Leiðin hefur legið víða

Hans Kristján Árnason.

– spjallað við Hans Kristján Árnason –

Sjónvarpsstöðin Hringbraut hefur að undanförnu sýnt heimildaþætti sem Hans Kristján Árnason hefur gert í gegnum tíðina. Hann hefur gert marga heimildarþætti fyrir sjónvarp um menn og málefni auk annarra heimildamynda erlendis og hér heima. Trúlega er hann kunnastur fyrir frumkvöðlastarf sitt í sögu sjónvarps á Íslandi en hann ásamt félaga sínum Jóni Óttari Ragnarssyni ýttu Stöð 2 úr vör haustið 1986 – dagana sem Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev sátu sögulegan fund hér á landi. Færri vita að hann hefur fengist við sölu á gærum til Finnlands, lopapeysum til Rússlands og byggt tunnuverksmiðju í Finnlandi til þess að smíða síldartunnur fyrir Íslendinga. Hann hefur víða komið við á leið sinni í gegnum lífið. Vesturbæjarblaðið settist niður með Hans Kristjáni á dögunum. 

Að íslenskum sið er hann fyrst inntur eftir ætt og uppruna. “Ég er fæddur á Skólavörðuholtinu, Smáragötu 3, í húsi ömmu minnar og afa en fjölskyldan flutti síðan á Guðrúnargötu 9 í Norðurmýrinni rétt við Klambratúnið. Þar ólst ég upp í næsta nágrenni við Jón Þórðarson kennara og Þórunni Elfu Magnúsdóttur rithöfund foreldra Megasar. Við Megas vorum því nágrannar en hann er tveimur árum eldri en ég og ég var í níunda bekk hjá Jóni föður hans. Reyndar vorum við Megas í sveit á sama bæ en hann var þar ári á undan mér þannig að við sinntum aldrei sveitastörfum saman þótt báðir hafi prufað sveitalífið sem strákar. Ég man hvað Megas var snemma frjór. Þegar hann var átta eða níu ára var hann að búa til hasarblöð. Hann hefur alltaf verið góður teiknari og lagði allt í þetta. Hann samdi sögurnar og teiknaði myndirnar. Blöðin voru fjölrituð í skólanum hjá föður hans og síðan fór hann út á götu og seldi þau. Þetta er sennilega einsdæmi af strák á hans aldri.”

Í herbergi Vigdísar

Hans Kristján minnist skólagöngunnar. “Ég gekk fyrst í Ísaksskóla en Ísak Jónsson stofnandi hans var ömmubróðir minn. Síðan hófst tímabil flutninga í ævi minni sem eiginlega stendur enn því ég hef flutt 22 sinnum á minni stuttu æfi. Ég er tíu ára þegar foreldrar mínir keyptu hús við Ásvallagötu 79 árið 1957. Þau keyptu af foreldrum Vigdísar Finnbogadóttur. Þetta voru svona fjölskylduvinakaup en Kristján Einarsson afi minn og Finnbogi Rútur faðir Vigdísar voru vinir. Þegar við komum í húsið fylgdi dóttirin á heimilinu,Vigdís, mér upp á efri hæðina og sýndi mér herbergi. Þetta var gamla herbergið hennar og hún sagði að þar ætti ég að vera. Þetta gekk eftir. Ég fékk herbergi Vigdísar Finnbogadóttur.” Hans Kristján kveðst engan hafa þekkt í Vesturbænum þegar þau fluttu en það hafi breyst þegar hann fór í Melaskólann. “Við Ólafur Haukur Símonarson rithöfundur urðum sessunautar. Ég labbaði oft í gegnum Kamp Knox sem þá var og hét og hitti stráka sem urðu ævivinir mínir. Svo tók Hagaskóli við. Þar kynntist ég meðal annara  Ágústi Haraldssyni, Ingvari Karlssyni, Gunnari Gunnarssyni, Karli Steingrímssyni og Arnari Haukssyni.”  

