Margt ánægjulegt að gerast í Vesturbænum

Gísli Marteinn Baldursson segir svæðið þar sem Hofsvallagata og Hagamelur mætast vera að fá yfir sig ákveðin borgarblæ þar sem þjónusta og mannlíf fara saman.

“Það er margt ánægjulegt að gerast hér í Vesturbænum,” sagði Gísli Marteinn sjónvarps- og fjölmiðlamaður þegar Vesturbæjarblaðið tilliti sér með honum á Kaffi Vest á dögunum. “Við getum byrjað á Birkimelnum. Þar er nú að ljúka framkvæmdum sem lengi hafa verið nauðsynlegar. Gamla gangstéttin var brotin og beinlínis hættuleg bæði gangandi og hjólandi fólki og hún var líka allt of mjó í ljósi þess að fjöldi barna og ungmenna úr eldri hluta Vesturbæjarins norðan Hringbrautar fer um Birkimelinn á leið sinni í Hagaskóla. Þetta er bein leið frá þeim eina stað sem unnt er að fara yfir Hringbrautina á gangbrautarljósum á móts við Birkimel. Búið var að óska eftir þessum framkvæmdum nokkrum sinnum í kosningum íbúa um nauðsynlegar framkvæmdir en þar sem þær voru nokkuð kostnaðarsamar var látið hjá líða að hefjast handa. En að lokum var ákveðið að fara í verkefni sem er vel. Það kom mér nokkuð á óvart að gerðar væru tvær þrengingar á götunni eru þær við stoppistöðvar Strætó og hugsaðar til þess að ekki yrði hægt að taka framúr vögnunum á meðan þeir væru að taka upp farþega og setja út. Það vildi brenna við að börn hlypu fram fyrir vagnana og sáu þá ekki hvort bílar væru að aka fram hjá og þarna urðu slys. Ég fæ ekki séð að þetta hefti umferð um Birkimelinn.”

Önnur umferðargata í Vesturbænum hefur oft verið til umræðu á meðal Vesturbæinga og annarra sem leið eiga um þennan borgarhluta. Það er Hofsvallagata. Gísli Marteinn segist búa á Melhaganum og halda sig mikið á horninu á Melhaga og Hofsvallagötu. “Þetta er alveg á mínum slóðum svo ég fylgist nokkuð vel með. Þar er skemmst frá því að segja að breytingarnar sem gerðar voru um árið og voru nokkuð umdeildar hafa heppnast vel. Þetta voru aðferðir til bráðabirgða því láta átti reyna á hvernig þær myndu verða í framkvæmd. Niðurstaðan er alveg hrein. Það hægði mikið á umferðinni án þess að tafir sköpuðust þannig að kappaksturstextinn hans Ómars Ragnarssonar þar sem segir “Hofsvallagötu hentist ég í heljar rykmekki” á ekki lengur við.”

Breiðari en þjóðvegur 1

Gísli Marteinn segir að Hofsvallagatan hafi í upphafi verið hönnuð sem tveggja akreina gata sem liggja átti að mislægum gatnamótum við Hringbraut. Þannig var gamla skipulagið frá sjöunda áratugnum. Allt átti að snúast um einkabílinn sem þá var að halda innreið sína af fullum þunga í Reykjavík. Hofsvallagatan er breiðari en þjóðvegur 1 svo furðulegt sem það er. Þetta þýddi að menn óku hratt og oft tveir bílar hlið við hlið. Gatan var erfið yfirferðar fyrir gangandi fólk og skar byggðina í tvennt. En málið er að þetta er aðeins hálfnað verk. Eftir er að endurgerða syðri hlutann. Frá Hagmelnum og niður á Ægissíðu. Svona götur virka þannig á ökumenn að þeir meðtaka þær eins og ákveðin skilaboð. Ef maður fylgist með umferðinni þá sést greinilega hvernig ökumenn gefa vel í þegar þeir eru komnir fram hjá Melabúðinni. Þessi gamla hugsun um að byggja jafnvel fjögurra akreina hraðbrautir inn í íbúðahverfum er eitthvað sem engir íbúar vilja lengur sjá og þær skapa umtalsverða hættu. Ég sé oft og veit líka sem faðir í hverfinu að þegar krakkar eru að fara í skólasund í Vesturbæjarlaugina þá eru þau að sæta lagi og skjótast yfir götuna og bílarnir koma á miklum hraða. Mér finnst oft hafa legið við stórslysi og við megum vera ánægð með hve heppin við erum að ekkert mjög alvarlegt hefur orðið. Það er algerlega tímabært að ljúka þessari framkvæmd og þrengja Hofsvallagötuna suður úr alveg suður á Ægissíðu.”

