant var. Mér finnst þessu ekki eins vel sinnt núna. Byggingin er sérstök og var einstaklega glæsileg þegar hún var reist og þarf að vera það áfram. Það er líka dýrt að láta hluti skemmast.” Ástríður rifjar upp að hún hafi eitt sinn hitt erlendan mann fyrir utan skólann. “Hann var að mig minnir Bandaríkjamaður, trúlega arkitekt eða byggingafræðingur og gisti á Hótel Sögu. Ég hitti hann á rölti fyrir utan Melaskólann þar sem hann var að virða húsið fyrir sér. Hann spurði mig hvort hann gæti fengið að skoða það að innanverðu. Ég bauð honum að koma inn og ég skyldi sýna honum skólahúsið. Við gengum um allt húsið og hann virti það fyrir sér. Honum fannst þetta einstök bygging bæði að utan sem að innan. Melaskólinn má ekki drabbast niður.”

Stúlkur að breiða saltfisk til þurrkunar á athafnasvæði BÚR við Meistaravelli. Ástríður fremst til vinstri. Í miðjunni er stúlka frá Ameríku sem var í heimsókn hér á landi og fékk að grípa í vinnu með hinum krökkunum

Höfundur “Sörunnar”

Ástríður er löngu þekkt fyrir fleira en kennslu. Hún er höfundur “Sörunnar” smáköku sem mörgum finnst lífsnauðsynleg með kaffinu um jólin. Hvernig kom Saran til. “Þetta byrjaði þannig að ég fann uppskrift í sænsku blaði og þróaði mína smáköku út frá henni. Ég bætti meðal annars kaffidufti í kremið. Ég kenndi svo vinkonum mínum í Melaskóla að baka þessar kökur. Einhvern veginn færðist þetta mann frá manni eins og gengur. Sörunafnið er hins vegar ættað frá Danmörku. Sá kökur í dönsku blaði sem báru svipað heiti. Þannig varð Saran til.”

You may also like...