Þrjár hverfishetjur í Breiðholti

Óskar Dýrmundur Ólafsson, hverfisstjóri, Bragi Björnsson, hverfishetja, Luis Lucas Antonio Cabambe, hverfishetja, Hafsteinn Vilhelmsson, hverfishetja og Guðrún Eiríksdóttir, formaður hverfisráðs.

Þrjár hverfishetjur voru valdar úr hópi 30 sem tilnefndar höfðu verið til þessarar nafnbótar. Hverfisráð Breiðholts óskaði eftir tilnefningunum og valdi að þessu sinni hetjurnar Hafstein Vilhelmsson, Luis Lucas Antonio Cabambe og Braga Björnsson.

Hafsteinn var tilnefndur fyrir að hafa gefið sig allan í skapandi félagsmiðstöðvastarf í Breiðholti síðastliðin tíu ár, þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur sett á svið leikrit, staðið fyrir kvikmyndahátíðum, tónleikum, hæfileikakeppni og mörgu fleiru í frístundamiðstöðinni Miðbergi.

Luis var valinn vegna þess að hann er góð fyrirmynd fyrir börnin í hverfinu. Hann hefur kennt dans hjá Dansskóla Brynju Péturs og þess vegna er hann vel þekktur í hverfinu. Luis hefur einstaka hæfileika og er tilbúinn til að deila reynslu sinni og tíma auk þess sem hann fær alltaf aðra til að brosa.

Bragi rak íþróttabúðina Leiksport í Hólagarði í tæp 30 ár og gaf hverfinu lit. Búðin átti marga fastakúnna og átti Bragi góð samskipti við alla viðskiptavini sína og íþróttafélögin ÍR og Leikni. Hlýtt viðmót og sanngjarnt verð hjá Braga verður í minnum haft nú þegar hann hefur hætt rekstri í Hólagarði.

Formaður hverfisráðs, Guðrún Eiríksdóttir og Óskar Dýrmundur Ólafsson, hverfisstjóri afhentu verðlaunin nú í vikunni í Mjóddinni þar sem gestir og gangandi gátu glaðst með hverfishetjum. Markmiðið með verðlaununum er að þakka þessu fyrirmyndarfólki fyrir framlag þeirra til samfélagsins og efla félagsauð í Breiðholti.

You may also like...