Gekk alltaf úr Vesturbænum í Versló

Leið Hans Kristjáns lá síðan í Verslunarskólann. “Þar var ég í sex ár. Fyrst lauk ég hefðbundnu verslunarnámi og eftir það bættust tvö ár við til að ljúka stúdentsprófi. Skólinn var við Grundarstíg og ég gekk austur yfir allan tímann – yfir Skothúsbrúna í öllum veðrum. Ég var um hálftíma hvora leið en aldrei kom annað til greina en ganga í skólann. Á þessum árum var venja að krakkar færu til vinnu á sumrin og fyrsta vinnan mín þegar ég var 11 ára var í saltfiskinum hjá Sænska frystihúsinu sem stóð þar sem Seðlabankinn er. Ég tók mér fleira fyrir hendur á sumrin. Eitt sumar vann ég í byggingavinnu sem handlangari. Svo tóku sumaskólarnir við. Fyrst fór ég til Bournemouth í Englandi en þangað fóru nokkrir Vestrubæingar. Síðar var ég sendur til Heidelberg í Þýskalandi. Mér gekk ekki vel í þýsku og þarna var fundin leið til að koma mér á milli bekkja í Verslunarskólanum. Svo má ekki gleyma því að ég vann fyrir nokkur jól og eitt sumar í Herradeild P&Ó sem var þar sem Kaffi París er í dag. Þá voru þeir Pétur og Ólafur búnir að opna herrafataverslunina um 1960 og ég var 15 ára þegar ég vann þar fyrst. Þetta voru miklir heiðursmenn og það var á við mjög góðan skóla að starfa með þeim. Ég man hvað mér þótti þó erfitt sumarið sem ég var þar að vera lokaður inni í búðinni á góðviðrisdögum. Þegar sólin skein og fólk naut blíðunnar á Austurvelli. Ég fór síðar annan sumartíma til Englands. Þar dvaldi ég hjá L. Fortescue, sem verið hafði yfirkennari í Eton, þeim fræga menntaskóla. Hann var þá hættur kennslu en hobby hans á efri árum var að rækta enskan garð á landareign sem hann átti. Hann var með tvo vinnumenn í garðinum sem fengu hvor um sig átta pund á viku í vinnulaun sem var svipað og vasapeningarnir sem ég fékk. Ég kynntist hinum stranga kennara og mikla aga sem einkenndi hann, störf hans og samskipti við fólk, en við urðum góðir vinir eftir að ég varð fullorðinn.”

Hans Kristján ásamt systkinum sínum Ingunni, Einari og Guðrúnu á barnsaldri.

Hans Kristján og systkini á góðum aldri.

Hjá stálverksmiðju í fjöllum í Wales

Hans Kristján starfaði að atvinnurekstri bæði fjölskyldu sinnar og annarra um árabil. Á síðari hluta sjöunda áratugarins dvaldi hann í London og vann hjá breskum fyrirtækjum sem faðir hans hafði átt samskipti við og átti viðskiptasambönd. Hann var einnig í Glaskow um tíma og meðal annars hjá stálverksmiðju sem var staðsett upp í fjöllum í Wales. “Ég trúlofaðist þetta Bretlandssumar og gifti mig 1968. Fyrsta heimili okkar var á Víðimel 55 hjá þáverandi tengdaforeldrum mínum Páli Ísólfssyni tónskáldi og dómorganista og Sigrúnu Eiríksdóttir. Þessi ágæta kona er Anna Sigríður Pálsdóttir sem síðar nam guðfræði og gerðist prestur og þjónaði um tíma í Dómkirkjunni þar sem faðir hennar vann sitt ævistarf. Við eignuðumst fyrsta son okkar, Árna Pál, 1968. Gunnar fæddist svo 1971 og seinast Ragnar árið 1978.  Þeir starfa allir við kvikmyndagerð. Á námsárunum starfaði ég hjá Flugfélagi Íslands, fyrst á Reykjavíkurflugvelli en síðar sem fulltrúi félagsins á Keflavíkurflugvelli. Þetta er svona brot úr atvinnu- og fjölskyldusögu minni á þessum árum.”

Að selja gærur og lopa 

En svo tóku aðrir tímar við. “Já – eftir nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og framhaldsnám við Lundúnaháskóla (LBS) sá ég einn daginn að mér fannst athyglisverða auglýsingu í Morgunblaðinu sem barst út til okkar. Þar var verið að leita eftir aðstoðarframkvæmdastjóra fyrir Iðnaðardeild Sambands íslenskra samvinnufélaga sem þá stóð í miklum blóma. Sambandið var með á bilinu átta til níu hundruð manns við störf á Gleráreyrum á Akureyri. Þetta var einn fjölmennasti vinnustaður landsins á þeirri tíð og stóð að mikilli útflutningsstarfsemi. Ég sótti um starfið og var ráðinn þangað sumarið 1975. Þetta þýddi mikil ferðalög sem tengdust sölustarfseminni. Ég fór oft til Norðurlandanna og einnig nokkrum sinnum til Rússlands sem þá var hluti Sovétríkjanna. Ég gleymi aldrei fyrstu ferðinni þangað. Að koma til Moskvu í fyrsta sinn var eins og menningarsjokk og ég varð eiginlega fegnastur þegar ég var aftur kominn um borð í Finnair til Helsinki. En eftir því sem ég kom oftar og var farinn að kynnast Rússum kunni ég betur og betur við þá. Samskiptin við Rússa voru ævintýri út af fyrir sig og mikil reynsla fólgin í að kynnast þeim og því samfélagi sem þar var við lýði. Ég starfaði þarna í þrjú ár en ákvað þá að hætta. Fann mig ekki alveg nægilega vel í þessu og fór að kenna hagfræði við gamla skólann minn Verslunarskólann. Á þeim tíma endurvakti ég umboðsverslun sem afi minn Hans Eide hafði stofnað til á sínum tíma en hafði legið niðri um árabil. Ég stofnaði líka tunnuverksmiðju í Finnlandi til þess að smíða síldartunnur fyrir Íslendinga. En svo seldi ég fyrirtækið og venti kvæði mínu í kross.”

