Tæknina til framfara án fíknar

  •  – Heilsueflandi Breiðholt –

Tölvu- og skjátækni hefur fleygt fram á miklum hraða síðasta áratuginn. Vel yfir 90% allra Íslendinga eru í dag nettengdir og mjög stór hluti þeirra er sítengdur í gegnum farsímann. Þessu fylgja bæði kostir og gallar sem samfélagið hefur brugðist hikandi við vegna þess hve þróunin hefur verið hröð.  Nú, þegar hægt hefur á þróuninni, rannsóknarniðurstöður vísindamanna að koma fram og langtíma afleiðingar skjánotkunar að skýrast hefur skapast grundvöllur til að bregðast við í samfélagi okkar.

Þráinn Hafsteinsson.

Við snúum ekki þróun tækninnar við og eigum hiklaust að nýta jákvæðu afleiðingar hennar samfélaginu til framdráttar.  En við eigum hiklaust að setja reglur og viðmið í okkar samfélagi sem takmarka skaðann sem fylgir t.d. óhóflegum skjátíma.

Hver rannsóknin á fætur annarri sýnir nú að óhóflegur skjátími stuðlar að hreyfingarleysi, hamlar tengslamyndun og truflar nám og svefn.  Það að hreyfa sig ekki, hafa ekki samskipti, sinna ekki námi og sofa illa veldur svo pirringi, reiði, kvíða og óöryggi. Hluti hinnar nýju tækni er hönnuð með það í huga að gera notkunina ávanabindandi, að notkunin leiði til fíknar.  Við þeim hluta tækninnar verðum við sem samfélag að bregðast. 

Við verðum að sameinast um reglur eða mörk á skjátíma eins og gert var um útivistartíma, reykingar og aðra ávanabindandi neyslu fyrir mörgum árum hér á landi og eru í gildi enn.  Að börnin og unglingarnir fái samræmd skilaboð og viðmið til að fara eftir um skjátíma t.d. heima, í skólanum, í íþróttafélaginu, félagsmiðstöðinni eða hverfinu sem auðveldar foreldrum og öllum í samfélaginu að hjálpa börnum að nýta tæknina en koma í veg fyrir að þau ánetjist skjáfíkninni.

Þráinn Hafsteinsson

Verkefnastjóri Þjónustumiðstöð Breiðholts

You may also like...