Hofsvallagatan er borgargata en ekki hraðbraut

Annað dæmi um þá hugsun sem var ríkjandi þegar Hofsvallagatan var hönnuð er afreinin inn á Ægisíðuna. Hún er hönnuð eins og hraðbraut. Er víð og enginn vandi að taka beygjuna á mikilli ferð. Eins er með gatnamótin við Neshaga. Það er líka hönnun miðuð við hraðbraut. Ástæðan fyrir því að götum á borð við Reynimel og Grenimel var lokað í vesturátt á sínum tíma er sú að hleypa ekki umferð inn á hraðbrautina Hofsvallagötu og tefja umferð bíla um hana eða skapa hættu af innakstri. Mér finnst með ólíkindum að enn sé til fólk, jafnvel inn í borgarstjórn, sem sér þetta ekki og er að hamast á móti lífsnauðsynlegum breytingum. Hofsvallagatan er borgargata í hefðbundnum skilning en ekki hraðbraut. Þetta ætti hver maður að geta séð. Ég hitti engan sem ekki er niðurgrafin í þessar skotgrafir sem vill hverfa til fyrri tíma á Hofsvallagötunni enda sýna talningar að umferð um íbúðagötur hefur ekki aukist eins og haldið var fram þegar farið var í þessar framkvæmdir.”

Borgarblær á Hagamelnum

Gísli Marteinn víkur að svæðinu þar sem Hofsvallagata og Hagamelur mætast. Hann segir það vera að fá yfir sig ákveðin borgarblæ þar sem þjónusta og mannlíf fara saman. “Hér eru nokkrir þjónustuaðilar og það er að myndast torg á milli þeirra. Þetta eru Melabúðin, Brauð og Co, Kaffi Vest, bráðum nýr Hagavagn og svo auðvitað sundlaugin. Við gripum til þess ráðs nokkrir sem eigum hagsmuna að gæta hér á þessu svæði að setja upp stóran sjónvarpsskjá á sundlaugartúninu og sýna þá leiki frá heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem íslenska liði tók þátt í. Og það fylltist allt af fólki – jafnvel þótt veðrið hefði mátt vera betra. Þetta er dæmi um mannlíf sem er að skapast hér í Vesturbænum og getur þrifist og dafnað ef það er ekki skorið í sundur af hraðbraut þar sem bilar streyma hjá á 60 til 70 kílómetra hraða.”  Gísli Marteinn segir að þótt ótrúlegt megi virðist þá njóti hugmyndin um samgönguás eða borgarlínu víðtækari stuðnings í Vesturbænum en víða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Vesturbærinn liggur næst miðborginni – nær en önnur byggðarlög en þetta sé dæmi um breyttan hugsunarhátt þegar kemur að ferðavenjum fólks. “Margir Vesturbæingar hafa sett sig inn í málin og þessi hugsunarháttur á eftir að fara víðar,” segir hann.

Frábær tækifæri fyrir Vesturbæinn

Gísli Marteinn minnist á nýju byggðina á Skerjafirði. “Ég held að þarna séu frábær tækifæri fyrir Vesturbæinn. Þarna á að rísa íbúðir fyrir námsfólk og einnig leiguíbúðir sem eiga að seljast á viðráðanlegu verði. Það vantar íbúðir hér eins og annars staðar í borginni og það eru ýmis dæmi um að verið sé að breyta aukarými í húsum og jafnvel bílskúrum í íbúðir. Þetta er ekki sérstakt fyrirbæri hér á landi. Þetta er til dæmis kallað “granny flats” í Bretlandi og um daginn var seldur bílskúr sem breytt hafi verið í íbúð hér í Vesturbænum á 40 milljónir.”

KR og Valur farin að ræða saman um Vatnsmýrina

Gísli Marteinn segir að nú sé farin af stað umræða á milli KR og Vals hvernig Vatnsmýrin mun skiptast á milli þessara íþróttafélaga. Þarna sé stórt verkefni á ferðinni. Félögin starfi sitt til hvorrar handar og mætist á miðri leið. Því sé mikilvægt að þarna geti skapast góð samvinna. “Í skipulagi Vatnsmýrarinnar er gert ráð fyrir grænum garði sem nær úr Skerjafirði, meðfram flugbrautinni og sameinast friðlandinu í Vatnsmýrinni og tengist síðan Tjörninni og Hljómskálagarðinum og alla leið fram hjá á Bernhöftstorfunni og út að sjó. Þetta er framtíðarmúsik en fellur vel að hugmyndum um græna borg og væna til útivistar. Það verður ánægjulegt að sjá hvernig tengingar Vesturbæjarins við hina nýju byggð til austurs þróast.”

You may also like...