U-beygja til Alþýðuleikhússins

Þú fórst alveg inn á nýjar slóðir. “Já – ég breytti um starfsvettvang. Nýtt viðfangsefni tengdist þó að nokkru leyti því sem ég hafði fengist við áður það er að segja rekstri en var um annarskonar starfsemi að ræða. Ég gerðist framkvæmdastjóri Alþýðuleikhússins sem þá var tiltölulega nýtt fyrirbæri í menningarlífinu. Þarna var saman komið kraftmikið leikhúsfólk sem vildi færa leiklistina út fyrir ramma stofnanaleikhúsanna; Þjóðleikhúss og Leikfélags Reykjavíkur, sem síðar varð Borgarleikhús. Hjónin Arnar Jónsson og Þórhildur Þorleifsdóttir voru þarna fremst á sviði ásamt Ingu Bjarnason og fleira fólk kom fljótt við sögu. Má þar nefna Viðar Eggertsson, Erlu B. Skúladóttur, Margréti Ákadóttur, Sigrúnu Valbergsdóttur, Bjarna Ingvarsson og fleiri. Alþýðuleikhúsið var með róttæka stefnu enda var margt af þessu fólki virkt á vinstri kanti hins pólitíska lífs.” Hans Kristján segir þetta hafa verið talsvert öðruvísi en það umhverfi sem hann hafði lifað og hrærst í bæði í námi og störfum. “Listin hafði alltaf blundað í mér og þarna var ég orðinn spenntari fyrir henni en viðskiptum.”

Varð hugfanginn af sjónvarpi 

Og þú lést ekki staðar numið við Alþýðuleikhúsið heldur má segja að þetta hafi orðið upphaf að öðru og meiru. “Þetta var það. Við Jón Óttar Ragnarsson höfðum um nokkurn tíma verið að velta fyrir okkur að gera eitthvað saman. Ég hafði snemma orðið hugfanginn fyrir sjónvarpi. Ólafur O. Johnson forstjóri O. Johnson & Kaaber sem var vinur foreldra minna var með sjónvarp heima hjá sér. Hann var einn af þeim fyrstu sem lét reisa 15 metra háa loftstöng til þess að ná útsendingum sjónvarps bandaríska hersins á Miðnesheiði. Fyrstu kynni mín af sjónvarpi voru heima hjá Ólafi þegar ég var 11 til 12 ára en faðir minn keypti síðar sjónvarpstæki sem var í kjallaranum á Ásvallagötunni. Ég fékk bakteríu sem ég hef aldrei losnað við. Af Jóni Óttari er það að segja að hann hafði unnið nokkuð fyrir sjónvarp. Hann hafði meðal annars gert þætti með Sigrúnu Stefánsdóttur fjölmiðlafræðingi og fengið þennan sama áhuga og ég. Þetta small saman. Áhugi okkar beggja á þessu viðgangsefni varð til þess að við fórum af stað með Stöð 2. Þetta var frumkvöðlastarf þar sem þurfti að byrja á öllu frá grunni. Við vorum ekki með neina sterka bakjarla og þetta var spurning um líf eða dauða frá degi til dags. En við höfðum afskaplega gaman af þessu.”   

Hans Kristján. Myndin var tekin við opnum Stöðvar 2.

Byrjaði á Höllu Linker

Svo fórstu yfir í að gera heimildarmyndir. “Já – ég losnaði ekki við þetta og fór út í sjónvarpsþættina þegar við Jón Óttar fórum frá Stöð 2. Fyrstu þættina í röðinni ,,ÍSLENDINGAR ERLENDIS” gerði ég í Kaliforníu 1987. Halla Linker varð fyrsta fórnarlambið, mikil heimskona sem flutti út með verðandi eiginmanni sínum nýútskrifuð frá Menntaskólanum í Reykjavík. Þau hjón ferðuðust víða um vegna starfs Hal eiginmanns hennar sem vann við að gera sjónvarpsþætti. Halla hafði komið til yfir 140 landa og hafði eðlilega frá mörgu að segja. Næstur kom Helgi Tómasson listdansari og listdansstjóri og framkvæmdastjóri San Francisco balletsins. Þetta var virkilega skemmtilegt og ég fór síðan víðar um heim í þessum erindum. Ég gerði þætti um Hawaii, Gran Canaria, Möltu og marga fleiri staði. Ég gerði líka þætti um fleiri einstaklinga. Einn sá eftirminnilegasti er um Vilhjálm Stefánsson landkönnuð og svo voru þættir um Thor Thors sendiherra, Hans G. Andersen þjóðréttarfræðing sem kom mikið við sögu í þorskastríðunum við Breta og Sonju Zorrilla. Ég held að þættirnir hafi verið orðnir á bilin 20 til 30. Síðasta heimildamynd mín var ,,Frá torfbæ á forsíðu TIME” og var um ævi Sveins Kristjáns Bjarnarsonar, öðru nafni Holger Cahill, sem fæddist á Snæfellsnesi, en hann varð einn áhrifamesti maður í bandarískum myndlistarheimi, ma. forstjóri MoMA í New York, og eini Íslendingurinn sem prýtt hefur forsíðu TIME tímaritsins.”

Bókin um Gunnar varð metsölubók

“Einn þessara þátta varð undanfari bókar,” heldur Hans Kristján áfram. “Þannig var að ég var að vinna að þætti með Viðari Víkingssyni kvikmyndagerðarmanni um Gunnar Dal heimspeking og rithöfund. Hann var sýndur á RÚV 1993 og skömmu síðar spurði ég Gunnar hvort hann væri til í að skrifa bók með mér. Hann var til í það og við kláruðum bókina sem heitir “Að elska er að lifa” í júní 1994. En þegar ég fór að leita að útgefanda brá svo við að enginn vildi gefa bókina út. Ég gekk á milli forlaganna en enginn virtist hafa áhuga á svona bók, og svörin voru iðulega á þá leið að svona bók myndi aldrei seljast. Mér fannst ekki hægt að hætta við hálfnað verk og réðst því að gefa hana út sjálfur. Og viti men. Bókin varð metsölubók. Hún seldist í bílförmum og var prentuð þrisvar í nóvember og desember mánuði. Og það er enn spurt eftir henni á bókasöfnum.” En útgáfustarfsemi Hans Kristjáns lauk ekki með Gunnari Dal. Síðar gaf hann út bókina COD – biography of the fish that changed the world eða Ævisaga þorsksins – fiskurinn sem breytti heiminum, eins og hún heitir í þýðingu Ólafs Hannibalssonar. “Ég kynntist höfundi bókarinnar Mark Kurlansky á sínum tíma. Hann er blaðamaður en hefur einnig verið til sjós og var efnið því nærtækt. Mér fannst þetta stórmerkileg bók þar sem fjallað er um hin miklu áhrif sem þessi fisktegund hefur haft á líf fólks og þjóða við Atlantshafið í gegn um aldirnar.” Hans Kristján hefur komið víðar við. Hann opnaði eitt sinn gallerí í Kirkjuhvoli en segir það hafa verið erfiðan rekstur. Hann var einnig framkvæmdastjóri Þjóðarhreyfingarinnar. “Þetta var hópur lýðræðissinnaðs fólks. Þarna voru Ólafur Hannibalsson, Jónatan Þórmundsson prófessor, Einar Árnason hagfræðingur og bróðir minn, Þorvaldur Gylfason hagfræðingur, Valgerður Bjarnadóttir fyrrum alþingismaður, Hjörtur Hjartarson sagnfræðingur, séra Örn Bárður Jónsson og fleiri. Verkefni okkar var m.a. að berjast gegn fjölmiðlafrumvarpi Davíðs Oddssonar á sínum tíma sem var dregið til baka eftir að Ólafur Ragnar Grímsson nýtti forsetavald og vísaði því til þjóðaratkvæðagreiðslu. Við vorum aðal pressugrúppan í þessu. Við söfnuðum líka fyrir heilsíðu auglýsingu í New York Times þar sem stuðningi Íslands við innrás Bandaríkjanna í Írak var mótmælt. Síðan í New York Times kostaði þá yfir fjórar milljónir íslenskra króna.” Þjóðmálin eru Hans Kristjáni jafnan nærtæk ekki síður en heimildamyndagerðin. “Hringbraut ætlar að halda áfram að sýna þættina mína á næstunni.”

You may also like...